Thursday, April 15, 2010

Kevin Durant skorar stig í körfubolta þrátt fyrir ungan aldur


Kevin Durant hjá Oklahoma varð í gær yngsti stigakóngur í sögu NBA.
Þessi 21 árs gamli skorari var með 30 stig að meðaltali í vetur með einu yngsta liði deildarinnar og er ein helsta ástæða þess að það vann 50 leiki. Hann er ekki bara frábær sóknarmaður, heldur einnig prúður drengur og þeir eru ekki of margir í deildinni.

Thunder bætti sig um 27 sigurleiki frá því í fyrra, þegar það byrjaði leiktíðina 3-29 á sínu fyrsta tímabili í Oklahoma.

Það er ekki hægt að hrósa þessu liði og þjálfaranum Scott Brooks nógu mikið fyrir veturinn. Og nú fær þetta spútniklið alvöru eldskírn í úrslitakeppninni á móti meisturunum í LA Lakers.

Phil Jackson þjálfari Lakers virðist vera smeykur við guttana, því hann er farinn í sálfræðistríð við Kevin Durant í fjölmiðlum. Endurómar 25 þúsund dollara skoðun Kevin Garnett frá því um daginn og segir að Durant fái sérmeðferð frá dómurum.

Nákvæmlega enginn klassi í þessum ummælum Jackson. Við höfum alveg séð Durant fara nokkrum sinnum ódýrt á vítalínuna, en hann er ekki sá eini sem fær slíka meðferð. Og ekki fékk hann stjörnumeðferðina í leiknum á móti Utah um daginn.

Við vonum að Oklahoma-menn nái sér vel á strik á móti Lakers og geri úr þessu hörku seríu.