Thursday, May 31, 2012

Til hamingju New Orleans


Við berum miklar taugar til tónlistarborgarinnar New Orleans og því var það okkur sönn ánægja þegar í ljós kom að körfuboltafélagið í borginni hreppti hnossið í Nýliðalottóinu.

Eins og svo oft áður þurfti liðið með lélegasta árangurinn að bíta í það súra epli að fá ekki fyrsta valréttinn þrátt fyrir að eiga bestu líkurnar á því.

Á grafinu hér til hliðar sérðu hvaða líkur klúbbarnir áttu á því að hreppa fyrsta valréttinn og þar sést glöggt að Charlotte átti auðvitað bestu líkurnar á 1. valrétti, en sem betur fer varð ekkert úr því.

Það hefði verið dapurlegt að sjá Michael Jordan skamma Brúnar inn á geðveikrahæli og bjóða svo jafnvel upp á þriðju endurkomuna eftir Stjörnuleikinn í febrúar.

Sem betur fer sér karmað oftast um að refsa skítaklúbbum sem tanka. Það átti reyndar ekki við um Golden State að þessu sinni, en félagið fékk að halda sínum valrétti sem það hafði mikið fyrir að tanka til sín í vetur. Skammarlegt metnaðarleysi.

Það er ekkert leyndarmál að hinn fjölhæfi og varnarsinnaði einbrúnungur Anthony Davis verði valinn númer eitt í sumar. Ef að líkum lætur, á Brúnar eftir að reynast slöku liði New Orleans sannkallaður hvalreki.

Gaman fyrir hinn efnilega þjálfara Monty Williams og þetta unga lið. Vonandi skemma samsæriskenningarnar ekki fyrir þeim gleðina og við fáum bara bullandi uppgang í Nawlins.