Tuesday, December 28, 2010
Tvöfalt líf Blake Griffin
Auðvitað erum við að reyna að forðast að Blake Griffin-a yfir okkur hérna á síðunni en það er ekki jafn auðvelt og það hljómar.
Okkur langaði bara að skjóta því að að pilturinn er nú kominn með 19 tvöfaldar tvennur í röð og alls 24 fyrir áramót á nýliðaárinu sínu.
Það hefur aðeins einn maður afrekað í NBA síðustu þrjá áratugi, hinn geðþekki Dikembe Mutombo Mpolondo Mukamba Jean-Jacques Wamutombo á nýliðaári sínu með Denver Nuggets.
Griffin MUN slá þetta met annað kvöld gegn Utah Jazz, mjög líklega í fyrri hálfleik, ef tekið er mið af því að Marcus Camby hirti ein 12 fráköst í fyrri hálfleik á móti Jazz í nótt sem leið.
Við erum alltaf að hitta fólk úti á götu sem segir við okkur; "Heyrið mig, hvað er málið með þennan Griffin-kall þarna - ha?"
Það eina sem við gerum er að glotta og kinka kolli, eins og til að segja "yeah, we know" eins og stoltur faðir ameríska drengsins sem er fyrirliði og leikstjórnandi ruðningsliðs bæjarins og er við það að barna sætustu klappstýruna (sonurinn, þið vitið... ekki faðirinn... æ, gleymdu þessu).
Piltar eins og Griffin gefa deildinni okkar nauðsynlegt aðdráttarafl og það er um að gera fyrir þá sem eldri eru að sýna yngri kynslóðinni myndbrot af Blake Griffin þar sem hann er að vanvirða fólk með óguðlegum troðslum sínum.
Hver veit nema börnin kjósi sjálf í framtíðinni að slasa aðra með slíkum troðslum, húðflúra vörumerki Spalding á enni bjargarlausra varnarmanna og slátra tveggja metra menn í hraðaupphlaupum líkt og Blake gerir á myndinni hér fyrir neðan.
Ju, hvað það yrði fallegt!