Thursday, April 22, 2010

Ósýnilegi maðurinn sást í Dallas


Við sögðum ykkur að einvígi Dallas og San Antonio yrði líklega eitt það skemmtilegasta í fyrstu umferðinni og það er sennilega eini spádómur okkar sem er ekki farinn til helvítis.

San Antonio mætti grönnum sínum af hörku í kvöld og hefur jafnað metin í 1-1. Næstu tveir leikir í San Antonio.

Það var allt annað að sjá til Spurs í þessum leik en þeim fyrsta, enda hraunaði Popovic þjálfari yfir sína menn eftir fyrsta leikinn.

Kallaði þá rakka og óskaði eftir því að þeir færu að spila "eins og þeim væri ekki skítsama."

Það hjálpaði að Dirk Nowitzki var ekki með 300% skotnýtingu í þessum leik, en nokkur atriði skiptu mestu máli í þessum viðsnúningi.

San Antonio passaði betur upp á boltann og frákastaði betur en í leik eitt. Vörn Dallas var ekki eins góð og svo poppaði ósýnilegi maðurinn, Richard Jefferson, upp á hárréttum tíma og sallaði 17 af 19 stigum sínum niður í fyrri hálfleik. Sýndi nánar tiltekið af hverju hann var fenginn til liðsins á sínum tíma.

Og Tim Duncan datt í retro-gírinn og ísaði áhlaup Dallas í fjórða leikhlutanum.

Mjög flottur sigur hjá Spurs, sem hafa ekki sagt sitt síðasta í þessu einvígi. Spáum að liðin skipti með sér leikjunum tveimur í San Antonio.

Það er svo greinilegt að San Antonio spilar ekki sömu vörn og áður. Dallas getur alltaf náð smá áhlaupum á þá, en sóknarleikur Spurs hefur batnað til muna eftir að það fékk alla sína menn aftur úr meiðslum.

--------

Einvígi Orlando og Charlotte hefur valdið okkur nokkrum vonbrigðum. Það fór vel af stað, en Charlotte er bara ekki með næg vopn til að gera seríu úr þessu.

Þeim hefur tekist að klippa Dwight Howard mikið út, en þú ert ekki að fara að vinna einvígi við Orlando ef þú ert bara með tvo menn í liðinu sem geta skorað 20 stig á góðum degi.

Leikmenn og þjálfarar Orlando gráta mikið yfir því að Dwight Howard fái enga virðingu frá dómurum. Við verðum að taka undir það að villurnar sem er verið að dæma á hann eru sumar hverjar gjörsamlega fáránlegar.

Staðreyndin er hinsvegar sú að menn ávinna sér virðingu. Og það er Howard ekki búinn að gera. Hann gerir nokkra hluti mjög vel, en hann er enn klaufskur, brýtur asnalega af sér og er ekki með "virðingarverðan" sóknarleik.