Thursday, May 31, 2012

Sögulegt San Antonio



































Mikið hefur verið látið með tuttugu leikja sigurgöngu San Antonio Spurs, liðsins sem hefur risið upp frá dauðum og margir spá nú að muni halda áfram að valta yfir mótherja sína þangað til það vinnur fimmta meistaratitilinn.

Það er alveg skiljanlegt að þessi rispa hafi fangað athygli fólks, þó eflaust væri gert meira úr henni ef liðið á bak við hana væri til dæmis New York Knicks. Þessir tuttugu sigurleikir í röð eru þriðja lengsta sigurganga í sögu NBA, sem er ótrúlegt.

Annað þykir okkur eiginlega ótrúlegra - og það er það að San Antonio er búið að vinna 22 af síðustu 25 leikjum sínum á útivelli. Og það sem er enn ótrúlegra, er að í tveimur af þessum þremur tapleikjum, voru Duncan, Parker og Ginobili ekki með.

Eitthvað verður því undan að láta hjá Spurs fljótlega. Það bara hlýtur að vera. Liðið fær stórt próf í kvöld þegar það sækir Oklahoma heim í þriðja leiknum í úrslitum Vesturdeildar. Þú gætir þess vonandi að missa ekki af því á Sportinu klukkan eitt í nótt.