Monday, May 28, 2012

Nokkur orð um sjónvarpsleikina framundan


Í kvöld hefjast undanúrslitin í NBA. Fyrsti leikur San Antonio Spurs og Oklahoma City er um það bil að hefjast þegar þetta er ritað að kvöldi sunnudagsins 28. maí.

Annað kvöld hefst svo einvígi Miami og Boston í úrslitum Austurdeildar.

Allir sem áhuga hafa á þessari veislu vilja auðvitað vita hvernig sjónvarpsútsendingum hér heima verður háttað frá veislunni og því er best að skerpa aðeins á því hér.

Stöð 2 Sport er með ákveðinn kvóta af leikjum sem hægt er að sýna frá leikjum í úrslitakeppninni. Þegar kemur að því að velja leikina þarf stöðin auðvitað að taka mið af því að sem best áhorf verði á leikina. Því er reynt að sýna sem mest af leikjunum um helgar til að byrja með, þar sem leikirnir eru frekar á góðum tíma þá og flestir að horfa.

Þegar lengra kemur fram í úrslitakeppnina þarf svo að gæta þess að nota kvótann vel og brenna ekki inni með hann. Allir hefðu auðvitað kosið að sjá meira frá hinum og þessum skemmtilegu rimmum sem verið hafa í gangi í úrslitakeppninni, en því miður er ekki hægt að sinna öllum.

Eins og undanfarin ár hefur því verið reynt að eiga sem flesta leiki inni þegar kemur að "alvörunni" - það er að segja leikjunum í undanúrslitunum. Lokaúrslitin sjálf eru sér á parti og þar eru auðvitað alltaf sýndir allir leikir.

Í ár vildi þannig til að einvígin í Vesturdeildinni urðu fremur endasleppt, en drógust á langinn í austrinu. Því reyndi Sportið að sinna því vel - var m.a. með hreinan úrslitaleik Celtics og Sixers í beinni í gærkvöld.

Það er því nokkuð búið að höggva af kvótanum, en þó ekki svo að við fáum ekki að fylgja undanúrslitarimmunum bæði í austri og vestri vel eftir. Eins og kvótinn passar núna er útlit fyrir að Sportið þurfi að sleppa einum leik úr hvoru einvígi til að geta örugglega sýnt úrslitaleikina þegar til þeirra kemur.

Yfirleitt er það þannig að þessi einvígi fara langt, jafnvel í sex eða sjö leiki, og þá vill enginn lenda í því að eiga ekki kvóta og þurfa að sleppa leik sjö ef til hans kemur. Það er heilbrigð skynsemi. Því er heppilegast að sýna leik eitt hjá Spurs og Thunder í kvöld (á góðum tíma, frí á morgun), en sleppa frekar leik eitt hjá Miami og Boston og svo leik tvö hjá San Antonio og Oklahoma. Þessir leikir eru á tímum þar sem hvað minnst áhorf er og við hljótum að lifa af að missa af þessum leikjum, þó það sé auðvitað bölvað í sjálfu sér.

Þegar það er svo afstaðið, geta allir skemmt sér við að horfa á hvern einasta leik sem eftir er í undanúrslitunum og svo öll lokaúrslitin.

Gættu þess að þessi pæling hér að ofan er ekki bindandi. Það liggur ekki alveg fyrir hjá ritstjórninni hver mörgum leikjum þarf að sleppa - kannski einum - kannski þremur. Það verður staðfest eftir helgina og sett inn á dagskrársíðuna okkar.

Það er von ritstjórnar að þessi útskýring dugi NBA þyrstum lesendum og sjónvarpsáhorfendum, en þið getið sent línu á nbaisland@gmail.com ef þið krefjist frekari skýringa á þessu öllu saman.

Góða skemmtun. Lifi leikurinn.

Ritstjórnin.