Wednesday, April 14, 2010

Af nautaati og nautabönum


Fréttamiðlar ytra gera sér nú mat úr gamalli frétt sem lak út í kvöld.

Þar er sagt að John Paxon, forseti Chicago Bulls, hafi reynt að pikka slagsmál við Vinny Del Negro þjálfara liðsins eftir leik þann 30. mars sl.

Deilur þeirra félaga voru að sögn vegna ágreinings spilatíma Joakim Noah. Spes.

Þetta er nokkuð skondið mál. Það fyrsta sem okkur datt í hug þegar við heyrðum þetta var hvort Del Negro væri virkilega ekki búinn að fá nóg af skít frá Paxon og hans mönnum í brúnni.

Þið munið væntanlega eftir því í vetur þegar það lak út að Paxon væri búinn að ákveða að reka Del Negro eftir dapurt gengi Chicago, en ekkert varð af því þegar tókst ekki að finna annan þjálfara. Mjög neyðarlegt.

Chicago kom virkilega á óvart í úrslitakeppninni í fyrra, en í stað þess að byggja á því, sendi félagið frá sér skotbakverðina Ben Gordon og John Salmons, sem síðan hefur farið á kostum með Milwaukee Bucks.

Annað sem okkur datt í hug.

Nú er mjög tvísýnt hvort það verður Chicago eða Toronto sem nær áttunda sætinu í Austurdeildinni og þar með síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina. Toronto stendur betur þegar þetta er skrifað, er með betri stöðu í innbyrðisviðureignum, en það yrði áfall ef Toronto færi inn í stað Chicago.

Bulls-liðið er miklu betur byggt til að fara í úrslitakeppni en nautabanarnir í Toronto, sem auk þess eru án Chris Bosh.

Það þýðir þó ekki að þessi lið eigi skilið að fara í úrslitakeppni. Toronto-liðið er illa samansett og hefur ekkert í úrslitakeppni að gera, en þó Chicago henti betur í slaginn, þykir okkur liðið ekki eiga skilið að komast í bónusumferðina í ár.

Chicago hefur á margan hátt verið óstöðugasta liðið í NBA í vetur. Eitthvað af því skrifast jú á meiðsli og allt það, en samt. Chicago og Toronto eru ekki nógu góð til til að eiga skilið að fara í úrslitakeppni á meðan miklu betri lið í vestrinu sitja heima og horfa á þetta í sjónvarpinu. Það er bara þannig.

Meiri neikvæðnin sem vellur upp úr okkur í þessari flensu.