Wednesday, May 9, 2012
San Antonio er búið að hita upp fyrir úrslitakeppnina:
Flestir reiknuðu með því að San Antonio ætti heilt yfir náðugt einvígi fyrir höndum gegn Utah Jazz í fyrstu umferðinni og það gekk eftir. Gregg Popovich var búinn að skáta andstæðinga sína vel og gætti þess að taka Utah gjörsamlega út úr öllu því sem það gerir vel.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta einvígi í sjálfu sér, það var aldrei spennandi, en okkur langar að segja nokkur orð um liðin tvö.
Þó Utah hafi drullað gjörsamlega á sig gegn San Antonio, getur liðið vel við unað í vetur. Fjölmargir körfuboltaspekingar spáðu því að Utah myndi verma neðsta sætið í Vesturdeildinni og því verður það að teljast mikið afrek hjá Tyrone Corbin að koma liðinu í úrslitakeppnina.
Utah er ekki með einn mann í sínum röðum sem getur skapað eigið skot og þá getur enginn leikmaður í liðinu hitt úr þriggja stiga skoti til að bjarga lífi sínu.
Svo má ekki gleyma því að Utah teflir fram mörgum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í deildinni og því er árangur liðsins í vetur eftirtektarverður. Framtíðin er sæmilega björt hjá þeim.
San Antonio afgreiddi þetta einvígi af fádæma öryggi eins og áður sagði, en það hefur verið stórkostlegt að fylgjast með þeim breytingum sem orðið hafa á liði Spurs á undangengnum árum.
Margfalt meistaralið Spurs á síðasta áratug náði þeim árangri fyrst og fremst á öflugum varnarleik, en þegar lykilmenn liðsins (Tim Duncan) fóru að hægja á sér vegna aldurs, ákvað Popovich að breyta til og halda í allt aðra átt.
Í stað þess að vera varnarvél, er San Antonio nú orðið besta sóknarlið deildarinnar.
Langbesta sóknarlið deildarinnar.
Allir leikmenn Spurs vita upp á hár hvað þeir eiga að gera, hvar þeir eiga að vera og hvenær. Hann lætur menn hlaupa sama kerfið aftur og aftur og aftur - og hættir ekki fyrr en menn geta hlaupið kerfin í svefni og verið á rétta frímerkinu á hárréttum tíma.
San Antonio er viðkvæmt fyrir því að mæta stóru og sterku liði eins og Memphis í fyrra og er í bullandi vandræðum með varnarleikinn gegn liðum sem spila skotheldan vegg og veltu.
Það yrði til dæmis erfitt fyrir Spurs að mæta LA Clippers í næstu umferð, þar sem Chris Paul myndi gera þeim lífið leitt.
Fyrir utan þetta, getur San Antonio orðið meistari. Það hefur aldrei verið meiri breidd í liðinu en núna og það kemur oft fyrir að varamenn liðsins ná að bæta í forskot liðsins og klára leiki í stað þess að halda fengnum hlut þegar þeir koma inn á völlinn.
Það er gulls ígildi fyrir Spurs að hafa landað mönnum eins og Boris Diaw, sem gefur liðinu eiginleika sem það hafði ekki bæði í vörn og sókn.
Þá er Stephen Jackson strax byrjaður að nýta tækifærið sem hann fékk eftir að hafa vælt sig frá Milwaukee. Hann skilaði góðu framlagi gegn Jazz og getur hjálpað Spurs á fleiri en einn hátt alveg eins og Frakkinn feiti í miðjunni.
Sem dæmi um styrk Spurs að undanförnu hefur liðið unnið níu leikjum fleiri en nokkuð annað lið í Vesturdeildinni á síðustu tveimur árum, fimm fleiri leiki en nokkuð annað lið frá 1. febrúar og er 21-3 á útivelli á þeim tíma.
Tvö af þessum töpum komu þegar þeir Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker voru ekki með, svo segja má að þessi rispa liðsins sé með þeim betri í sögunni.
Við ætlum ekki að spá San Antonio meistaratign í sumar, enda vorum við fyrir löngu búin að afskrifa liðið. En mikið fjandi verður gaman að fylgjast með því hvort til er lið sem getur séð við þeim.
Það verður ekki auðvelt að senda þessa gaura í frí og þyrfti ekki að koma á óvart þó San Antoni næði sér í annan *-titil til viðbótar við þennan árið 1999.
Efnisflokkar:
Blástur
,
Formsatriði
,
Gregg Popovich
,
Jazz
,
Sópurinn
,
Spurs
,
Tim Duncan