Wednesday, April 14, 2010
Svona vinnur Golden State körfuboltaleiki
Við verðum að viðurkenna að það kemur okkur mjög mikið á óvart þegar Golden State vinnur leiki.
Þjálfari liðsins er óður vísindamaður í sókn og níhílisti í vörn, liðið hefur keyrt á sjö til átta mönnum í allan vetur af því helmingurinn af liðinu er alltaf á sjúkralista og þar fyrir utan er liðið hreint ekki vel skipað.
Leikmenn Warriors hafa misst úr um 500 leiki samtals í vetur, sem er eiginlega bara fyndið frekar en nokkuð annað.
Hvernig fer þetta lið þá eiginlega að því að vinna körfuboltaleiki?
Jú, það er af því mótherjar liðsins vita ekki hvernig þeir eiga að haga sér þegar þeir mæta Warriors.
Að spila á móti Warriors er eins og að fara inn í hnefaleikahring á móti átta ára gamalli stelpu. Þú kannt bara ekki við að rota hana. Þó þú getir það og eigir að gera það.
Stóru mennirnir fá boltann niðri á blokkinni og það kemur enginn að dekka þá. Bakverðir fá eina hindrun og eru galopnir. Menn eru ekki vanir þessu. Þeir vita ekki hvað þeir eiga af sér að gera.
Stephen Curry er svo bókstaflega gott dæmi um þetta. Hann er álíka ógnandi og Lára í Húsinu á Sléttunni. Menn bara fá sig ekki til þess að fara að gefa honum olnbogaskot í rifbeinin eða lemja hann í gólfið þegar hann fer upp í sniðskot.
Svo keyrir hann framhjá þér og smellir tveimur þristum í andlitið á þér, þú ferð að elta, missir sjónar af leikplaninu, lætur frábæra áhorfendur æsa þig upp og allt í einu ertu búinn að tapa fyrir Golden State.
Svona er lífið skrítið í NBA.