Tuesday, April 27, 2010

Dwight Howard spilaði lítinn körfubolta í fyrstu umferðinni


Við verðum að hrósa mönnum þegar það á við.

NBA Ísland vill nota þetta tækifæri til að óska Orlando Magic til hamingju með að verða fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í annari umferð úrslitakeppninnar með því að sópa Charlotte Bobcats út 4-0 í kvöld.

Við reiknuðum með að þessi sería yrði mun meira spennandi en raun bar vitni en þð er aldrei tilviljun þegar liðum er sópað út í sjö leikja seríum.

Leikmenn Charlotte börðust vel og fá kúdós á það, en sóknarleikur liðsins er bara ekki til staðar.

Þessi sería var nokkuð áhugaverð þrátt fyrir að vera svona ójöfn. Dwight Howard mun ekki veita af fríinu sem hann fær eftir þessa seríu, því hann er búinn að vera í ruglinu allt einvígið. Dómarar eru farnir að leggja hann í einelti af því hann biður um það.

Howard er búinn að verja rosalega mikið af skotum, en hann er með fleiri villur en varin skot að meðaltali í leik. Tölfræðin ekki beint dómínerandi. Innan við 10 stig að meðaltali í leik, innan við 10 fráköst, of margir tapaðir boltar, grátleg vítanýting og innan við 50% skotnýting. Þarna fer svokallaður besti miðherji deildarinnar, sem eyddi bróðurpartinum af þessu einvígi grátandi á bekknum í villuvandræðum.

Ekki fékk Orlando mikið meiri hjálp frá stjörnunni Vince Carter. Nægir að nefna þriggja stiga nýtinguna hans í einvíginu. Einn þristur - í sautján tilraunum. Klassík.

Orlando getur þakkað Jameer Nelson að ekki fór verr í þessu einvígi. Hann var töffari. Bætti sig um tólf stig að meðaltali frá því í deildakeppninni og kláraði tvo leiki fyrir Orlando.

Venjulega myndum við vilja hrósa Orlando að ná að sópa þessu einvígi þrátt fyrir að vera með menn eins og Howard og Carter í meira rugli en venjulega, en við tökum "glasið er hálftómt" stefnuna á þetta og kjósum að líta þannig á málið að Orlando þurfi að pappíra sig.