Friday, May 18, 2012

Gömlu hræin í Boston eru enn á lífi


Enn tekst Boston að gabba okkur öll. Ef marka má fádæma auðveldan sigur liðsins á Philadelphia í þriðju viðureign liðanna á miðvikudaginn, er Boston á leið í úrslit Austurdeildar.

Mikið hefur verið gert úr meintum meiðslum leikmanna Boston. Ökklinn á Ray Allen er í hassi og það leynir sér ekki, en síðustu daga hefur hnéð á Paul Pierce verið enn meira í fréttum. Pierce er nagli sem neitar alltaf að tala um meiðsli sín. Netar að vera  með afsakanir, þó hann banni mönnum ekki að ná í hjólastól fyrir sig ef hann finnur til á vellinum.

Við ætlum bara að nota þetta tækifæri og segja ykkur að það er ekki rassgat að Paul Pierce. Það getur vel verið að hann finni aðeins til í hnénu eins og 90% leikmanna í NBA, en ömurleg frammistaða hans í leikjum 1 og 2 skrifast ekki á hnémeðsli. Maður sem er meiddur á hné skorar ekki fyrstu tvær körfurnar sínar með því að keyra í gegn og troða yfir fullt af fólki. Það er bara þannig.

Boston-menn eru hundgamlir og því verða þeir lengi að klára þessa seríu eins og allar aðrar. Þeir þurfa alltaf að taka sér frí í leik og leik til að safna kröftum. Neyðumst víst til að taka ofan fyrir baráttu og spilamennsku Kevin Garnett í úrslitakeppninni. Hún er til fyrirmyndar og svo er Rondo auðvitað í ruglinu góður eins og alltaf þegar Celtics gengur vel.

Þetta er búinn að vera fínn sprettur hjá Sixers og liðið er að fara eins langt og allar heilladísir heimsins geta hleypt þeim. Þetta lið er bara ekki með vopn til að fara lengra, annað væri óeðlilegt. Nema Boston drulli algjörlega á sig.