Friday, April 16, 2010

Við erum með óráði


Sextíu þúsund dollarar.

Það er upphæðin sem NBA deildin er búin að hrifsa úr vösum Kevin Garnett og nú síðast Phil Jackson fyrir að gagnrýna meinta sérmeðferð sem Kevin Durant hjá Oklahoma á að vera að fá hjá dómurum í NBA.

Það er hægt að gera ansi margt fyrir þennan pening. Annað en að rífa kjaft eins og unglingur í uppreisn.

Ætli það sé að fara í taugarnar á gömlu hundunum að sé að koma upp frískur Doberman-hvolpur sem ógnar veldi þeirra?

Nei, varla. Garnett og Jackson verða væntanlega báðir hættir áður en Durant nær að spila til úrslita um NBA titilinn.

Nema hann ætli að gera það í sumar.

Þið sem fylgist eitthvað með gangi mála í NBA ættuð að vita að Philadelphia er búið að reka Eddie Jordan og að Kim Hughes hefur verið rekinn frá LA Clippers. Ekki beint óvænt tíðindi - né fréttir sem fá fréttamenn til að yfirgefa gosstöðvarnar.

Spurning yfir höfuð af hverju við erum að minnast á það hér. Kannski til að reyna að framkalla uppköst, sem í besta falli gætu flýtt fyrir bata ritstjórnarinnar. Flensan hefur herjað hér á menn og mýs síðustu daga. Og það er farið að hafa neikvæð áhrif á ritstörf.

En póstarnir sem við fáum frá ykkur, kæru lesendur, hjálpa okkur mikið í þessum ónotum. Hlaða í okkur góðum anda.

Það er í raun ótrúlegt, að á miðjum hamfaratímum í efnahagsmálum, pólitík og meira að segja í náttúrunni, skuli fólk enn nenna að setjast við tölvu og láta í sér heyra ef það er ánægt með eitthvað. Slíkt heyrum við ekki úti á götu eða lesum á Facebook.

En inboxið á NBA Ísland er alltaf fullt af góðum anda. Fegurð leiksins nær langt út fyrir völlinn. Takk fyrir okkur.

Um hvað snerist þessi færsla aftur...?