Wednesday, April 21, 2010

Næstum því


Staðan í einvígi Oklahoma og LA Lakers er orðin 2-0 fyrir Lakers, sem vann nauman sigur í öðrum leik liðanna í gær.

Það var greinilegt að guttarnir í Oklahoma eru ekki alveg tilbúnir í meistarana ennþá, en það þýðir ekki að þeir hafi ekki barist hetjulega. Með smá heppni hefðu þeir geta stolið leiknum í gær.

Nú fer einvígið til Oklahoma þar sem stemmingin verður vafalítið rosaleg í leikjum þrjú og fjögur. Þyrfti ekki að koma á óvart þó heimamenn næðu að gera seríu úr þessu þar.

Lakers-liðið virkar ekki eins sterkt og það hefur verið. En þegar öllu er á botninn hvolft, er liðið búið að vinna tvo fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni og það er víst ekki hægt að gera betur.

Atlanta virðist ekki ætla að verða í miklum vandræðum með miðherjalaust Milwaukee-liðið. Atlanta er búið að vera undir í samtals eina og hálfa mínútu eða svo í fyrstu tveimur leikjunum.

Miami og Boston á skjánum um helgina.

Boston er líka í góðum málum eftir að hafa varið heimavöllinn gegn Miami. Tökum það ekki af Boston að liðið er að spila sína bestu vörn á árinu, en Miami er að bregðast væntingum okkar algjörlega það sem af er. Grátlega lélegt.

Miami-mönnum er hollara að spila betur á heimavelli sínum, því leikir þrjú og fjögur verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport um helgina (föstudag og sunnudag).

Við vorum búin að greina frá því að leikur fjögur hjá San Antonio og Dallas yrði á dagskrá á sunnudagskvöldið, en það er tóm vitleysa. Það voru engir aðrir leikir í boði fyrir stöðina en þessir Boston-leikir og þannig er það bara.