Friday, December 31, 2010
Koma svo og kjósa krakkar!
Nú er síðasti séns til að senda inn tillögur áður en við tökum saman og birtum 2010 annálinn á NBA Ísland. Skottastu til að senda okkur línu á nbaisland@gmail.com og segðu okkur hvað þér fannst skemmtilegast á vefnum á árinu. Það er hvorki flókið né erfitt og þú hefur ekkert betra að gera það sem eftir er af árinu. Þeir sem senda okkur póst komast í náðina hjá ritstjórninni og það er stórkostlegur heiður.
Á þessum degi fyrir 20 árum: Skiles setur met með 30 stoðsendingum
Já, það er lítill, brjálaður og hálfsköllóttur hvítur strákur sem á metið yfir flestar stoðsendingar í einum leik í NBA deildinni. Það er Scott Skiles, núverandi þjálfari Milwaukee, þáverandi leikmaður hins nýstofnaða Orlando Magic liðs. Hér fyrir neðan geturðu séð hverja einustu snuddu frá honum í þessum leik. Denver var liðið til að mæta ef setja átti met í þá daga.
Thursday, December 30, 2010
Góðir Áhorfendur: Flautukarfa Ársins 2010
Það fá allir eitthvað fyrir sinn snúð í NBA deildinni. Líka hræðileg lið eins og Sacramento Kings. Menn skora ekki svona flautukörfur úti á skólavelli þó þeir reyni það 30 sinnum. Bókaðu þessa frá Tyreke Evans í topp 10 tilþrif vetrarins. Lygilegt efni. Þessi leikur er svooo fallegur að við gætum grátið.
Wednesday, December 29, 2010
Hvað stóð upp úr á NBA Ísland á árinu 2010?
Jæja krakkar. Þá er árið 2010 að verða búið. Um áramót er venja að líta aðeins um öxl og það gerðum við með því að skoða gamlar færslur. Það var hressandi. Ótrúlega margt skemmtilegt sem gerðist á árinu og við skorum á nýjustu lesendur að spóla til baka og skoða elsta efnið.
Það væri líka gaman ef þið, lesendur góðir, gæfuð ykkur tíma til að kafa í arkhævið okkar til að rifja upp árið og sendið okkur svo línu. Segið okkur hvað stóð upp úr á árinu á NBA Ísland. Hvað var athygliverðast og hvað skemmtilegast í sambandi við greinar, myndir, myndbönd, myndasögur og fréttir?
Það væri gaman að birta svo það vinsælasta í stuttum annál hérna um áramótin, það er ef einhver nennir að rifja þetta upp.
Sendið endilega línu á nbaisland@gmail.com og gefið ykkar atkvæði
NBA Ísland er upp með sér
Þú veist að þú ert að gera góða hluti á Twitter þegar þú ert retweet-aður af svona piece of work.
Gott að vita að allir eru að fylgjast með. Líka stúlkur (drengir?) í Texas.
Tuesday, December 28, 2010
Gilbert Arenas er frekar vanur körfuboltamaður
Gilbert Arenas er kannski ekki sami leikmaður og hann var fyrir nokkrum árum, en hann er ekki búinn að týna mojoinu sínu. Honum finnst til dæmis þessi 75-fetari gegn Nets vera álíka merkilegur og íhaldsmaður í vesturbænum. Svo er hann bara hissa og hálf pirraður yfir því að karfan sé ekki góð, þó boltinn hafi augljóslega skoppað af skotklukkunni. Rólega vanur gaur. Reyndar heldur þulurinn líka að karfan sé góð, sem er áhugavert.
Tvöfalt líf Blake Griffin
Auðvitað erum við að reyna að forðast að Blake Griffin-a yfir okkur hérna á síðunni en það er ekki jafn auðvelt og það hljómar.
Okkur langaði bara að skjóta því að að pilturinn er nú kominn með 19 tvöfaldar tvennur í röð og alls 24 fyrir áramót á nýliðaárinu sínu.
Það hefur aðeins einn maður afrekað í NBA síðustu þrjá áratugi, hinn geðþekki Dikembe Mutombo Mpolondo Mukamba Jean-Jacques Wamutombo á nýliðaári sínu með Denver Nuggets.
Griffin MUN slá þetta met annað kvöld gegn Utah Jazz, mjög líklega í fyrri hálfleik, ef tekið er mið af því að Marcus Camby hirti ein 12 fráköst í fyrri hálfleik á móti Jazz í nótt sem leið.
Við erum alltaf að hitta fólk úti á götu sem segir við okkur; "Heyrið mig, hvað er málið með þennan Griffin-kall þarna - ha?"
Það eina sem við gerum er að glotta og kinka kolli, eins og til að segja "yeah, we know" eins og stoltur faðir ameríska drengsins sem er fyrirliði og leikstjórnandi ruðningsliðs bæjarins og er við það að barna sætustu klappstýruna (sonurinn, þið vitið... ekki faðirinn... æ, gleymdu þessu).
Piltar eins og Griffin gefa deildinni okkar nauðsynlegt aðdráttarafl og það er um að gera fyrir þá sem eldri eru að sýna yngri kynslóðinni myndbrot af Blake Griffin þar sem hann er að vanvirða fólk með óguðlegum troðslum sínum.
Hver veit nema börnin kjósi sjálf í framtíðinni að slasa aðra með slíkum troðslum, húðflúra vörumerki Spalding á enni bjargarlausra varnarmanna og slátra tveggja metra menn í hraðaupphlaupum líkt og Blake gerir á myndinni hér fyrir neðan.
Ju, hvað það yrði fallegt!
Viðurnefni óskast
Heyrst hefur að menn séu að reyna að klína viðurnefninu "Poster Child" á Blake Griffin. Það meikar svo sem sens, en er samt ekki nógu hrikalegt að okkar mati. Þyrfti helst að vera eitthvað sem tengist þungavinnuvélum og/eða gereyðingarvopnum.
Við vitum það, Hedo. Sjáum það líka.
Aðeins eitt lið í allri NBA deildinni hefur jákvætt vinningshlutfall gegn Boston Celtics síðan Kevin Garnett og Ray Allen gengu í raðir liðsins árið 2007.
Það er Orlando Magic, sem er 14-11 gegn þeim grænu, ef úrslitakeppni er tekin með.
Hedo á sinn hlut í því. Hann er kominn aftur heim til Flórída eftir Bjarmalandsför til Kanada og Arizona. Stigahæstur í nótt. Virðist hafa fundið gamla mójóið sitt.
Svona er þetta undarlegur leikur stundum.
Stillum okkur, Flóamenn
Eins og við sögðum frá í færslu í gær, hefur lið Warriors ekki komið manni í stjörnuleik síðan árið 1997.
Stuðningsmenn liðsins, og þeir eru með þeim betri í NBA, mættu samt aaaaaðeins róa sig á því að syngja "MVP - MVP - MVP" þegar Monta Ellis er að taka vítaskot.
Þið eruð miklu betri en þetta, Flóamenn.
Andrei Kirilenko spilar körfubolta og skoðar íbúðir í Hafnarfirði
Andrei Kirilenko fór af velli í nótt vegna bakmeiðsla. Nokkuð sem gerist árlega hjá honum, mislengi í hvert skipti. Hann er því titlaður "day to day" núna - óvíst en ekki ómögulegt að hann taki þátt í næsta leik.
Kirilenko setur hugtakið day to day í átakanlegt samhengi þegar haft er í huga að hann er með rúmar 25 milljónir króna í laun fyrir hvern einasta leik. Nóg til að kaupa þokkalega 150 fermetra íbúð í Hafnarfirði.
"Já, ætli ég fái ekki hjá þér 82 íbúðir í Hafnarfirði."
Hvað er liðið þitt að fara að gera ef þú ert að borga rulluspilara sem lítur út eins og reið lesbía hærri laun en bæði LeBron James og Dwyane Wade?
Eins og Larry Miller hafi ekki velt sér nóg í gröfinni.
Washington fer illa að leika körfuknattleik fjarri heimabyggð
Washington hefur ekki unnið útileik síðan LeBron James spilaði með Cleveland. Er sem sagt 0-15 á útivelli í vetur. Liðið var tíu stigum yfir á kafla í fjórða leikhluta í Houston í nótt. Skoraði ekki eitt stig síðustu þrjár og hálfa mínútuna og tapaði að lokum með sjö stigum.
Þetta er ekki að skila John Wall neinum stigum í nýliðakapphlaupinu, ekki frekar en það að leikmenn liðsins séu að fljúgast á innbyrðis fyrir utan næturklúbba.
Þetta er annað árið í röð sem er drama í desember hjá Wizards. Sleppa kannski við það á næsta ári. Ef það verður verkfall.
Monday, December 27, 2010
Stjörnuleysi á Flóasvæðinu
Það er til marks um gengið hjá Golden State Warriors undanfarin ár að liðið hefur ekki átt stjörnuleikmann síðan Latrell Sprewell árið 1997. Samherjar hans hjá Warriors í þá daga voru til dæmis Chris Mullin og Mark Price.
Vonir standa til að liðið nái Monta Ellis inn í stjörnuleikinn í LA í febrúar. Það er þó alls ekki gefið, þar sem samkeppnin um bakvarðastöðurnar í vesturliðinu verður gríðarleg. Ekki víst að stigamaskínan Ellis komist inn, frekar en hæfileikamenn á borð við Donyell Marshall, Erick Dampier og Adonal Foyle á undan honum.
Munnleg og leikræn brot körfuboltamanna á reglum um hegðun og framkomu skila punktasjóði NBA deildarinnar prýðilegum hagnaði
Á annan í jólum var NBA deildin búin að hala inn nálægt 75 milljónum króna í sektir tengdar tæknivillum á leikmenn það sem af er á leiktíðinni.
Þá eru ótaldar 7,5 milljónir króna í sektir sem fallið hafa á aðal- og aðstoðarþjálfara í deildinni.
Einn maður sem fellur í hvorugan flokkinn hefur afrekað að fá tæknivillu. Það er Brian Zettler, sjúkraþjálfari hjá Utah Jazz. Vel af sér vikið hjá honum.
Dwight Howard er að venju duglegur að næla sér í tæknivillur. Hann er búinn að fá tólf stykki það sem af er í vetur og er búinn að fá aðvörun bréfleiðis um að fái hann fjórar í viðbót muni það kosta hann eins leiks bann og nærri 600.000 króna sekt.
Það er víst erfitt að spila körfubolta við Blake Griffin
“I was doing all I could to help us fight back and keep him off the boards,” Hill said. “I try to be physical with other players in the league, but with a player like Blake Griffin there is no point.”
-Grant Hill, Phoenix Suns 26.12.´10
Sunday, December 26, 2010
Meistararnir fóru í jólaköttinn
Auðvitað var það rétt sem Kobe Bryant sagði eftir að lið hans LA Lakers var flengt af Miami á sínum eigin heimavelli á jóladagskvöld.
Miami þurfti miklu meira á þessum sigri að halda en Lakers.
Þetta var samt nokkuð sterkur móralskur sigur fyrir Sólstrandargæjana.
Þeir fengu góða jólagjöf.
Lakers-menn fengu sjópokann.
Artest fór í könnunarleiðangur
Það fer alltaf ónotatilfinning um mannskapinn þegar Ron Artest kemur fljúgandi inn í áhorfendastæðin. Það versta við þessa undarlegu atburðarás í leiknum í gærkvöld var að Jim Gray slapp ómeiddur út úr þessu
Saturday, December 25, 2010
Hátíðartvíhöfði í kvöld og nótt
Gleðileg jól öll. Nú þegar allir eru að verða búnir að opna pakka og borða góðan mat, er komið að skemmtiatriðunum þessa hátíðina.
Það verða stórstjörnurnar í LA Lakers og Miami Heat sem ýta úr vör um klukkan 22 og verður sá slagur sýndur beint á Stöð 2 Sport. Ekki þarf að taka fram að hér er um að ræða fyrstu viðureign Sólsgrandargæjanna í Miami og meistara Lakers eftir að LeBron James gekk í raðir sunnanmanna, og því bíða ansi margir spenntir eftir að sjá leikinn.
Þar með er veislunni þó hvergi nærri lokið, því um klukkan eitt í nótt verður NBATV með beina útsendingu frá Oklahoma og Denver. Það er hörkuleikur og hefur alla burði til að verða jafn skemmtilegur og sá fyrri.
Körfuboltaáhugamönnum er því hollara að blanda nóg jólaöl og koma sér vel fyrir í sófanum í kvöld. Meira að segja þeir yngstu geta fylgst með byrjuninni á leiknum í Los Angeles.
Friday, December 24, 2010
Jólakveðja frá ritstjórninni
Ritstjórn NBA Ísland óskar lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla. Aðfangadagskvöld er afskaplega huggulegt og væri eflaust eitt besta kvöld ársins ef bara væri spilað í NBA.
Örvæntið ekki, því dagskráin að kvöldi jóladags verður dýrari en dýrari týpan, þar sem rúsínan í afturendanum verður leikur LA Lakers og Miami á Stöð 2 Sport klukkan 22. Hafið það gott þangað til.
Leiðinlegur körfuboltamaður í ríki Disney
Paul Pierce tók það nærri sér þegar við vorum að kalla hann leiðinlegan leikmann hérna um daginn. Sendi okkur tölvupóst sem við höfum ákveðið að birta hérna, þó hann hafi beðið okkur um að gera það ekki. Reynir að spila sig sem fórnarlamb og sallar krúttmyndum inn á Twitter til að reyna að fá samúð.
Vá, hvaða leiðindi eru þetta í ykkur? Ég er bara hérna í ríki Disney með krökkunum að hafa það kósý og svo les maður eitthvað svona! Þið getið bara sjálf verið leiðinleg!
Kveðja, einn ógó pirraður
Aaaaw, eru þetta ekki sætar myndir?
Nei. Þegiðu! Það má vel vera að krakkinn þinn sé krútt, en þú ert víst leiðinlegur.
Mei Guo Nan Zi Zhi Ye Lan Qiu Lian Sai
Núna er bannað að segja "NBA" í Kína.
Nei, svona í alvöru.
Ef þú ætlar að tala um NBA í Kína verður þú því að grípa til tungumáls heimamanna og kalla deildina sínu rétta nafni; Mei Guo Nan Zi Zhi Ye Lan Qiu Lian Sa.
-"Lee minn, viltu taka til í herberginu þínu fyrir mig, ég er að fara að ryksuga og þurrka af?"
-"Ekkert mál mamma mín, ég skal taka til um leið og ég er búinn að horfa á þessa beinu útsendingu frá Mei Guo Nan Zi Zhi Ye Lan Qiu Lian Sai"
Mei Guo Nan Zi Zhi Ye Lan Qiu Lian Sai - It´s faaaaantastic!
Thursday, December 23, 2010
Nei, nei, ekki um jólin - Ótrúleg sigurganga Boston Celtics
Boston hefur verið á rosalegum spretti það sem af er vetri og vann í nótt fjórtánda sigur sinn í röð.
Þetta er í sjötta sinn í sögu félagsins sem Boston vinnur fjórtán eða fleiri í röð.
Celtics-menn hafa aðeins tapað fjórum leikjum á leiktíðinni og úrslit þeirra allra réðust í blálokin - hefðu getað dottið hvoru megin sem var.
Boston er samanlagt með 94 sigra og aðeins 14 töp fyrir jól síðustu fjögur ár, eða síðan Ray Allen og Kevin Garnett gengu í raðir liðsins.
Það kemur nákvæmlega ekkert á óvart að þetta skuli vera besta vinningshlutfall liðs fyrir jól á fjögurra ára tímabili í sögu NBA.
Það verður áhugavert að sjá hvort liðið heldur þessum sama dampi eftir áramót eða nennir því ekki og drullar á sig eins og í fyrra.
Það á eftir að koma í ljós, en þessi árangur Boston fyrir jól í ár er frekar óvæntur að okkar mati. Kendick Perkins hefur enn ekki spilað leik, O´Neal-arnir eru alltaf meiddir, Delonte tók út bann og meiddist strax og þá hefur prímusmótorinn Rajon Rondo líka verið að missa úr leiki.
Verðum að gefa þeim grænu smá props fyrir þetta. Ekki annað hægt. Veðjaðu á móti þeim ef þú þorir.
Stóri-Al vinnur fleiri körfuboltaleiki þessa dagana
Al Jefferson fór með nýja liðinu sínu Utah Jazz á gamla heimavöllinn sinn í Minnesota í nótt.
Jefferson sagðist því fegnastur við komuna til Utah að geta nú mögulega farið að vinna leiki með nokkuð jöfnu millibili. Það hefur að mestu gengið eftir.
Gamla liðið hans hefur vakið nokkra athygli í vetur vegna vasklegrar framgöngu framherjaparsins Michael Beasley og Kevin Love, en það breytir því ekki að Minnesota er enn átakanlega... Minnesota.
Tapið í nótt var það sjöunda í röð hjá Minnesota og þar að auki var liðið að tapa sínum sjöunda leik í vetur þar sem það hefur náð 10 stiga forystu eða meira. Wolves hafa í heildina unnið sex af 30 það sem af er.
Nú er lið Utah (21-9) alls ekki jafn gott lið og Minnesota er lélegt, en andstæðurnar gætu þó ekki verið mikið meiri fyrir Jefferson.
Á meðan Minnesota er búið að vera iðið við að missa niður forskot í leikjum í vetur, hefur Utah verið að vinna upp forskot andstæðinga sinna.
Sigur Utah á Minnesota í nótt þýðir að liðið hefur unnið tíu leiki í vetur eftir að hafa lent tíu stigum eða meira undir og sex af þessum sigrum komu eftir að liðið lenti 15+ stigum undir.
Þá er Jazz er búið að vinna jafn marga leiki í vetur (21) og Minnesota hefur unnið á þessari og síðustu leiktíð samanlagt (6+15). Þetta hlýtur að vera skemmtileg tilbreyting fyrir Jefferson karlinn.
Wednesday, December 22, 2010
Neikvætt nöldur um körfuboltamenn sem skiptu um lið
Tölvupóstunum hefur rignt inn frá lesendum sem eru ósáttir við að leikmannaskipti Orlando, Phoenix og Washington hafi nánast gleymst hér á síðunni.
Auðvitað langaði okkur að skrifa eitthvað um þetta, en það myndaðist bara enginn andi í það.
Ætlum samt að gera ykkur til hæfis að þessu sinni og krota hér niður hugleiðingu sem þið getið haft með ykkur á salernið (ef þið eruð með fartölvu, annað væri bara sjúkt).
Kannski þótti okkur ekki rétt að skrifa mikið um þessi skipti af því það liggur ljóst fyrir að Orlando er alls ekki hætt á markaðnum.
Brotthvarf Pólverjans geðþekka Marcin Gortat þýðir að liðið hefur bara einn miðherja í sínum röðum. Það er ekki traustvekjandi tilhugsun þegar haft er í huga að villusegullinn Dwight Howard er þessi eini miðherji.
Orlando er eina liðið í þessum félagaskiptum sem getur talist í raunhæfri keppni um titilinn en það er dálítil óðagotslykt af þessu hjá þeim.
Það var reyndar fínt fyrir þá að losna við Vince Carter og Rashard Lewis.
Carter af því hann er að eldast og er alls ekki maður sem getur farið fyrir liði sem keppir um titil. Lewis af því hann er búinn að vera lélegur, er á fáránlegum samningi og hefur sannað að það er ekkert gagn í honum í úrslitakeppninni.
Okkur hefur stundum fundist að vandamál Orlando-liðsins hafi legið í því hve óhefðbundið það var og treysti mikið á langskot. Það að fá Gilbert Arenas og Hedo Turkoglu eykur aðeins á þessa vantrú okkar.
Arenas er líklega á einum fáránlegasta samningi í allri deildinni og er alls ekki samur við sig eftir að hafa misst af 199 leikjum á síðustu þremur árum vegna meiðsla og glóruleysis.
Margir vilja meina að Hedo Turkoglu breytist strax í gamla góða Orlando-Hedo með því að koma aftur til Magic. Við eigum eftir að sjá það þegar hann hefur spilað gjörsamlega eins og sekkur síðan hann fékk feita samninginn sinn forðum.
Það má vel vera að Stan Van Gundy nái smá spretti úr Hedo með því að hóta honum lífláti, en hann verður fljótur að hætta að hlusta á þjálfarann sinn. Það á það til að gerast þegar menn öskra 24/7.
Báðir þessir leikenn eiga það sameiginlegt að þurfa mikið að nudda og strjúka boltanum til að eitthvað komi út úr þeim. Verða að deila tíma í þetta káf með Jameer Nelson og Dwight Howard. Það gæti orðið vandamál.
Jason Richardson ætti ekki að verða vandamál en því hefur verið hvíslað að hann gæti jafnvel orðið beita til að krækja í stóran mann til að bakka Howard upp. Það yrði kannski dæmigert, því Richardson er nokkuð solid leikmaður.
Svo er jú eitt við þessi skipti sem er alls ekki gott og það er í sambandi við varnarleikinn.
Arenas og Turkoglu eru ekki mikið sterkari varnarmenn en Kolbrún Halldórsdóttir en á sama tíma er klassa varnarmaðurinn Mikael Pietrus horfinn á braut og hinn plássfreki Gortat farinn úr miðjunni. Ekki gott.
Þú ættir að vera búinn að lesa það út að við erum ekki hrifin af þessum skiptum fyrir hönd Orlando. Þau vekja fleiri spurningar en þau svara og það er mjög erfitt að sjá liðið gera eitthvað í vor eftir að hafa stokkað svona rosalega upp. Ef það reynist algjör vitleysa hjá okkur og Orlando rúllar upp Austurdeildinni, skulum við möglunarlaust viðurkenna hvað við erum vitlaus. Það er bara erfitt að sjá Dwight Howard einan ætla að kljást við t.d. framlínu Boston Celtics þegar kemur fram á vorið.
Phoenix er að gera áhugaverða hluti með þessum skiptum.
Það var mjög góður bissness að losna við feitan samning Hedo Turkoglu og fá í staðinn alvöru miðherja. Suns hafa nú allt í einu tvo brúklega miðherja og vita eflaust ekkert hvað þeir eiga að gera við þá.
Verður mjög gaman að sjá hvað sá pólski gerir ef hann fær almennilegar mínútur. Ætti að verða góður og á ekki eftir að hata að spila vegg og veltu með Steve Nash.
Pietrus er flottur varnarmaður og getur smellt niður þristum, en hjá Phoenix hittir hann fyrir eina 13.400 aðra leikmenn sem spila vængstöðurnar og því ekki gott að sjá hvernig hann nýtist.
Þeir hafa verið nískir þarna í Phoenix undanfarin ár og virðast staðráðnir í að vera bara með gott lið, ekki frábært. Það má vel vera að Suns nái að öskubuska eitthvað í vor en þar er bara ekki efniviður til að fara langt.
Fjölmiðlar fóru strax að spá því að Steve Nash færi frá félaginu eftir þessi skipti, en hann á eftir að standa við sína samninga hjá Suns og mun ekki fara fram á skipti úr þessu. Er bara ekki þannig gaur - rúllar ekki þannig.
Auðvitað vilja allir að Nash vinni titil einn daginn, en við megum ekki fara að kasta drullu í hann þó það takist ekki. Sumir vilja meina að leikmenn séu bara lélegir ef þeir verða ekki meistarar, en það er barnalegur hugsunarháttur.
Mjög margir stórkostlegir leikmenn klára hvert einasta ár án þess að vinna meistaratitil og það þarf miklu meira til en einn góðan leikmann til að verða meistari. Það vita allir sem á annað borð vita eitthvað.
Vonandi var þetta nógu neikvæður og leiðinlegur pistill fyrir ykkur, elskurnar.
Dirk Nowitzki er búinn að skora fleiri körfuboltum en Larry Bird
Hann var dálítið álkulegur þessi þýski sláni þegar hann fékk fyrsta tækifærið sitt í NBA undir stjórn óða prófessorsins Don Nelson seint á síðustu öld.
Rick Pitino, þáverandi þjálfari Boston, vildi ólmur fá piltinn sem hann líkti við Larry Bird. Honum varð ekki að ósk sinni. Dallas landaði Dirk eftir krókaleiðum og þó hann hafi þurft tíma til að stilla sig af í NBA, hefur hann verið einn af bestu leikmönnum deildarinnar síðastliðinn áratug.
Í kvöld tók hann fram úr Larry Bird á lista stigahæstu leikmanna í sögu NBA. Er kominn í 25. sæti listans með tæplega 22 þúsund stig og er þar með orðinn einn stigahæsti Würzburg-búinn í sögu NBA.
*Viðbót*
Einn af pennum Dallas-liðsins segir að Dirk hafi fengið sms frá Bird með hamingjuóskum. Það getur vel verið, en Larry Bird sendandi sms er álíka tilhugsun og að Egill Helgason tæki þátt í Tour de France.
Hvernig væri að spila kannski körfubolta?
Jermaine O´Neal er ekki búinn að nýtast Boston Celtics mikið í vetur. Raunar búinn að spila 26,9% af mögulegum spilatíma vegna, jú, meiðsla. Það er gaman að heyra í Doc Rivers koma inn undir lokin á þessu viðtali og skjóta á miðherjann brothætta.
Tuesday, December 21, 2010
Körfubolti, ljós og friður og hátíð í bæ á jóladagskvöld
Aðalleikurinn í nba deildinni á jóladag verður viðureign LA Lakers og Miami Heat, en þar eru á ferðinni liðin sem margir eru búnir að ákveða að leiki til úrslita í sumar.
Þar koma líka við sögu þeir þrír leikmenn sem almennt eru taldir þeir bestu í heiminum - Kobe Bryant, LeBron James og Dwyane Wade.
Þarna eigast við meistarar síðustu tveggja ára og ofurlið Miami Heat sem hefur fengið gríðarlega athygli í vetur.
Koma LeBron James á suðurströnd hefur valdið sprengingu í sölu á varningi tengdum Heat-liðinu eins og t.d. treyjusölu.
Miami var með 4% af þeim markaði í deildinni á síðustu leiktíð en 23% núna sem toppar deildina - Lakers er þarna í öðru sæti.
James gerði allt vitlaust með þættinum sínum "Ákvörðunin" í sumar og virtist fá þorra körfuboltaáhugamanna upp á móti sér.
Það hefur þó ekki aftrað honum frá því að eiga söluhæstu treyjuna í NBA deildinni og söluhæsta skóinn í deildinni í nóvember sl. Kobe Bryant mun nota jólaleikinn til að frumsýna nýjustu skó sína.
Þú þarft líklega að hafa ansi mikið fyrir því ef þú ætlar að redda þér miða á jólaleikinn. Meðalverð er í kring um 65.000 krónur og hækkar væntanlega dag frá degi. Þetta er dýrasti leikur deildakeppninnar þegar kemur að miðaverði.
Þú þarft samt ekki að örvænta því þú getur séð leikinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 22 að kvöldi jóladags.
Vonir standa til um að þessi leikur eigi eftir að trekkja Bandaríkjamenn að skjánum og að jafnvel verði sett met í áhorfi.
Hér fyrir neðan má sjá leikina fimm sem hlutu mest áhorf frá aldamótum. Ef vel er að gáð má sjá að Lakers-liðið kemur þarna aðeins við sögu.
1. 2004: Lakers/Heat, 13,2 milljónir áhorfenda
2. 2008: Celtics/Lakers, 10 milljónir áhorfenda
3. 2009: Cavs/Lakers, 8,5 millijónir áhorfenda
4. 2005: Heat/Lakers, 8,1 milljónir áhorfenda
5. 2002: Kings/Lakers, 7,5 millónir áhorfenda
Monday, December 20, 2010
Sunday, December 19, 2010
Velkomin öll sem eitt
Við veittum því athygli að hæstvirt Alþingi var að búa til nokkra Íslendinga í gær. Það er enginn sjö fetari á þessum lista svo vitað sé og það er ekki nógu gott. Þurfum alltaf fleiri stóra menn.
Mesti töffarinn í hópi hinna nýju Íslendinga er því án nokkurs vafa hann Hung The Hoang frá Víetnam. Það er auðvitað snilld að heita Hung og enn betra að vera það. Við flettum orðinu/nafninu Hoang upp til gamans.
Huang
A god-like creature that every hot girl falls for.
A sexy beast. See also: pimp.
The women lined up to do Hoang.
Við gæfum mikið fyrir að heita svona svölu nafni. Velkominn í raðir Íslendinga, Hung. Við fögnum komu þinni.
Subscribe to:
Posts (Atom)