Thursday, December 23, 2010

Stóri-Al vinnur fleiri körfuboltaleiki þessa dagana


Al Jefferson fór með nýja liðinu sínu Utah Jazz á gamla heimavöllinn sinn í Minnesota í nótt.

Jefferson sagðist því fegnastur við komuna til Utah að geta nú mögulega farið að vinna leiki með nokkuð jöfnu millibili. Það hefur að mestu gengið eftir.

Gamla liðið hans hefur vakið nokkra athygli í vetur vegna vasklegrar framgöngu framherjaparsins Michael Beasley og Kevin Love, en það breytir því ekki að Minnesota er enn átakanlega... Minnesota.

Tapið í nótt var það sjöunda í röð hjá Minnesota og þar að auki var liðið að tapa sínum sjöunda leik í vetur þar sem það hefur náð 10 stiga forystu eða meira. Wolves hafa í heildina unnið sex af 30 það sem af er.

Nú er lið Utah (21-9) alls ekki jafn gott lið og Minnesota er lélegt, en andstæðurnar gætu þó ekki verið mikið meiri fyrir Jefferson.

Á meðan Minnesota er búið að vera iðið við að missa niður forskot í leikjum í vetur, hefur Utah verið að vinna upp forskot andstæðinga sinna.

Sigur Utah á Minnesota í nótt þýðir að liðið hefur unnið tíu leiki í vetur eftir að hafa lent tíu stigum eða meira undir og sex af þessum sigrum komu eftir að liðið lenti 15+ stigum undir.

Þá er Jazz er búið að vinna jafn marga leiki í vetur (21) og Minnesota hefur unnið á þessari og síðustu leiktíð samanlagt (6+15). Þetta hlýtur að vera skemmtileg tilbreyting fyrir Jefferson karlinn.