Tuesday, May 15, 2012
Philadelphia er alltaf að koma á óvart
Það er ekki strákunum í Philadelphia að kenna að Meiðsladraugurinn hafi rifið hjartað og heilann úr Chicago í einvígi liðanna. Það þýðir því ekkert að bölva þeim. Þetta unga lið hefur gefið stuðningsmönnum sínum von í fyrsta skipti síðan Allen Iverson var og hét.
Okkur þótti Austurdeildin ekki mjög spennandi í vetur og úrslitakeppnin enn síður, eða þangað til kæmi að óumflýjanlegu einvígi Miami og Chicago í úrslitum austursins. Það yrði rosaleg sería.
Það varð ekkert úr þessu fyrirhugaða einvígi. Við héldum að Chicago myndi vinna Sixers þrátt fyrir meiðsli Derrick Rose, en þegar Joakim Noah heltist úr lestinni var þetta aldrei möguleiki.
Við berum engar sérstakar taugar til Bulls, en berum mikla virðingu fyrir liðinu vegna baráttu þess og góðs varnarleiks.
Það var því hræðilegt að sjá lykilmenn liðsins meiðast og gera vonir liðsins að engu í ár. Ekki oft sem svona sterk lið verða fyrir svona kjaftshöggi í úrslitakeppninni.
Þegar ljóst varð að yfirstandandi leiktíð yrði styttri og þéttari en hefðbundnar leiktíðir vegna verkbannsins og að liðin fengju til dæmis engar æfingabúðir - var það mál manna að það yrði * fyrir aftan nafn liðsins sem yrði meistari í sumar. Rétt eins og gjarnan er sett * fyrir aftan nafn San Antonio Spurs og titil liðsins árið 1999.
Sem betur fer vann San Antonio þrjá titla í viðbót á næstu árum og því stingur þetta ekki eins mikið í augun. Það hefði verið verra ef lið hefði þarna unnið sinn fyrsta og eina titil ´99 og síðan ekki söguna meir. Við vitum alveg hvað sagt verður um Miami ef liðið nær að vinna titilinn í sumar. Það tekur enginn mark á því fyrr en liðið vinnur titil eftir hefðbundið tímabil.
En ef við snúum okkur aftur af Philadelphia 75ers, höfðum við ekki sérlega mikla trú á liðinu fyrir einvígið gegn Boston. Tippuðum á að Baunabær tæki rimmuna í oddaleik. En nú er Sixers búið að splitta fyrstu tveimur leikjunum í Boston og á næstu tvo leiki heima. Það er ansi vel gert hjá þeim.
Það yrði heldur betur saga til næsta bæjar ef Philadelphia færi alla leið í úrslit Austurdeildar í ár. Nokkuð sem enginn hefði reiknað með. Vissulega var liðið sjóðandi heitt í deildinni á fyrstu vikunum, en drullaði svo hressilega upp á bak á endasprettinum. Fyrir vikið höfðum við ekki mikla trú á Sixers.
Þetta lið er hinsvegar úrvals varnarlið og það er lykillinn að velgengni þess núna. Spila hörkuvörn og neyða mótherjann til að gera mistök - og refsa svo grimmilega. Tölfræðigúrúar hafa fundið það út að Philadelphia er - ásamt San Antonio - öflugasta liðið í deildinni í því að láta andstæðinginn skjóta þar sem minnstar líkur eru á að hann hitti. Það er varla tilviljun.
Það er okkur súrt að sjá lið eins og Philadelphia í annari umferð úrslitakeppninnar á meðan lið eins og meistarar Dallas, Chicago og Memphis eru komin í sumarfrí, en svona er þetta stundum. Stundum koma upp spútniklið og stundum er eins og æðri máttarvöld stígi inn í leikinn.
Hvað sem því líður, verðum við að samgleðjast strákunum í Philadelphia. Þeir eru greinilega staðráðnir í að gera Boston lífið leitt - og ef Sixers klára þá seríu - eru þeir búnir að sanna að þeir eigi skilið að vera komnir svona langt í úrslitakeppninni.
Efnisflokkar:
Bulls
,
Guðleg afskipti
,
Meiðsli
,
Sixers
,
Úrslitakeppni 2012