Wednesday, December 22, 2010

Neikvætt nöldur um körfuboltamenn sem skiptu um lið


Tölvupóstunum hefur rignt inn frá lesendum sem eru ósáttir við að leikmannaskipti Orlando, Phoenix og Washington hafi nánast gleymst hér á síðunni.

Auðvitað langaði okkur að skrifa eitthvað um þetta, en það myndaðist bara enginn andi í það.

Ætlum samt að gera ykkur til hæfis að þessu sinni og krota hér niður hugleiðingu sem þið getið haft með ykkur á salernið (ef þið eruð með fartölvu, annað væri bara sjúkt).

Kannski þótti okkur ekki rétt að skrifa mikið um þessi skipti af því það liggur ljóst fyrir að Orlando er alls ekki hætt á markaðnum.

Brotthvarf Pólverjans geðþekka Marcin Gortat þýðir að liðið hefur bara einn miðherja í sínum röðum. Það er ekki traustvekjandi tilhugsun þegar haft er í huga að villusegullinn Dwight Howard er þessi eini miðherji.

Orlando er eina liðið í þessum félagaskiptum sem getur talist í raunhæfri keppni um titilinn en það er dálítil óðagotslykt af þessu hjá þeim.

Það var reyndar fínt fyrir þá að losna við Vince Carter og Rashard Lewis.

Carter af því hann er að eldast og er alls ekki maður sem getur farið fyrir liði sem keppir um titil. Lewis af því hann er búinn að vera lélegur, er á fáránlegum samningi og hefur sannað að það er ekkert gagn í honum í úrslitakeppninni.

Okkur hefur stundum fundist að vandamál Orlando-liðsins hafi legið í því hve óhefðbundið það var og treysti mikið á langskot. Það að fá Gilbert Arenas og Hedo Turkoglu eykur aðeins á þessa vantrú okkar.

Arenas er líklega á einum fáránlegasta samningi í allri deildinni og er alls ekki samur við sig eftir að hafa misst af 199 leikjum á síðustu þremur árum vegna meiðsla og glóruleysis.

Margir vilja meina að Hedo Turkoglu breytist strax í gamla góða Orlando-Hedo með því að koma aftur til Magic. Við eigum eftir að sjá það þegar hann hefur spilað gjörsamlega eins og sekkur síðan hann fékk feita samninginn sinn forðum.

Það má vel vera að Stan Van Gundy nái smá spretti úr Hedo með því að hóta honum lífláti, en hann verður fljótur að hætta að hlusta á þjálfarann sinn. Það á það til að gerast þegar menn öskra 24/7.

Báðir þessir leikenn eiga það sameiginlegt að þurfa mikið að nudda og strjúka boltanum til að eitthvað komi út úr þeim. Verða að deila tíma í þetta káf með Jameer Nelson og Dwight Howard. Það gæti orðið vandamál.

Jason Richardson ætti ekki að verða vandamál en því hefur verið hvíslað að hann gæti jafnvel orðið beita til að krækja í stóran mann til að bakka Howard upp. Það yrði kannski dæmigert, því Richardson er nokkuð solid leikmaður.

Svo er jú eitt við þessi skipti sem er alls ekki gott og það er í sambandi við varnarleikinn.

Arenas og Turkoglu eru ekki mikið sterkari varnarmenn en Kolbrún Halldórsdóttir en á sama tíma er klassa varnarmaðurinn Mikael Pietrus horfinn á braut og hinn plássfreki Gortat farinn úr miðjunni. Ekki gott.

Þú ættir að vera búinn að lesa það út að við erum ekki hrifin af þessum skiptum fyrir hönd Orlando. Þau vekja fleiri spurningar en þau svara og það er mjög erfitt að sjá liðið gera eitthvað í vor eftir að hafa stokkað svona rosalega upp. Ef það reynist algjör vitleysa hjá okkur og Orlando rúllar upp Austurdeildinni, skulum við möglunarlaust viðurkenna hvað við erum vitlaus. Það er bara erfitt að sjá Dwight Howard einan ætla að kljást við t.d. framlínu Boston Celtics þegar kemur fram á vorið.

Phoenix er að gera áhugaverða hluti með þessum skiptum.

Það var mjög góður bissness að losna við feitan samning Hedo Turkoglu og fá í staðinn alvöru miðherja. Suns hafa nú allt í einu tvo brúklega miðherja og vita eflaust ekkert hvað þeir eiga að gera við þá.

Verður mjög gaman að sjá hvað sá pólski gerir ef hann fær almennilegar mínútur. Ætti að verða góður og á ekki eftir að hata að spila vegg og veltu með Steve Nash.

Pietrus er flottur varnarmaður og getur smellt niður þristum, en hjá Phoenix hittir hann fyrir eina 13.400 aðra leikmenn sem spila vængstöðurnar og því ekki gott að sjá hvernig hann nýtist.

Þeir hafa verið nískir þarna í Phoenix undanfarin ár og virðast staðráðnir í að vera bara með gott lið, ekki frábært. Það má vel vera að Suns nái að öskubuska eitthvað í vor en þar er bara ekki efniviður til að fara langt.

Fjölmiðlar fóru strax að spá því að Steve Nash færi frá félaginu eftir þessi skipti, en hann á eftir að standa við sína samninga hjá Suns og mun ekki fara fram á skipti úr þessu. Er bara ekki þannig gaur - rúllar ekki þannig.

Auðvitað vilja allir að Nash vinni titil einn daginn, en við megum ekki fara að kasta drullu í hann þó það takist ekki. Sumir vilja meina að leikmenn séu bara lélegir ef þeir verða ekki meistarar, en það er barnalegur hugsunarháttur.

Mjög margir stórkostlegir leikmenn klára hvert einasta ár án þess að vinna meistaratitil og það þarf miklu meira til en einn góðan leikmann til að verða meistari. Það vita allir sem á annað borð vita eitthvað.

Vonandi var þetta nógu neikvæður og leiðinlegur pistill fyrir ykkur, elskurnar.