Monday, April 19, 2010
Þetta gerðist í gær
LA Lakers 1 - Oklahoma 0
Fyrsti leikur LA Lakers og Oklahoma fór eftir bókinni ef marka mátti fræðiupphitanir fyrir þessa seríu.
Oklahoma átti erfitt uppdráttar frá fyrstu mínútu, en það er gríðarlega erfitt að slá þetta lið út af laginu. Til þess er varnarleikur liðsins allt of góður.
Einhver á eftir að benda á að Kevin Durant hitti ekkert í sínum fyrsta leik í úrslitakeppninni - með Ron Artest í grímunni, en það gerði Kobe Bryant ekki heldur.
Mikið var búið að spá í það hvernig Lakers-liðið myndi mæta til leiks í úrslitakeppninni og þeir gulu eru eflaust ágætlega sáttir við sig eftir þennan fyrsta leik. Vörnin hjá þeim flott og sömu sögu er að segja um Oklahoma.
Flott frumraun hjá þeim, en stóru strákarnir hjá Lakers eru bara of mikið fyrir þessa gutta og það eru þeir frekar en nokkuð annað sem tryggir Lakers sigur í þessari seríu. Hún gæti þó klárlega orðið mjög skemmtileg.
Orlando 1 - Charlotte 0
Fyrsti leikur Orlando og Charlotte var mjög flottur. Það verður skemmtileg sería út í gegn ef Kettirnir klóra svona harkalega frá sér eins og þeir gerðu í þessum leik. Yndisleg geðveiki í þessu liði. Flott vörn og harka. Vantar ekkert rosalega mikið upp á að gera þetta að hörkuliði.
Orlando byrjaði eftir bókinni og sullaði þristum. Jameer Nelson heitari en allt og Dwight Howard hótaði 20 vörðum skotum. Þar með var það upp talið.
Charlotte hefði líklega unnið þennan leik ef Vince Carter (4-19 í skotum) hefði ekki farið af velli með sína sjöttu villu þegar nokkrar mínútur lifðu leiks.
Súrt að sjá höfðingja eins og Mikael Pietrus og JJ Redick sitja á tréverkinu meðan Vince raðar múrsteinum sem fengju Tommy Johnson til að gretta sig.
Dwight Howard var líka dómínerandi í sóknarleiknum og náði meira að segja að jafna þar framlag Theo Ratliff (2-4 í skotum, 5 stig), hirða 7 fráköst og fá 6 villur (fékk bara 5 skráðar á sig af því dómararnir þorðu ekki að dæma þá sjöttu á hann þegar hann lamdi Gerald Wallace í hausinn þegar nokkuð var eftir af leiknum).
Howard og Carter skvettu þarna einu stykki 20 lítra olíubrúsa á eineltiseldinn okkar hérna á NBA Ísland og verða bara að gjöra svo vel að lifa með því.
Dallas 1 - San Antonio 0
Einvígi Dallas og San Antonio ætlar að verða algjör rjómi eins og við vonuðum. Mikið áhyggjuefni fyrir Spurs að þeirra bestu menn voru að spila ágætlega í þessum leik en samt áttu þeir ekki breik í Dallas.
Dirk Nowitzki var fullkomlega í ruglinu heitur og menn eins og Butler og Marion stigu á stokk og bættu fyrir slakan leik Jason Terry. Þá er lengdin á Dallas í miðjunni ekkert að hjálpa Spurs.
Ó, já - og var einhver búinn að hringja í Hreinsitækni og panta tankbíl til að þrífa upp eftir Richard Jefferson? Gaurinn heldur bara áfram að skilja eftir sig úrgang af áður óþekktum toga á vellinum.
Fyndið hvað Manu er bara orðinn allt í spilinu hjá liðinu. Parker ekki að keyra mikið, enda nær Dallas alltaf að fela Kidd í vörninni. Ekki gott fyrir þá svörtu.
Phoenix 0 - Portland 1
Og síðast en ekki síst. Einvígið sem við spáðum að yrði það ójafnasta í fyrstu umferðinni.
Það fór að sjálfssögðu þannig að Portlant varð eina liðið í fyrstu átta leikjunum í úrslitakeppninni til að vinna á útivelli.
Spádómsgáfa okkar hérna á ritstjórninni er ævintýralega léleg og við erum stolt af því.
Þetta einvígi er auðvitað ekki búið og Phoenix vinnur það, en þegar svona er þurfa menn bara að taka ofan hattana.
Taka ofan fyrir Nate McMillan, sem er frábær þjálfari. Fyrir Andre Miller og Marcus Camby og fyrir frábærri baráttu, karakter og varnarleik Portland.
Amare Stoudemire fær hinsvegar engan Thule fyrir frammistöðu sína í fyrsta leik.