Wednesday, May 23, 2012

LA Clippers náði árangri árið 2012


Það eru breyttir tímar hjá LA Clippers. Vetrarins 2012 verður minnst eins og byltingar í sögu félagsins. Það er svo miklu auðveldara að vera til ef maður er með Chris Paul í sínu liði.

Dálítið súrt fyrir Clippers að missa Chauncey Billups út tímabilið og að hafa þá Blake Griffin og Chris Paul á felgunni í einvíginu við Spurs, en það hefði engu breytt um niðurstöðuna. Spurs hefði ekki undir nokkrum kringumstæðum tapað fyrir Clippers í sjö leikja seríu. Ekki þetta árið.

Þegar allt er talið er þetta samt búið að vera fínt ár hjá Clippers. Ævintýrið byrjaði um leið og Chris Paul klæddi sig í hvítu treyjuna og því lauk ekki fyrr en í klónum á San Antonio. Það er kannski freistandi fyrir suma að byrja að finna eitthvað að Clippers, en við ætlum ekki að gera það.

Það er áskorun að breyta gengi félags sem hefur verið brandari í þrjátíu ár. Gríðarleg áskorun. En Chris Paul tók henni og gerði vel eins og alltaf. Enn eina ferðina voru þó meiðsli að gera honum erfitt fyrir.

Það er ekki gott að sjá hvert þetta Clipperslið stefnir. Það er ekki langt í að bæði Chris Paul og Blake Griffin verði með lausa samninga og ef þú spyrð okkur er samningurinn hans DeAndre Jordan strax byrjaður að lykta illa.

Lykilatriðið fyrir Clippers er að losa sig við þjálfarann, sem er einfaldlega ekki nógu góður.

Svo þarf að teikna upp plan og hrinda því í framkvæmd hið snarasta. Það er fínn efniviður í þessu liði.

Mjög vinsælt hefur verið að gagnrýna Blake Griffin undanfarið ár og við erum ekki saklaus af því, en hvernig sem á það er litið hefur Griffin bætt sig verulega.

Það er staðreynd að leikmenn á sínu öðru ári í deildinni áttu flestir mjög erfitt uppdráttar í vetur af því þeir fengu engar æfingabúðir. Griffin virðist vera nógu vinnusamur og hungraður í að vilja bæta sig og við skulum því fylgjast vel með honum á næstu leiktíð.

Það er bara vonandi að þetta ævintýri hjá Clippers springi ekki í andlitið á þeim og að félagið haldi í þessa lykilleikmenn. Þeir stóðu sig með sóma í vetur ef litið er á heildarmyndina góðu.