Thursday, May 3, 2012

Grindavík er Íslandsmeistari í körfubolta






































Við sögðum ykkur að Þór yrði Íslandsmeistari í körfubolta ef liðið næði að spila sinn leik í úrslitunum. Það sem við kölluðum "þeirra leik" var varnarleikurinn sem liðið sýndi gegn KR í undanúrslitunum. Því miður fyrir nýliðana náðu þeir ekki að keyra sig upp í sömu geðveiki nema í stuttum sprettum í úrslitaeinvíginu. Þar var mótherjinn líka sterkari. Íslandsmeistarar Grindavíkur.

Það er sannarlega gaman fyrir Grindavík að eiga loksins Íslandsmeistara á ný, sextán árum eftir að liðið vann titilinn í fyrsta sinn undir stjórn Friðriks Inga Rúnarssonar.

Titillinn í ár jafnast engan veginn á við þann fyrsta, en Grindvíkingum er nákvæmlega sama. Þeir fagna fram eftir nóttu og vonandi fram á miðvikudag.

Titillinn sem Grindavík er að vinna núna stendur hinum langt að baki af því liðið sem vann 1996 átti ekkert að verða Íslandsmeistari. Það var vissulega gott, en færri bjuggust við að það færi alla leið. Það var geggjuð úrslitakeppni, svo mikið munum við.

Íslandsmeistarar Grindavíkur árið 2012 áttu hinsvegar að vinna titilinn. Alveg frá því síðasta sumar eða haust. Snemma var ljóst að Grindvíkingar ætluðu sér að vera með alvöru lið og þegar ljóst varð að KR yrði án flestra sinna lykilmanna í vetur, var eðlilegt að liðinu væri spáð titlinum.

Við nennum ekki að fletta því upp, en við sögðum mjög snemma í haust að það yrði skandall ef Grindavík yrði ekki meistari með þennan mannskap. Ekki hægt að segja neitt annað þegar liðið er með þrjá þungavigtarkana umkringda landsliðsmönnum.

Grindavík átti að vinna titilinn og gerði það. Fyrir það eiga Helgi Jónas og drengirnir hans skilið hrós. Þeir lokuðu. Hefðu getað drullað á sig, en náðu að loka.


Grindvíkingar gáfu sögunni langt nef. Liðið hefur oftar en einu sinni verið með flottan árangur í deildadkeppninni en strandað í úrslitakeppninni.

Við biðum alltaf eftir þessu strandi núna. Það kom aldrei. J´Nathan Bullock hefði aldrei látið það viðgangast.

Bullock er maður ársins í Iceland Express deildinni, um það verður ekki deilt. Hann var gjörsamlega óstöðvandi í sigrum Grindavíkur og öðrum fremur ástæða þess að liðið kláraði einvígið.

Watson er líka algjör gæðaleikstjórnandi, Jóhann Árni kom með nokkuð óvænta spretti í lokaúrslitunum og Þorleifur skilaði framlagi bæði fyrir sig og Ólaf bróðir sinn. Þá vorum við óskaplega hrifin af frammistöðu Sigurðar Þorsteinssonar í miðjunni. Hann verður að læra að tolla lengur inni á vellinum.


Govens var heilt yfir góður í liði Þórs en skilaði ekki því ofurmannlega framtaki sem liðið þurfti frá honum til að eiga séns á titlinum.

Það var líka rosalega gaman að fylgjast með þeim Darra og Guðmundi. Algjörir stríðsmenn báðir tveir og eiga hrós skilið fyrir veturinn, eins og reyndar allt Þórsliðið.

Skorum líka á Grétar að koma sér í betra form fyrir næsta vetur og passa sig að verða ekki valinn í landsliðið.

Það var ekki KR-pressa á Grindavík að vinna titilinn, en það var samt pressa á þeim. Það var auðsjáanlega búið að eyða miklu í að byggja þetta lið upp og margir hefðu verið tilbúnir með brandara ef liðið hefði tapað.

Við verðum því að hrósa Helga Jónasi fyrir að ná að klára þetta. Hann á bjarta framtíð fyrir sér sem þjálfari og það er jákvætt að Grindavíkurliðið sé búið að hrista apann af öxlinni á sér. Til hamingju Grindavík.

Að öllu þessu sögðu, er Þór Þorlákshöfn lið ársins í okkar bókum. Benedikt Guðmundsson er þjálfari ársins með yfirburðum og eins og hann sagði sjálfur hafa Þórsarar skrifað marga kafla í sögu- og metabækur með frammistöðu sinni í vor og vetur.

Það lofar góðu fyrir minni klúbba að sjá hvað er hægt að vera ef tekst að smala saman góðum mannskap.

Þór er með umgjörðina, fékk frábæran þjálfara sem fékk nokkra toppmenn til að ganga til liðs við sig. Þetta er engin skammtafræði.

Þórsliðið er vonandi komið til að vera í toppslagnum í úrvalsdeildinni. Það er gaman að vera með öll þessi hörkulið úti á landi í efstu deild og velgengni liðanna hleypir lífi í plássin í skammdeginu.

Enn einu frábæru körfuboltaárinu er lokið hér heima og við getum ekki beðið eftir því næsta. Þar verða nýjar reglur og nýjar áskoranir að takast á við.