Wednesday, May 23, 2012
Aftur fær LA Lakers skell í annari umferð
Eins og á hverju einasta ári hjá LA Lakers, liggur frammi langur spurningalisti sem finna þarf svör við að vori. Þó það nú væri hjá einu metnaðarfyllsta og sigursælasta félagi deildarinnar. Spurningarnar þetta vorið eru þó líklega fleiri en oft áður, því liðið hefur nú verið slegið út í annari umferð 8-1 síðustu tvö árin og það þykir ekkert spes í Glysbænum.
Lakers fékk skell í annari umferð í ár, en öfugt við ljótu systirina í Clippers, táknar það hnignun. Lakers er á niðurleið, meðan framtíðin er skjannabjört hjá ungu liði Oklahoma City.
Allt byrjar þetta og endar á Kobe Bryant. Hann er farinn að eldast og getur þvi ekki borið liðið á herðum sér lengur. Hann á heldur ekki að gera það. Ekki þegar hann er með tvo af bestu stóru mönnum deildarinnar með sér í liði.
Það má hiklaust hengja að minnsta kosti eitt tap Lakers beint utan um hálsinn á Bryant, þó enginn þori að gera það.
Samt er ekki annað hægt en að hrífast af geðsjúku keppnisskapi og sigurvilja Kobe Bryant. Ef einhver leikmaður í NBA á skilið að vera á fáránlega háum launum, er það hann.
Það er hinsvegar ekkert spes fyrir félagið að þurfa að greiða honum þessa árlegu þrettánhundruð þrilljarða í laun í þessu fjárhagslega árferði og nýju kjarasamningum.
Möguleikar Lakers á að vera með læti á leikmannamarkaðnum í nánustu framtíð eru því mjög takmarkaðir.
Einvígi Oklahoma og Lakers var hnífjafnt og ef við værum stuðningsmenn Lakers, værum við froðufellandi af reiði út í liðið fyrir að gera ekki betur. Liðið gaf bókstaflega frá sér einn, jafnvel tvo, leiki í seríunni og með smá heppni hefði þetta geta fallið með þeim. Oklahoma átti þó alfarið skilið að fara áfram úr einvíginu.
Eins og venjan er, þarf auðvitað að finna blóraböggul þegar hlutirnir fara svona úrskeiðis og svo virðist sem fólk sé alveg tilbúið að halda áfram að kenna Pau Gasol um allt sem miður fer hjá liðinu.
Vissulega hefði Gasol átt að vera grimmari í einvíginu við Oklahoma og úrslitakeppninni yfir höfuð, en við erum stranglega á móti því að kenna Gasol um ófarir Lakers.
Los Angeles Lakers er farið í sumarfrí af því liðið er með skelfilega veikan varamannabekk, þjálfara sem er ekki nógu góður og af því liðið er ekki komið með kerfi til að byggja á líkt og þríhyrningssóknina undir stjórn Phil Jackson.
Við vorum hissa á því þegar Lakers ákvað að gera samning við Mike Brown þjálfara.
Hann er ágætur sem slíkur - sérstaklega á varnarhliðinni - og hefur auðvitað náð prýðilegum árangri, en að okkar mati stendur hann ekki undir því að þjálfa klúbb eins og Lakers.
Í LA er krafan bara titill á hverju ári og Brown veldur því verkefni bara ekki.
Það hefur komið í ljós nokkrum sinnum í vetur að hann nýtur ekki fullkominnar virðingar leikmanna sinna eins og dæmin með agamál Kobe og Bynum sýndu.
Það þykir ansi líklegt að Lakers muni skipta Pau Gasol í burtu og reyna að fá gæði og aukna breidd í staðinn.
Það má vel vera að það takist, en það kæmi okkur heldur ekki á óvart að Gasol ætti eftir að nýtast nýja liðinu sínu mjög vel ef hann lendir þá hjá sæmilega góðu liði. Gasol er einn besti sóri maðurinn í deildinni. Það er bara þannig, hvort sem hann stóð sig í úrslitakeppninni núna eður ei.
Andrew Bynum átti heilt yfir nokkuð gott ár með Lakers, en hann þarf að laga hjá sér viðhorf og ákvarðanatöku og svo er heilsa hans alltaf dálítið spurningamerki.
Það verður óhemju áhugavert að fylgjast með framvindu mála hjá Lakers.
Efnisflokkar:
Kobe Bryant
,
Lakers
,
Pau Gasol
,
Thunder
,
Úrslitakeppni 2012