Thursday, May 31, 2012

Sögulegt San Antonio



































Mikið hefur verið látið með tuttugu leikja sigurgöngu San Antonio Spurs, liðsins sem hefur risið upp frá dauðum og margir spá nú að muni halda áfram að valta yfir mótherja sína þangað til það vinnur fimmta meistaratitilinn.

Það er alveg skiljanlegt að þessi rispa hafi fangað athygli fólks, þó eflaust væri gert meira úr henni ef liðið á bak við hana væri til dæmis New York Knicks. Þessir tuttugu sigurleikir í röð eru þriðja lengsta sigurganga í sögu NBA, sem er ótrúlegt.

Annað þykir okkur eiginlega ótrúlegra - og það er það að San Antonio er búið að vinna 22 af síðustu 25 leikjum sínum á útivelli. Og það sem er enn ótrúlegra, er að í tveimur af þessum þremur tapleikjum, voru Duncan, Parker og Ginobili ekki með.

Eitthvað verður því undan að láta hjá Spurs fljótlega. Það bara hlýtur að vera. Liðið fær stórt próf í kvöld þegar það sækir Oklahoma heim í þriðja leiknum í úrslitum Vesturdeildar. Þú gætir þess vonandi að missa ekki af því á Sportinu klukkan eitt í nótt.

Happy Hairston hefði orðið sjötugur í dag


Harold "Happy" Hairston hefði orðið sjötugur í dag, hefði hann lifað. Hairston gegndi lykilhlutverki í einu besta NBA liði sögunnar, meistaraliði LA Lakers veturinn 1971-72. Þetta Lakers-lið á lengstu sigurgöngu í sögu NBA í deildakeppninni - 33 leiki.

Lykilmenn Lakers á þessum tíma voru Jerry West, Wilt Chamberlain og Gail Goodrich. Elgin Baylor var á síðustu metrunum og Happy heitinn var líka mjög mikilvægur hlekkur í liðinu. Hann og Chamberlain urðu þennan vetur einu liðsfélagarnir í sögu NBA til að hirða báðir yfir 1000 fráköst.

Til gamans má svo geta þess að Pat Riley var líka í þessu Lakers-liði. Það var þjálfað af fyrrum Boston leikmanninum og frumherjanum Bill Sharman.

Happy Hairston lést úr krabbameini langt fyrir aldur fram árið 2001. Hér fyrir neðan má sjá mynd af Lakers-liðinu frá þessum tíma. Happy í treyju númer 52 í fremri röð til hægri. West númer 44, Baylor 22, Wilt númer 13, Goodrich 25 og Riley númer 12.


Til hamingju New Orleans


Við berum miklar taugar til tónlistarborgarinnar New Orleans og því var það okkur sönn ánægja þegar í ljós kom að körfuboltafélagið í borginni hreppti hnossið í Nýliðalottóinu.

Eins og svo oft áður þurfti liðið með lélegasta árangurinn að bíta í það súra epli að fá ekki fyrsta valréttinn þrátt fyrir að eiga bestu líkurnar á því.

Á grafinu hér til hliðar sérðu hvaða líkur klúbbarnir áttu á því að hreppa fyrsta valréttinn og þar sést glöggt að Charlotte átti auðvitað bestu líkurnar á 1. valrétti, en sem betur fer varð ekkert úr því.

Það hefði verið dapurlegt að sjá Michael Jordan skamma Brúnar inn á geðveikrahæli og bjóða svo jafnvel upp á þriðju endurkomuna eftir Stjörnuleikinn í febrúar.

Sem betur fer sér karmað oftast um að refsa skítaklúbbum sem tanka. Það átti reyndar ekki við um Golden State að þessu sinni, en félagið fékk að halda sínum valrétti sem það hafði mikið fyrir að tanka til sín í vetur. Skammarlegt metnaðarleysi.

Það er ekkert leyndarmál að hinn fjölhæfi og varnarsinnaði einbrúnungur Anthony Davis verði valinn númer eitt í sumar. Ef að líkum lætur, á Brúnar eftir að reynast slöku liði New Orleans sannkallaður hvalreki.

Gaman fyrir hinn efnilega þjálfara Monty Williams og þetta unga lið. Vonandi skemma samsæriskenningarnar ekki fyrir þeim gleðina og við fáum bara bullandi uppgang í Nawlins.

Rajon Rondo er nokkuð góður í körfubolta



Tuesday, May 29, 2012

Monday, May 28, 2012

Nokkur orð um sjónvarpsleikina framundan


Í kvöld hefjast undanúrslitin í NBA. Fyrsti leikur San Antonio Spurs og Oklahoma City er um það bil að hefjast þegar þetta er ritað að kvöldi sunnudagsins 28. maí.

Annað kvöld hefst svo einvígi Miami og Boston í úrslitum Austurdeildar.

Allir sem áhuga hafa á þessari veislu vilja auðvitað vita hvernig sjónvarpsútsendingum hér heima verður háttað frá veislunni og því er best að skerpa aðeins á því hér.

Stöð 2 Sport er með ákveðinn kvóta af leikjum sem hægt er að sýna frá leikjum í úrslitakeppninni. Þegar kemur að því að velja leikina þarf stöðin auðvitað að taka mið af því að sem best áhorf verði á leikina. Því er reynt að sýna sem mest af leikjunum um helgar til að byrja með, þar sem leikirnir eru frekar á góðum tíma þá og flestir að horfa.

Þegar lengra kemur fram í úrslitakeppnina þarf svo að gæta þess að nota kvótann vel og brenna ekki inni með hann. Allir hefðu auðvitað kosið að sjá meira frá hinum og þessum skemmtilegu rimmum sem verið hafa í gangi í úrslitakeppninni, en því miður er ekki hægt að sinna öllum.

Eins og undanfarin ár hefur því verið reynt að eiga sem flesta leiki inni þegar kemur að "alvörunni" - það er að segja leikjunum í undanúrslitunum. Lokaúrslitin sjálf eru sér á parti og þar eru auðvitað alltaf sýndir allir leikir.

Í ár vildi þannig til að einvígin í Vesturdeildinni urðu fremur endasleppt, en drógust á langinn í austrinu. Því reyndi Sportið að sinna því vel - var m.a. með hreinan úrslitaleik Celtics og Sixers í beinni í gærkvöld.

Það er því nokkuð búið að höggva af kvótanum, en þó ekki svo að við fáum ekki að fylgja undanúrslitarimmunum bæði í austri og vestri vel eftir. Eins og kvótinn passar núna er útlit fyrir að Sportið þurfi að sleppa einum leik úr hvoru einvígi til að geta örugglega sýnt úrslitaleikina þegar til þeirra kemur.

Yfirleitt er það þannig að þessi einvígi fara langt, jafnvel í sex eða sjö leiki, og þá vill enginn lenda í því að eiga ekki kvóta og þurfa að sleppa leik sjö ef til hans kemur. Það er heilbrigð skynsemi. Því er heppilegast að sýna leik eitt hjá Spurs og Thunder í kvöld (á góðum tíma, frí á morgun), en sleppa frekar leik eitt hjá Miami og Boston og svo leik tvö hjá San Antonio og Oklahoma. Þessir leikir eru á tímum þar sem hvað minnst áhorf er og við hljótum að lifa af að missa af þessum leikjum, þó það sé auðvitað bölvað í sjálfu sér.

Þegar það er svo afstaðið, geta allir skemmt sér við að horfa á hvern einasta leik sem eftir er í undanúrslitunum og svo öll lokaúrslitin.

Gættu þess að þessi pæling hér að ofan er ekki bindandi. Það liggur ekki alveg fyrir hjá ritstjórninni hver mörgum leikjum þarf að sleppa - kannski einum - kannski þremur. Það verður staðfest eftir helgina og sett inn á dagskrársíðuna okkar.

Það er von ritstjórnar að þessi útskýring dugi NBA þyrstum lesendum og sjónvarpsáhorfendum, en þið getið sent línu á nbaisland@gmail.com ef þið krefjist frekari skýringa á þessu öllu saman.

Góða skemmtun. Lifi leikurinn.

Ritstjórnin.

Saturday, May 26, 2012

Hvað er líkt með Spurs og Mobb Deep?


Dálítið skondið að þessi skemmtilegi klassíker sé nú að rúlla undir spilamennsku San Antonio Spurs í nýlegri stiklu á NBA TV og víðar. Áttum okkur ekki á tengingunni milli Spurs og Mobb Deep, en þetta lag er mjög sterkt.



Hér er svo myndband við upprunalega lagið, Shook Ones Part 2



Blake Griffin í NBA JAM


Friday, May 25, 2012

Ertu alveg viss, Dwyane?


Litlar stelpur sem safna Hello Kitty límmiðum, ráðfæra sig við vinkonur sínar áður en þær reyna að púlla svona buxur. Og fá líklega nei. "Nei, skvís - þetta er aaaðeins of bleikt, skelörö!"

Það er eitt að vera öruggur með kynhneigð sína og útlit. Annað að reyna að dulbúa sig sem þriggja ára gamla stelpu í sykursjokki.

Þú varst flottur í kvöld, Dwyane, en þetta er bara rugl - og þú veist það!


Wednesday, May 23, 2012

Aftur fær LA Lakers skell í annari umferð


Eins og á hverju einasta ári hjá LA Lakers, liggur frammi langur spurningalisti sem finna þarf svör við að vori. Þó það nú væri hjá einu metnaðarfyllsta og sigursælasta félagi deildarinnar. Spurningarnar þetta vorið eru þó líklega fleiri en oft áður, því liðið hefur nú verið slegið út í annari umferð 8-1 síðustu tvö árin og það þykir ekkert spes í Glysbænum.

Lakers fékk skell í annari umferð í ár, en öfugt við ljótu systirina í Clippers, táknar það hnignun. Lakers er á niðurleið, meðan framtíðin er skjannabjört hjá ungu liði Oklahoma City.

Allt byrjar þetta og endar á Kobe Bryant. Hann er farinn að eldast og getur þvi ekki borið liðið á herðum sér lengur. Hann á heldur ekki að gera það. Ekki þegar hann er með tvo af bestu stóru mönnum deildarinnar með sér í liði.

Það má hiklaust hengja að minnsta kosti eitt tap Lakers beint utan um hálsinn á Bryant, þó enginn þori að gera það.

Samt er ekki annað hægt en að hrífast af geðsjúku keppnisskapi og sigurvilja Kobe Bryant. Ef einhver leikmaður í NBA á skilið að vera á fáránlega háum launum, er það hann.

Það er hinsvegar ekkert spes fyrir félagið að þurfa að greiða honum þessa árlegu þrettánhundruð þrilljarða í laun í þessu fjárhagslega árferði og nýju kjarasamningum.

Möguleikar Lakers á að vera með læti á leikmannamarkaðnum í nánustu framtíð eru því mjög takmarkaðir.

Einvígi Oklahoma og Lakers var hnífjafnt og ef við værum stuðningsmenn Lakers, værum við froðufellandi af reiði út í liðið fyrir að gera ekki betur. Liðið gaf bókstaflega frá sér einn, jafnvel tvo, leiki í seríunni og með smá heppni hefði þetta geta fallið með þeim. Oklahoma átti þó alfarið skilið að fara áfram úr einvíginu.

Eins og venjan er, þarf auðvitað að finna blóraböggul þegar hlutirnir fara svona úrskeiðis og svo virðist sem fólk sé alveg tilbúið að halda áfram að kenna Pau Gasol um allt sem miður fer hjá liðinu.

Vissulega hefði Gasol átt að vera grimmari í einvíginu við Oklahoma og úrslitakeppninni yfir höfuð, en við erum stranglega á móti því að kenna Gasol um ófarir Lakers.

Los Angeles Lakers er farið í sumarfrí af því liðið er með skelfilega veikan varamannabekk, þjálfara sem er ekki nógu góður og af því liðið er ekki komið með kerfi til að byggja á líkt og þríhyrningssóknina undir stjórn Phil Jackson.

Við vorum hissa á því þegar Lakers ákvað að gera samning við Mike Brown þjálfara.

Hann er ágætur sem slíkur - sérstaklega á varnarhliðinni - og hefur auðvitað náð prýðilegum árangri, en að okkar mati stendur hann ekki undir því að þjálfa klúbb eins og Lakers.

Í LA er krafan bara titill á hverju ári og Brown veldur því verkefni bara ekki.

Það hefur komið í ljós nokkrum sinnum í vetur að hann nýtur ekki fullkominnar virðingar leikmanna sinna eins og dæmin með agamál Kobe og Bynum sýndu.

Það þykir ansi líklegt að Lakers muni skipta Pau Gasol í burtu og reyna að fá gæði og aukna breidd í staðinn.

Það má vel vera að það takist, en það kæmi okkur heldur ekki á óvart að Gasol ætti eftir að nýtast nýja liðinu sínu mjög vel ef hann lendir þá hjá sæmilega góðu liði. Gasol er einn besti sóri maðurinn í deildinni. Það er bara þannig, hvort sem hann stóð sig í úrslitakeppninni núna eður ei.

Andrew Bynum átti heilt yfir nokkuð gott ár með Lakers, en hann þarf að laga hjá sér viðhorf og ákvarðanatöku og svo er heilsa hans alltaf dálítið spurningamerki.

Það verður óhemju áhugavert að fylgjast með framvindu mála hjá Lakers.

LA Clippers náði árangri árið 2012


Það eru breyttir tímar hjá LA Clippers. Vetrarins 2012 verður minnst eins og byltingar í sögu félagsins. Það er svo miklu auðveldara að vera til ef maður er með Chris Paul í sínu liði.

Dálítið súrt fyrir Clippers að missa Chauncey Billups út tímabilið og að hafa þá Blake Griffin og Chris Paul á felgunni í einvíginu við Spurs, en það hefði engu breytt um niðurstöðuna. Spurs hefði ekki undir nokkrum kringumstæðum tapað fyrir Clippers í sjö leikja seríu. Ekki þetta árið.

Þegar allt er talið er þetta samt búið að vera fínt ár hjá Clippers. Ævintýrið byrjaði um leið og Chris Paul klæddi sig í hvítu treyjuna og því lauk ekki fyrr en í klónum á San Antonio. Það er kannski freistandi fyrir suma að byrja að finna eitthvað að Clippers, en við ætlum ekki að gera það.

Það er áskorun að breyta gengi félags sem hefur verið brandari í þrjátíu ár. Gríðarleg áskorun. En Chris Paul tók henni og gerði vel eins og alltaf. Enn eina ferðina voru þó meiðsli að gera honum erfitt fyrir.

Það er ekki gott að sjá hvert þetta Clipperslið stefnir. Það er ekki langt í að bæði Chris Paul og Blake Griffin verði með lausa samninga og ef þú spyrð okkur er samningurinn hans DeAndre Jordan strax byrjaður að lykta illa.

Lykilatriðið fyrir Clippers er að losa sig við þjálfarann, sem er einfaldlega ekki nógu góður.

Svo þarf að teikna upp plan og hrinda því í framkvæmd hið snarasta. Það er fínn efniviður í þessu liði.

Mjög vinsælt hefur verið að gagnrýna Blake Griffin undanfarið ár og við erum ekki saklaus af því, en hvernig sem á það er litið hefur Griffin bætt sig verulega.

Það er staðreynd að leikmenn á sínu öðru ári í deildinni áttu flestir mjög erfitt uppdráttar í vetur af því þeir fengu engar æfingabúðir. Griffin virðist vera nógu vinnusamur og hungraður í að vilja bæta sig og við skulum því fylgjast vel með honum á næstu leiktíð.

Það er bara vonandi að þetta ævintýri hjá Clippers springi ekki í andlitið á þeim og að félagið haldi í þessa lykilleikmenn. Þeir stóðu sig með sóma í vetur ef litið er á heildarmyndina góðu.

Friday, May 18, 2012

Gömlu hræin í Boston eru enn á lífi


Enn tekst Boston að gabba okkur öll. Ef marka má fádæma auðveldan sigur liðsins á Philadelphia í þriðju viðureign liðanna á miðvikudaginn, er Boston á leið í úrslit Austurdeildar.

Mikið hefur verið gert úr meintum meiðslum leikmanna Boston. Ökklinn á Ray Allen er í hassi og það leynir sér ekki, en síðustu daga hefur hnéð á Paul Pierce verið enn meira í fréttum. Pierce er nagli sem neitar alltaf að tala um meiðsli sín. Netar að vera  með afsakanir, þó hann banni mönnum ekki að ná í hjólastól fyrir sig ef hann finnur til á vellinum.

Við ætlum bara að nota þetta tækifæri og segja ykkur að það er ekki rassgat að Paul Pierce. Það getur vel verið að hann finni aðeins til í hnénu eins og 90% leikmanna í NBA, en ömurleg frammistaða hans í leikjum 1 og 2 skrifast ekki á hnémeðsli. Maður sem er meiddur á hné skorar ekki fyrstu tvær körfurnar sínar með því að keyra í gegn og troða yfir fullt af fólki. Það er bara þannig.

Boston-menn eru hundgamlir og því verða þeir lengi að klára þessa seríu eins og allar aðrar. Þeir þurfa alltaf að taka sér frí í leik og leik til að safna kröftum. Neyðumst víst til að taka ofan fyrir baráttu og spilamennsku Kevin Garnett í úrslitakeppninni. Hún er til fyrirmyndar og svo er Rondo auðvitað í ruglinu góður eins og alltaf þegar Celtics gengur vel.

Þetta er búinn að vera fínn sprettur hjá Sixers og liðið er að fara eins langt og allar heilladísir heimsins geta hleypt þeim. Þetta lið er bara ekki með vopn til að fara lengra, annað væri óeðlilegt. Nema Boston drulli algjörlega á sig.

Lakers bíður nær ómögulegt verkefni


Það að vera hársbreidd frá sigri er engin huggun fyrir lið með reynslu. Enn síður ef liðið var með unninn leik í höndunum en skeit á sig í lokin og klúðraði honum. Þessi raunveruleiki blasir við Lakers núna.

Við sögðum ykkur að þið fengjuð að sjá úr hverju Lakers-liðið væri gert í leik tvö gegn Oklahoma og það stóðst. Lakers gerði breytingar á varnarleiknum og það var allt annað að sjá til liðsins frá því sem var í blæstrinum í leik eitt.

Við verðum að gefa Oklahoma kúdós fyrir að stela svona öðrum leiknum á heimavelli í úrslitakeppninni - leik sem liðið átti alls ekki að vinna. Náðu einum svona gegn Dallas líka. En þeir lokuðu, það er virðingarvert.

Ef svo fer sem horfir, verður nægur tími til að tala um Oklahoma. Lakers er hinsvegar í vandræðum, það er augljóst. Leikur tvö varð að vinnast, en það er engum öðrum en þeim sjálfum að kenna að það tókst ekki.

Þetta er líklega í síðasta skipti sem við sjáum þá Kobe, Gasol og Bynum spila saman í búningi Lakers í úrslitakeppni, svo það er um að gera fyrir áhangendur þeirra að njóta þess. Þetta lið er komið á endastöð og vinnur ekki fleiri titla. Og það eru alltaf titlar sem menn sækjast eftir í Los Angeles. Þeir eru ekki í þessu bara til þess að vera með.

Nú þarf Lakers að vinna fjóra af næstu fimm leikjum sínum gegn Oklahoma og það er ekkert að fara að gerast. Getur ekki verið. Lakers tókst að tapa þremur leikjum fyrir Denver og því ætti Oklahoma alveg að ná að loka þessu.

Zombies eru ekki saddir. Þeir ætla alla leið og sú verður krafan næstu ár.

Afmælisbörn dagsins, já!


Tony Parker er þrítugur í dag og langar örugglega að halda upp á það með því að leiða lið sitt San Antonio til sigurs á LA Clippers í nótt.

Clippers á erfitt verk fyrir höndum ef Spurs kemst í 2-0 og raunar hvernig sem leikurinn í kvöld fer.

Tony Parker var kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna árið 2007 þegar Spurs varð síðast meistari.

Þá spilaði hann vel, enda hefði nefndin ekki farið að velja Frakka sem mvp nema hann stæði sig vel.

Parker hefur verið besti maður San Antonio í allan vetur og var alveg með í mvp umræðunni.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þessi snaggaralegi bakvörður sé loksins að skríða yfir þrítugt. Hann var því ekki gamall þegar hann byrjaði að vinna titla með San Antonio. Frábær leikmaður.

Þeir eiga líka afmæli í dag, stórhöfðingjarnir Jon Koncak og Danny Manning. Við vorum svo góð við ykkur að splæsa saman mynd af þeim, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.


Thursday, May 17, 2012

Rauði dregillinn: OKC-Lakers #2


Kevin Durant bauð upp á þennan hrylling. Enn í þessu hipster-rugli með gleraugun og ekki einu sinni maður með svægi eins og hann nær að bæta upp fyrir þá staðreynd að jakkafötin og bolurinn eru bara viðbjóður.







































Vinur og liðsfélagi Durant - Serge Ibaka - er mjög öruggur með kynhneigð sína og bauð upp á man-bag eða karlaskjóðu. Nú erum við sem áður segir úr sveit og höfum ekki mikið tískuvit, en karlmenn eiga ekki að bera man-bag. Það er bara fáránlegt, ekki síst af manni sem ver sjö skot í leik eins og að drekka vatn.







































Að lokum verðum við að taka Kobe Bryant með í þessari upptalningu. Hann var afleitur á lokakafla leiksins, en þó svægið hafi verið í lágmarki hjá honum inni á vellinum, var það manna mest utan hans. Hér sjáum við Kobe Bjóða upp á klassískan og einfaldan, en algjörlega skotheldan stíl. Gamli Reservoir Dogs gallinn klikkar aldrei og Mamban er hæfilega eitruð til að gefa honum trúverðugleika. Svona á að gera þetta krakkar. Tíu.


Tuesday, May 15, 2012

Minning Del Negro lifir í San Antonio



“Some of the stuff we do on defense, we actually have one thing we call on the pin downs, we say we’re going to ‘Del Negro it’ and that’s in his honor and we’ve done that for 15 years,” Popovich said. 

“We have a Del Negro defense out there because he couldn’t play a lick of D. At times we had to invent something just to hide him, so we call it ‘Del Negro’ and you do certain things on the court and everybody has to make up for that guy who’s the ‘Del Negro.’” 

-- Gregg Popovich, þjálfari San Antonio

Stórt


Það er ofar okkar skilningi hvernig nokkrum manni dettur í hug að spila Mobb Deep undir myndum frá ofurmannlegum sóknarleik San Antonio, en þetta er afar huggulegt. Þeir kunna þetta þarna í NBA.

Westbrook plöggar Abu Garcia spúna



Philadelphia er alltaf að koma á óvart


Það er ekki strákunum í Philadelphia að kenna að Meiðsladraugurinn hafi rifið hjartað og heilann úr Chicago í einvígi liðanna. Það þýðir því ekkert að bölva þeim. Þetta unga lið hefur gefið stuðningsmönnum sínum von í fyrsta skipti síðan Allen Iverson var og hét.

Okkur þótti Austurdeildin ekki mjög spennandi í vetur og úrslitakeppnin enn síður, eða þangað til kæmi að óumflýjanlegu einvígi Miami og Chicago í úrslitum austursins. Það yrði rosaleg sería.

Það varð ekkert úr þessu fyrirhugaða einvígi. Við héldum að Chicago myndi vinna Sixers þrátt fyrir meiðsli Derrick Rose, en þegar Joakim Noah heltist úr lestinni var þetta aldrei möguleiki.

Við berum engar sérstakar taugar til Bulls, en berum mikla virðingu fyrir liðinu vegna baráttu þess og góðs varnarleiks.

Það var því hræðilegt að sjá lykilmenn liðsins meiðast og gera vonir liðsins að engu í ár. Ekki oft sem svona sterk lið verða fyrir svona kjaftshöggi í úrslitakeppninni.

Þegar ljóst varð að yfirstandandi leiktíð yrði styttri og þéttari en hefðbundnar leiktíðir vegna verkbannsins og að liðin fengju til dæmis engar æfingabúðir - var það mál manna að það yrði * fyrir aftan nafn liðsins sem yrði meistari í sumar. Rétt eins og gjarnan er sett * fyrir aftan nafn San Antonio Spurs og titil liðsins árið 1999.

Sem betur fer vann San Antonio þrjá titla í viðbót á næstu árum og því stingur þetta ekki eins mikið í augun. Það hefði verið verra ef lið hefði þarna unnið sinn fyrsta og eina titil ´99 og síðan ekki söguna meir. Við vitum alveg hvað sagt verður um Miami ef liðið nær að vinna titilinn í sumar. Það tekur enginn mark á því fyrr en liðið vinnur titil eftir hefðbundið tímabil.

En ef við snúum okkur aftur af Philadelphia 75ers, höfðum við ekki sérlega mikla trú á liðinu fyrir einvígið gegn Boston. Tippuðum á að Baunabær tæki rimmuna í oddaleik. En nú er Sixers búið að splitta fyrstu tveimur leikjunum í Boston og á næstu tvo leiki heima. Það er ansi vel gert hjá þeim.

Það yrði heldur betur saga til næsta bæjar ef Philadelphia færi alla leið í úrslit Austurdeildar í ár. Nokkuð sem enginn hefði reiknað með. Vissulega var liðið sjóðandi heitt í deildinni á fyrstu vikunum, en drullaði svo hressilega upp á bak á endasprettinum. Fyrir vikið höfðum við ekki mikla trú á Sixers.

Þetta lið er hinsvegar úrvals varnarlið og það er lykillinn að velgengni þess núna. Spila hörkuvörn og neyða mótherjann til að gera mistök - og refsa svo grimmilega. Tölfræðigúrúar hafa fundið það út að Philadelphia er - ásamt San Antonio - öflugasta liðið í deildinni í því að láta andstæðinginn skjóta þar sem minnstar líkur eru á að hann hitti. Það er varla tilviljun.

Það er okkur súrt að sjá lið eins og Philadelphia í annari umferð úrslitakeppninnar á meðan lið eins og meistarar Dallas, Chicago og Memphis eru komin í sumarfrí, en svona er þetta stundum. Stundum koma upp spútniklið og stundum er eins og æðri máttarvöld stígi inn í leikinn.

Hvað sem því líður, verðum við að samgleðjast strákunum í Philadelphia. Þeir eru greinilega staðráðnir í að gera Boston lífið leitt - og ef Sixers klára þá seríu - eru þeir búnir að sanna að þeir eigi skilið að vera komnir svona langt í úrslitakeppninni.

Monday, May 14, 2012

Nostradamus og önnur umferðin


Við höfum oft gert okkur að meiri fíflum en við gerðum með spám okkar í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í ár. Vorum aðeins með tvö einvígi röng, þar af Chicago-Philadelphia, sem enginn í heiminum var með rétt nema Friðrik Ingi Rúnarsson. Þá gerðum við þau mistök að halda að Memphis myndi afreiða Clippers, en sá möguleiki fór strax í fyrsta leik. Tvö einvígi höfðum við rétt upp á leik - San Antonio-Utah og Miami-New York.

Tveimur leikjum er reyndar lokið í annari umferð þegar þetta er ritað, en þeir skipta engu máli í stóra samhenginu. Miami er búið að vinna fyrsta leikinn gegn Indiana og fer nokkuð örugglega í gegn um þá seríu hvort sem Chris Bosh verður með eða ekki. Segjum 4-2

Þá reiknum við með því að Boston nái að klóra sig í gegn um seríuna við Philadelphia, en það verður sería sem við munum forðast að fylgjast með í lengstu lög. Þetta er 4-3.

Vesturdeildin er miklu áhugaverðari, því þar eru tvö alvöru einvígi í gangi. San Antonio ætti þó með öllu að taka Clippers nokkuð létt. Gömlu mennirnir hafa fengið að hvíla sig vel á meðan Clippers menn eru þreyttir og meiddir. Það hefur þó ekki úrslitaáhrif í þessu einvígi, heldur þjálfararnir. Þetta er einvígi besta og líklega lélegasta þjálfarans í úrslitakeppninni. Þetta verður 4-2 Spurs.

Besta einvígið, og í raun eina alvöru alvöru einvígið í annari umferð er svo slagur Oklahoma og LA Lakers. Það er ómögulegt að spá fyrir um úrslit þessa einvígis. Það segjum við bara af virðingu við Lakers. Oklahoma á samt að vinna þetta með stæl, ef eitthvað var að marka áhugalausa frammistöðu mótherja þeirra í nokkrum leikjanna gegn Denver. OKC tekur þetta, en ef Lakers taka þetta, verða þeir líklega meistarar. Þetta fer 4-2 fyrir OKC.

Saturday, May 12, 2012

Syngiði með


TéMákur tapaði körfuboltaleikjum

















Hér fyrir ofan sérðu yfirlit yfir einvígi sem farið hafa alla leið í oddaleik í fyrstu umferð frá árinu 2003. Það var einmitt vorið 2003 sem NBA tók þá slæmu ákvörðun að lið þyrftu að vinna fjóra leiki í fyrstu umferð til að komast áfram, í stað þriggja áður.

Eitt er það sem einkennir þessa leiki, fyrir utan það að heimaliðið vinnur auðvitað oftast. Það er sú staðreynd að undantekningarlítið eru þessir leikir algjör blástur og því lítið spennandi eins og þú sérð á töflunni. Vonandi verður annað uppi á teningnum í leikjunum um helgina.

Boston er eina liðið sem orðið hefur meistari eftir oddaleik í fyrstu umferð, en það fór erfiðu leiðina alla leið í mark árið 2008.

Eitt er dálítið merkilegt við þessa leikjaupptalningu, en um leið sorglegt. Tracy McGrady spilaði hvorki meira né minna en þrjá af þessum oddaleikjum --- og tapaði þeim öllum. Gott ef lið hans náði ekki 3-1 forystu í fyrstu tveimur seríunum, ef minnið svíkur ekki. Aumingja TéMákur.


Wednesday, May 9, 2012

Andre Miller er ansi öflugur í körfubolta


Andre Miller hefur aldrei spilað Stjörnuleik og hefur aldrei verið stjarna. Það eina sem hann hefur gert á ferlinum er að stýra leik liða sinna nær óaðfinnanlega. Hann er ekki fljótur og hoppar ekki hátt, en mikið rosalega er Andre Miller góður leikstjórnandi. Hann er nú þegar tíundi stoðsendingahæsti leikmaðurinn í sögu NBA.

Undanfarin ár hefur Miller haft einstakt lag á því að eiga risaleiki í úrslitakeppninni. Átti einn slíkan í gærkvöld og er - ásamt JaVale McGee(?) - maðurinn á bak við sigur Denver í leik sem allir héldu að Lakers myndi klára. Gefum Miller smá ást. Hann fær aldrei nóg af henni.


San Antonio er búið að hita upp fyrir úrslitakeppnina:


Flestir reiknuðu með því að San Antonio ætti heilt yfir náðugt einvígi fyrir höndum gegn Utah Jazz í fyrstu umferðinni og það gekk eftir. Gregg Popovich var búinn að skáta andstæðinga sína vel og gætti þess að taka Utah gjörsamlega út úr öllu því sem það gerir vel.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta einvígi í sjálfu sér, það var aldrei spennandi, en okkur langar að segja nokkur orð um liðin tvö.

Þó Utah hafi drullað gjörsamlega á sig gegn San Antonio, getur liðið vel við unað í vetur. Fjölmargir körfuboltaspekingar spáðu því að Utah myndi verma neðsta sætið í Vesturdeildinni og því verður það að teljast mikið afrek hjá Tyrone Corbin að koma liðinu í úrslitakeppnina.

Utah er ekki með einn mann í sínum röðum sem getur skapað eigið skot og þá getur enginn leikmaður í liðinu hitt úr þriggja stiga skoti til að bjarga lífi sínu.

Svo má ekki gleyma því að Utah teflir fram mörgum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í deildinni og því er árangur liðsins í vetur eftirtektarverður. Framtíðin er sæmilega björt hjá þeim.

San Antonio afgreiddi þetta einvígi af fádæma öryggi eins og áður sagði, en það hefur verið stórkostlegt að fylgjast með þeim breytingum sem orðið hafa á liði Spurs á undangengnum árum.

Margfalt meistaralið Spurs á síðasta áratug náði þeim árangri fyrst og fremst á öflugum varnarleik, en þegar lykilmenn liðsins (Tim Duncan) fóru að hægja á sér vegna aldurs, ákvað Popovich að breyta til og halda í allt aðra átt.

Í stað þess að vera varnarvél, er San Antonio nú orðið besta sóknarlið deildarinnar.

Langbesta sóknarlið deildarinnar.

Allir leikmenn Spurs vita upp á hár hvað þeir eiga að gera, hvar þeir eiga að vera og hvenær. Hann lætur menn hlaupa sama kerfið aftur og aftur og aftur - og hættir ekki fyrr en menn geta hlaupið kerfin í svefni og verið á rétta frímerkinu á hárréttum tíma.

San Antonio er viðkvæmt fyrir því að mæta stóru og sterku liði eins og Memphis í fyrra og er í bullandi vandræðum með varnarleikinn gegn liðum sem spila skotheldan vegg og veltu.

Það yrði til dæmis erfitt fyrir Spurs að mæta LA Clippers í næstu umferð, þar sem Chris Paul myndi gera þeim lífið leitt.

Fyrir utan þetta, getur San Antonio orðið meistari. Það hefur aldrei verið meiri breidd í liðinu en núna og það kemur oft fyrir að varamenn liðsins ná að bæta í forskot liðsins og klára leiki í stað þess að halda fengnum hlut þegar þeir koma inn á völlinn.

Það er gulls ígildi fyrir Spurs að hafa landað mönnum eins og Boris Diaw, sem gefur liðinu eiginleika sem það hafði ekki bæði í vörn og sókn.

Þá er Stephen Jackson strax byrjaður að nýta tækifærið sem hann fékk eftir að hafa vælt sig frá Milwaukee. Hann skilaði góðu framlagi gegn Jazz og getur hjálpað Spurs á fleiri en einn hátt alveg eins og Frakkinn feiti í miðjunni.

Sem dæmi um styrk Spurs að undanförnu hefur liðið unnið níu leikjum fleiri en nokkuð annað lið í Vesturdeildinni á síðustu tveimur árum, fimm fleiri leiki en nokkuð annað lið frá 1. febrúar og er 21-3 á útivelli á þeim tíma.

Tvö af þessum töpum komu þegar þeir Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker voru ekki með, svo segja má að þessi rispa liðsins sé með þeim betri í sögunni.

Við ætlum ekki að spá San Antonio meistaratign í sumar, enda vorum við fyrir löngu búin að afskrifa liðið. En mikið fjandi verður gaman að fylgjast með því hvort til er lið sem getur séð við þeim.

Það verður ekki auðvelt að senda þessa gaura í frí og þyrfti ekki að koma á óvart þó San Antoni næði sér í annan *-titil til viðbótar við þennan árið 1999.

Tuesday, May 8, 2012

Kemp rúllar upp Shakespeare


Það er gaman að sjá að Shawn Kemp er ekki bara lifandi, heldur er liðtækur á leiksviðinu, jafnvel þó hann sé 200 kíló. Þá vitum við það.

Monday, May 7, 2012

Sunday, May 6, 2012

Þetta er svo langt frá því að vera eðlilegt





Oklahoma City sópaði meisturum Dallas í sumarfrí



Til er fólk sem spáði því að Oklahoma City ætti eftir að eiga nokkuð auðvelt með að slá Dallas út úr úrslitakeppninni. Við vorum ekki í þeim hópi. Spáðum því að þetta færi í sjö leiki og Oklahoma stæði uppi sem sigurvegari. Okkur langaði meira að segja að taka töffarann á þetta og spá Mavs sigri.

Það er gríðarlega sterkt hjá Oklahoma að sópa ríkjandi NBA meisturum úr keppni og einvígi Dallas og Oklahoma er án nokkurs vafa jafnasta og skemmtilegasta sóp sem við höfum séð. Það sem flesta var farið að gruna kom á daginn, Dallas hafði bara ekki það sem til þurfti til að fara langt í úrslitakeppninni í ár.

Liðið saknar Tyson Chandler alveg sérstaklega, hefði sannarlega geta notað varnarmann ársins í slagnum við Oklahoma.

Þá má ekki gleyma sóknarbrellunum hans JJ Barea og enn síður varnarleiknum sem DeShawn Stevenson bauð upp á í fyrra. Það vantar mikið þegar þessir menn eru teknir út fyrir mengið og Vince Carter kemur í staðinn.

Vince ræfillinn var ekki beint að styrkja orðspor sitt í þessari seríu.

Nú er mörgum spurningum ósvarað hjá Dallas. Flestir hallast að því að Cuban og félagar verði stórir spilarar á leikmannamarkaðnum í sumar og það er gefið.

Margir eru á því að Deron Williams muni enda í Dallas og jafnvel Dwight Howard líka. Þetta verður forvitnilegt að sjá, en eitt er á hreinu - Dallas verður að fá mann í miðjuna í stað Chandlers.

Hvað Oklahoma varðar stóð liðið sig óhemju vel gegn sterku Dallas-liði sem sló það út í úrslitum Vesturdeildarinnar í fyrra. Hefndin er sæt og það var hrein unun að fylgjast með gleymdu stórstjörnunni í Thunder klára Mavericks. James Harden er orðinn óþægilega góður leikmaður. Nú bíða Oklahoma-menn rólegir og sjá hvort það verður Lakers eða Denver sem verður næst á dagskrá.

Oklahoma er til alls líklegt, en Dallas er farið að veiða.


San Antonio er á siglingu í úrslitakeppninni


Utah er áberandi lakasta liðið sem komst í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni. Liðið er ungt og vitlaust og á nákvæmlega ekkert erindi í San Antonio. Fagmennirnir frá Texas hafa unnið 21 af síðustu 24 leikjum sínum á útivelli og tvö af þessum töpum komu þegar þeir Duncan, Parker og Ginobili voru ekki með.

Það er erfitt að gleyma útreiðinni sem San Antonio fékk frá Memphis í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í fyrra, en það er ljóst að ekkert slíkt verður uppi á teningnum í ár. Liðið virkar enn betra en í fyrra, með miklu meiri breidd og þá eru lykilmenn aldrei þessu vant heilir.

Það er orðið dálítið langt síðan við afskrifuðum San Antonio sem lið í titilbaráttu. Það virkaði bara mjög rökrétt á þeim tíma. Síðan hefur landslagið í NBA breyst nokkuð mikið og þetta verkbanns tímabil hrærir rosalega upp í öllu. Það er engin leið að spá fyrir um eitt eða neitt.

Það er því mjög erfitt að segja til um það hversu sterkt Spursliðið er í ár, ekki síst af því liðið fær enga samkeppni í fyrstu umferðinni. Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hve langt þetta lið getur farið. Ótrúlegt að hugsa til þess að Spurs gæti mögulega unnið enn einn titilinn með þeim Duncan, Parker og Ginobili.

Er þér alvara, Melo?



Thursday, May 3, 2012

Grindavík er Íslandsmeistari í körfubolta






































Við sögðum ykkur að Þór yrði Íslandsmeistari í körfubolta ef liðið næði að spila sinn leik í úrslitunum. Það sem við kölluðum "þeirra leik" var varnarleikurinn sem liðið sýndi gegn KR í undanúrslitunum. Því miður fyrir nýliðana náðu þeir ekki að keyra sig upp í sömu geðveiki nema í stuttum sprettum í úrslitaeinvíginu. Þar var mótherjinn líka sterkari. Íslandsmeistarar Grindavíkur.

Það er sannarlega gaman fyrir Grindavík að eiga loksins Íslandsmeistara á ný, sextán árum eftir að liðið vann titilinn í fyrsta sinn undir stjórn Friðriks Inga Rúnarssonar.

Titillinn í ár jafnast engan veginn á við þann fyrsta, en Grindvíkingum er nákvæmlega sama. Þeir fagna fram eftir nóttu og vonandi fram á miðvikudag.

Titillinn sem Grindavík er að vinna núna stendur hinum langt að baki af því liðið sem vann 1996 átti ekkert að verða Íslandsmeistari. Það var vissulega gott, en færri bjuggust við að það færi alla leið. Það var geggjuð úrslitakeppni, svo mikið munum við.

Íslandsmeistarar Grindavíkur árið 2012 áttu hinsvegar að vinna titilinn. Alveg frá því síðasta sumar eða haust. Snemma var ljóst að Grindvíkingar ætluðu sér að vera með alvöru lið og þegar ljóst varð að KR yrði án flestra sinna lykilmanna í vetur, var eðlilegt að liðinu væri spáð titlinum.

Við nennum ekki að fletta því upp, en við sögðum mjög snemma í haust að það yrði skandall ef Grindavík yrði ekki meistari með þennan mannskap. Ekki hægt að segja neitt annað þegar liðið er með þrjá þungavigtarkana umkringda landsliðsmönnum.

Grindavík átti að vinna titilinn og gerði það. Fyrir það eiga Helgi Jónas og drengirnir hans skilið hrós. Þeir lokuðu. Hefðu getað drullað á sig, en náðu að loka.


Grindvíkingar gáfu sögunni langt nef. Liðið hefur oftar en einu sinni verið með flottan árangur í deildadkeppninni en strandað í úrslitakeppninni.

Við biðum alltaf eftir þessu strandi núna. Það kom aldrei. J´Nathan Bullock hefði aldrei látið það viðgangast.

Bullock er maður ársins í Iceland Express deildinni, um það verður ekki deilt. Hann var gjörsamlega óstöðvandi í sigrum Grindavíkur og öðrum fremur ástæða þess að liðið kláraði einvígið.

Watson er líka algjör gæðaleikstjórnandi, Jóhann Árni kom með nokkuð óvænta spretti í lokaúrslitunum og Þorleifur skilaði framlagi bæði fyrir sig og Ólaf bróðir sinn. Þá vorum við óskaplega hrifin af frammistöðu Sigurðar Þorsteinssonar í miðjunni. Hann verður að læra að tolla lengur inni á vellinum.


Govens var heilt yfir góður í liði Þórs en skilaði ekki því ofurmannlega framtaki sem liðið þurfti frá honum til að eiga séns á titlinum.

Það var líka rosalega gaman að fylgjast með þeim Darra og Guðmundi. Algjörir stríðsmenn báðir tveir og eiga hrós skilið fyrir veturinn, eins og reyndar allt Þórsliðið.

Skorum líka á Grétar að koma sér í betra form fyrir næsta vetur og passa sig að verða ekki valinn í landsliðið.

Það var ekki KR-pressa á Grindavík að vinna titilinn, en það var samt pressa á þeim. Það var auðsjáanlega búið að eyða miklu í að byggja þetta lið upp og margir hefðu verið tilbúnir með brandara ef liðið hefði tapað.

Við verðum því að hrósa Helga Jónasi fyrir að ná að klára þetta. Hann á bjarta framtíð fyrir sér sem þjálfari og það er jákvætt að Grindavíkurliðið sé búið að hrista apann af öxlinni á sér. Til hamingju Grindavík.

Að öllu þessu sögðu, er Þór Þorlákshöfn lið ársins í okkar bókum. Benedikt Guðmundsson er þjálfari ársins með yfirburðum og eins og hann sagði sjálfur hafa Þórsarar skrifað marga kafla í sögu- og metabækur með frammistöðu sinni í vor og vetur.

Það lofar góðu fyrir minni klúbba að sjá hvað er hægt að vera ef tekst að smala saman góðum mannskap.

Þór er með umgjörðina, fékk frábæran þjálfara sem fékk nokkra toppmenn til að ganga til liðs við sig. Þetta er engin skammtafræði.

Þórsliðið er vonandi komið til að vera í toppslagnum í úrvalsdeildinni. Það er gaman að vera með öll þessi hörkulið úti á landi í efstu deild og velgengni liðanna hleypir lífi í plássin í skammdeginu.

Enn einu frábæru körfuboltaárinu er lokið hér heima og við getum ekki beðið eftir því næsta. Þar verða nýjar reglur og nýjar áskoranir að takast á við.