Saturday, April 17, 2010

Úrslitakeppnin er byrjuð - Spáin komin í hús


Í dag er sannkallaður hátíðardagur. Úrslitakeppnin í NBA er að byrja.

Leikar hefjast nú um klukkan 19 og teitinu lýkur ekki fyrr en undir morgun.

Eins og fram hefur komið hefur ritstjórnin legið í heljarpestum síðan á páskum og því varð ekkert úr því að við gerðum rándýra upphitun fyrir úrslitakeppnina.

Ætlum samt að reyna að klóra í bakkann með smá pælingu sem tæplega verður þó tímamótaverk.

Fyrst gerðum við heimatilbúinn úrslitabrakka með heildarspá okkar fyrir úrslitakeppnina (smelltu til að stækka myndina). Hann er eingöngu til þess að þið lesendur getið hlegið ykkur máttlausa yfir ævintýralega lélegum spádómsgáfum okkar hérna á ritstjórninni. Allt fyrir ykkur.

Svo er ekki úr vegi að líta aðeins á einvígin í fyrstu umferðinni:

AUSTURDEILD:

Cleveland (1) - Chicago (8): Þessi rimma ætti með öllu að verða ein sú ójafnasta í allri úrslitakeppninni. Við gefum Bulls einn sigur þarna af því þeir eru svo seigir og af því lykilmenn Cleveland gætu orðið dálítið ryðgaðir í byrjun. Það kæmi ekkert rosalega á óvart ef Bulls næði aðeins að stríða Cavs, en Cleveland vinnur þessa rimmu örugglega.

Boston (4) - Miami (5): Þetta verður mjög áhugaverð rimma. Veltur mjög mikið á því hvort Boston nennir að taka þátt í henni eða ekki. Miami er alls ekki gott lið, en Dwyane Wade er um það bil helmingi betri leikmaður en nokkur annar spilari í þessari seríu. Wade gæti gefið leikmönnum Celtics martraðir og það gætu ferskir fætur Miami-manna gert líka. Boston á að vinna þessa seríu en við erum með óbragð í munninum eftir að hafa horft upp á liðið spila undanfarnar vikur og því ætlum við að spá Miami sigri í oddaleik.

Orlando (2) - Charlotte (7): Orlando ætti að vinna þessa seríu án mikilla vandræða, en x-faktórarnir eru rosalega margir. Til dæmis Larry Brown, Stephen Jackson og Vince Carter. Þetta er sú sería sem við eigum hvað erfiðast með að lesa í. En Orlando ætti að vinna þetta nokkuð örugglega. Nóg pláss fyrir óvænta hluti þarna samt.

Atlanta (3) - Milwaukee (6): Atlanta er betra lið og vinnur þessa seríu. Andrew Bogut er meiddur hjá Bucks og Brandon Jennings er nýliði. Gefum Bucks tvo sigra af því Atlanta er ekki alveg nógu sannfærandi og af því Milwaukee er seigt lið þjálfað af Scott Skiles - og hefur engu að tapa.

VESTURDEILD:

LA Lakers (1) - Oklahoma (8): Við rennum blint í sjóinn þarna og segjum að Oklahoma vinni tvo leiki í þessari seríu. Við höfum ekki hugmynd um hvernig Lakers-liðið mætir til leiks í þessa seríu. Það kæmi okkur ekkert á óvart þó Lakers myndi rúlla þessu upp, en við ætlum að tippa á að hvolparnir stríði þeim aðeins.

Denver (4) - Utah (5): Þessi sería er stór ráðgáta. Ef George Karl væri að þjálfa Denver, færi þessi sería 4-1 fyrir Denver af því liðið er með heimavöllinn og meiðsli gera það að verkum að Jazz á engin svör við Carmelo Anthony (og hafði þau ekki fyrir heldur). Við gefum Jazz þó tvo sigra í þessu af því Denver er búið að vera í vandræðum og af því Sloan hlýtur að nýta sér að vera miklu betri þjálfari en Dantley. Denver vann einvígið við Utah í vetur og þar af einu sinni án Anthony og Billups. Go figure.

Dallas (2) - San Antonio (7): Við tippum á að þetta verði skemmtilegasta serían í fyrstu umferð. Hvert einasta bein í okkur langaði að spá Spurs sigri, en betri vitund kom í veg fyrir það. Dallas hefur rúllað Spurs upp undanfarin ár og af hverju ætti það að breytast núna? Við yrðum þó alls ekki hissa ef Spurs stælu þessu (og færu fyrir vikið í úrslit Vesturdeildar).

Phoenix (3) - Portland (6): Phoenix er heitasta liðið í Vesturdeildinni í dag og Portland er vængbrotnara en venjulega án Brandon Roy. Blazers leggjast ekki niður og grenja í þessari seríu, en eiga engan séns. Formsatriði hjá Phoenix og líklega auðveldasta rimman til að spá fyrir um í allri úrslitakeppninni.