Monday, May 14, 2012

Nostradamus og önnur umferðin


Við höfum oft gert okkur að meiri fíflum en við gerðum með spám okkar í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í ár. Vorum aðeins með tvö einvígi röng, þar af Chicago-Philadelphia, sem enginn í heiminum var með rétt nema Friðrik Ingi Rúnarsson. Þá gerðum við þau mistök að halda að Memphis myndi afreiða Clippers, en sá möguleiki fór strax í fyrsta leik. Tvö einvígi höfðum við rétt upp á leik - San Antonio-Utah og Miami-New York.

Tveimur leikjum er reyndar lokið í annari umferð þegar þetta er ritað, en þeir skipta engu máli í stóra samhenginu. Miami er búið að vinna fyrsta leikinn gegn Indiana og fer nokkuð örugglega í gegn um þá seríu hvort sem Chris Bosh verður með eða ekki. Segjum 4-2

Þá reiknum við með því að Boston nái að klóra sig í gegn um seríuna við Philadelphia, en það verður sería sem við munum forðast að fylgjast með í lengstu lög. Þetta er 4-3.

Vesturdeildin er miklu áhugaverðari, því þar eru tvö alvöru einvígi í gangi. San Antonio ætti þó með öllu að taka Clippers nokkuð létt. Gömlu mennirnir hafa fengið að hvíla sig vel á meðan Clippers menn eru þreyttir og meiddir. Það hefur þó ekki úrslitaáhrif í þessu einvígi, heldur þjálfararnir. Þetta er einvígi besta og líklega lélegasta þjálfarans í úrslitakeppninni. Þetta verður 4-2 Spurs.

Besta einvígið, og í raun eina alvöru alvöru einvígið í annari umferð er svo slagur Oklahoma og LA Lakers. Það er ómögulegt að spá fyrir um úrslit þessa einvígis. Það segjum við bara af virðingu við Lakers. Oklahoma á samt að vinna þetta með stæl, ef eitthvað var að marka áhugalausa frammistöðu mótherja þeirra í nokkrum leikjanna gegn Denver. OKC tekur þetta, en ef Lakers taka þetta, verða þeir líklega meistarar. Þetta fer 4-2 fyrir OKC.