Tuesday, April 27, 2010
Við viljum meiri Texas-körfubolta
Úrslitakeppnin í NBA hefur ekki valdið vonbrigðum frekar en venjulega.
Austurdeildin hefur reyndar verið áberandi lakari en Vesturdeildin, en það er nú ekkert nýtt.
Undanfarið hafa verið fjögur mjög sterk lið í Austurdeildinni en nú er svo komið að þau eru bara tvö.
Það er því ekkert skrítið að fólk sé ekki nagandi á sér neglurnar af spenningi yfir fyrstu umferðinni þar, svona rétt á meðan verið er að sópa liðum sem hafa lítið sem ekkert erindi í úrslitakeppnina í burtu.
Það er ástæða fyrir því að við erum að tala um lið sem hafa ekkert í úrslitakeppnina að gera. Ástæðan er sú að annað hvort Dallas eða San Antonio þarf að sætta sig við að falla úr leik í fyrstu umferðinni og það er ekkert minna en stórskandall.
Tvö einvígi í úrslitakeppninni hafa borið af í fyrstu umferðinni. Allir eru með annað augað á viðureign LA Lakers og Oklahoma, og það réttilega, af því þar er á ferðinni magnað einvígi. Algjörlega magnað.
Og hitt er einvígi Texas-liðanna Dallas og San Antonio. Algjör klassík eins og jafnan þegar þessi lið eigast við á vorin.
Þetta einvígi hefur allt sem góð rimma þarf að hafa. Stórstjörnur, sóknartilþrif, frábæran varnarleik, óvæntar hetjur og svo auðvitað helling af blóði og látum. Texas-style ho-down!
Og annað þessara liða þarf að fara í sumarfrí. Sem er grátlegt.
Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem San Antonio er sökudólgurinn í þessari stöðu, því liðið er miklu betra en staða þess í deildinni segir til um. En það er víst ekki hægt að kenna leikmönnum um það að hafa verið meiddir af og til í allan vetur.
Það verður samt átakanlegt í alla staði að sjá á eftir öðru þessara liða út úr úrslitakeppninni á næstu dögum, á meðan lakari lið fara í aðra umferð.
Cleveland, Orlando og LA Lakers. Þetta eru liðin sem fyrir fram væru talin sigurstranglegri í seríu á móti Dallas og San Antonio ef hún byrjaði í dag. Önnur lið? Ekki svo.
Við höfum að þessu tilefni lagt fram þingsályktunartillögu um að Miami Heat verði vikið úr úrslitakeppninni og að liðið sem tapar Mavs-Spurs seríunni fái að halda áfram í staðinn.
Við völdum Miami af því liðið og stuðningsmenn þess eru í alla staði grátlegir (fyrirgefðu, Dwyane) og af því liðið hefur boðið upp á eina leiðinlegustu seríuna í úrslitakeppninni.
Við erum reyndar í alla staði opin fyrir því að senda Charlotte út í stað Miami.
Charlotte lét nú einu sinni sópa sér út og þó við elskum baráttuna og varnarleikinn hjá Köttunum, erum við blinduð af óskiptu hatri í garð Larry Brown.
Ekkert myndi gleðja okkur meira en að láta þá mann-hóru þurfa að hanga aðeins lengur í 25546356. þjálfarastarfi sínu í NBA deildinni - áður en hann mellast á næsta klúbb (verði Sixers að góðu).
Möguleikarnir eru vissulega fleiri. Hvað með Atlanta ef liðið tapar öðrum leik á móti miðherjalausu Milwaukee-liði sem var brandari fyrir þremur mánuðum síðan?
Eða Denver, sem er ekki langt frá því að detta út í fyrstu umferð þrátt fyrir heimavallarrétt á móti liði án tveggja byrjunarliðsmanna?
Tökum allt til greina.
Af því við erum fífl og af því við viljum ekki sjá bestu liðin í deildinni falla út í fyrstu umferð.
Og við vorum allt í einu að fatta að þessi nákvæmlega sama teóría gæti átt við um einvígi LA Lakers og Oklahoma... amk ef Oklahoma vinnur einn leik í viðbót í einvíginu.
Þá verður það klassík ef það er ekki þegar orðið það.