Tuesday, December 21, 2010
Körfubolti, ljós og friður og hátíð í bæ á jóladagskvöld
Aðalleikurinn í nba deildinni á jóladag verður viðureign LA Lakers og Miami Heat, en þar eru á ferðinni liðin sem margir eru búnir að ákveða að leiki til úrslita í sumar.
Þar koma líka við sögu þeir þrír leikmenn sem almennt eru taldir þeir bestu í heiminum - Kobe Bryant, LeBron James og Dwyane Wade.
Þarna eigast við meistarar síðustu tveggja ára og ofurlið Miami Heat sem hefur fengið gríðarlega athygli í vetur.
Koma LeBron James á suðurströnd hefur valdið sprengingu í sölu á varningi tengdum Heat-liðinu eins og t.d. treyjusölu.
Miami var með 4% af þeim markaði í deildinni á síðustu leiktíð en 23% núna sem toppar deildina - Lakers er þarna í öðru sæti.
James gerði allt vitlaust með þættinum sínum "Ákvörðunin" í sumar og virtist fá þorra körfuboltaáhugamanna upp á móti sér.
Það hefur þó ekki aftrað honum frá því að eiga söluhæstu treyjuna í NBA deildinni og söluhæsta skóinn í deildinni í nóvember sl. Kobe Bryant mun nota jólaleikinn til að frumsýna nýjustu skó sína.
Þú þarft líklega að hafa ansi mikið fyrir því ef þú ætlar að redda þér miða á jólaleikinn. Meðalverð er í kring um 65.000 krónur og hækkar væntanlega dag frá degi. Þetta er dýrasti leikur deildakeppninnar þegar kemur að miðaverði.
Þú þarft samt ekki að örvænta því þú getur séð leikinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 22 að kvöldi jóladags.
Vonir standa til um að þessi leikur eigi eftir að trekkja Bandaríkjamenn að skjánum og að jafnvel verði sett met í áhorfi.
Hér fyrir neðan má sjá leikina fimm sem hlutu mest áhorf frá aldamótum. Ef vel er að gáð má sjá að Lakers-liðið kemur þarna aðeins við sögu.
1. 2004: Lakers/Heat, 13,2 milljónir áhorfenda
2. 2008: Celtics/Lakers, 10 milljónir áhorfenda
3. 2009: Cavs/Lakers, 8,5 millijónir áhorfenda
4. 2005: Heat/Lakers, 8,1 milljónir áhorfenda
5. 2002: Kings/Lakers, 7,5 millónir áhorfenda