Sunday, May 6, 2012

Oklahoma City sópaði meisturum Dallas í sumarfrí



Til er fólk sem spáði því að Oklahoma City ætti eftir að eiga nokkuð auðvelt með að slá Dallas út úr úrslitakeppninni. Við vorum ekki í þeim hópi. Spáðum því að þetta færi í sjö leiki og Oklahoma stæði uppi sem sigurvegari. Okkur langaði meira að segja að taka töffarann á þetta og spá Mavs sigri.

Það er gríðarlega sterkt hjá Oklahoma að sópa ríkjandi NBA meisturum úr keppni og einvígi Dallas og Oklahoma er án nokkurs vafa jafnasta og skemmtilegasta sóp sem við höfum séð. Það sem flesta var farið að gruna kom á daginn, Dallas hafði bara ekki það sem til þurfti til að fara langt í úrslitakeppninni í ár.

Liðið saknar Tyson Chandler alveg sérstaklega, hefði sannarlega geta notað varnarmann ársins í slagnum við Oklahoma.

Þá má ekki gleyma sóknarbrellunum hans JJ Barea og enn síður varnarleiknum sem DeShawn Stevenson bauð upp á í fyrra. Það vantar mikið þegar þessir menn eru teknir út fyrir mengið og Vince Carter kemur í staðinn.

Vince ræfillinn var ekki beint að styrkja orðspor sitt í þessari seríu.

Nú er mörgum spurningum ósvarað hjá Dallas. Flestir hallast að því að Cuban og félagar verði stórir spilarar á leikmannamarkaðnum í sumar og það er gefið.

Margir eru á því að Deron Williams muni enda í Dallas og jafnvel Dwight Howard líka. Þetta verður forvitnilegt að sjá, en eitt er á hreinu - Dallas verður að fá mann í miðjuna í stað Chandlers.

Hvað Oklahoma varðar stóð liðið sig óhemju vel gegn sterku Dallas-liði sem sló það út í úrslitum Vesturdeildarinnar í fyrra. Hefndin er sæt og það var hrein unun að fylgjast með gleymdu stórstjörnunni í Thunder klára Mavericks. James Harden er orðinn óþægilega góður leikmaður. Nú bíða Oklahoma-menn rólegir og sjá hvort það verður Lakers eða Denver sem verður næst á dagskrá.

Oklahoma er til alls líklegt, en Dallas er farið að veiða.