Saturday, December 25, 2010
Hátíðartvíhöfði í kvöld og nótt
Gleðileg jól öll. Nú þegar allir eru að verða búnir að opna pakka og borða góðan mat, er komið að skemmtiatriðunum þessa hátíðina.
Það verða stórstjörnurnar í LA Lakers og Miami Heat sem ýta úr vör um klukkan 22 og verður sá slagur sýndur beint á Stöð 2 Sport. Ekki þarf að taka fram að hér er um að ræða fyrstu viðureign Sólsgrandargæjanna í Miami og meistara Lakers eftir að LeBron James gekk í raðir sunnanmanna, og því bíða ansi margir spenntir eftir að sjá leikinn.
Þar með er veislunni þó hvergi nærri lokið, því um klukkan eitt í nótt verður NBATV með beina útsendingu frá Oklahoma og Denver. Það er hörkuleikur og hefur alla burði til að verða jafn skemmtilegur og sá fyrri.
Körfuboltaáhugamönnum er því hollara að blanda nóg jólaöl og koma sér vel fyrir í sófanum í kvöld. Meira að segja þeir yngstu geta fylgst með byrjuninni á leiknum í Los Angeles.