Sunday, May 6, 2012

San Antonio er á siglingu í úrslitakeppninni


Utah er áberandi lakasta liðið sem komst í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni. Liðið er ungt og vitlaust og á nákvæmlega ekkert erindi í San Antonio. Fagmennirnir frá Texas hafa unnið 21 af síðustu 24 leikjum sínum á útivelli og tvö af þessum töpum komu þegar þeir Duncan, Parker og Ginobili voru ekki með.

Það er erfitt að gleyma útreiðinni sem San Antonio fékk frá Memphis í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í fyrra, en það er ljóst að ekkert slíkt verður uppi á teningnum í ár. Liðið virkar enn betra en í fyrra, með miklu meiri breidd og þá eru lykilmenn aldrei þessu vant heilir.

Það er orðið dálítið langt síðan við afskrifuðum San Antonio sem lið í titilbaráttu. Það virkaði bara mjög rökrétt á þeim tíma. Síðan hefur landslagið í NBA breyst nokkuð mikið og þetta verkbanns tímabil hrærir rosalega upp í öllu. Það er engin leið að spá fyrir um eitt eða neitt.

Það er því mjög erfitt að segja til um það hversu sterkt Spursliðið er í ár, ekki síst af því liðið fær enga samkeppni í fyrstu umferðinni. Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hve langt þetta lið getur farið. Ótrúlegt að hugsa til þess að Spurs gæti mögulega unnið enn einn titilinn með þeim Duncan, Parker og Ginobili.