Saturday, November 30, 2013
Að tapa fyrir Kings
Þessar tvær skemmtilegu myndir tók ljósmyndarinn Rocky Widner. Sú fyrri (t.v.) var tekin árið 2003 þegar LeBron James spilaði sinn fyrsta leik í NBA deildinni. Þá tapaði hann fyrir heimamönnum í Kings með liði sínu Cleveland Cavaliers.
Seinni myndin var svo tekin snemma á þessu ári, tæpum tíu árum seinna. Þar er James aftur á flugi en nú með Miami Heat og í þetta skiptið vann hann auðvitað sigur, verandi tvöfaldur meistari og besti leikmaður heims.
Eins og þið sjáið á gólfinu eru báðar myndirnar teknar í Sacramento. Það boðar fátt annað en gott að tapa sínum fyrsta NBA leik gegn Kings á útivelli ef marka má söguna.
Það vill svo skemmtilega til að Kevin Garnett þreytti einnig frumraun sína í Sacramento og mátti hann líka sætta sig við tap.
Ferill miðherjans Sam Bowie var reyndar ekki jafn farsæll. Hann spilaði sinn fyrsta leik á ferlinum gegn Kings árið 1984 en náði aldrei að halda heilsu - var í meiðslaveseni allan ferilinn.
Ætli það hafi ekki verið af því hann vann fyrsta leikinn sinn gegn Kings.
Umrætt tímabil var liðið reyndar ekki komið til Sacramento, heldur var það á síðasta árinu sínu í Kansas sem Kansas City Kings. Félagið var í Kansas á árunum 1972 til 1985.
Árið 1983 spilaði svo skotbakvörðurinn Byron Scott sinn fyrsta NBA leik með Los Angeles Lakers gegn Kings í Kansas. Scott lét sér nægja að setja eina körfu í leiknum, meðan Kareem Abdul-Jabbar (25/10) og Magic Johnson (16/11) drógu vagninn fyrir Lakers.
Þarna eruð þið komin með ágætis trivíu fyrir næsta pöbb kvis. Það var lítið.
P.s. - Á myndinni hér fyrir ofan sjáið þið goðsögnina Reggie Theus, sem var einn þeirra leikmanna sem fluttu með félaginu frá Kansas alla leið vestur til Sacramento. Þú ert ekkert að hjóla það.
Efnisflokkar:
Frumraunir/frumsýningar
,
Kevin Garnett
,
Kings
,
LeBron James
,
NBA 101
Carmelo Anthony reynir að vinna körfuboltaleiki
Denver tók á móti New York í nótt. Sumir eru hreinlega búnir að gleyma því, en þessar viðureignir eru dálítið sérstakar fyrir þær sakir að aðalskorari New York var jú einu sinni aðalstjarna Denver-liðsins.
Carmelo Anthony á ekki skemmtilegar minningar frá gamla heimavellinum, því á síðustu leiktíð spilaði hann illa í Denver og þurfti loks að fara meiddur af leikvelli. Ekki var það mikið skárra í ár. Anthony hitti frekar illa úr skotunum sínum og þar á meðal var loftbolti sem hefði getað sent leikinn í framlengingu. Loftboltinn kom reyndar til af því Anthony lét 193 sentimetra háan Randy Foye verja frá sér skotið.
New York er búið að vinna 108 leiki síðan Carmelo Anthony gekk í raðir liðsins, en Denver hefur unnið 122 leiki á sama tímaskeiði. Denver hefur ekki unnið seríu í úrslitakeppni eftir að Anthony fór (0-3), sem er svo sem í takt við það sem tíðkaðist meðan hann var þar, ef eitt ár er undanskilið. New York hefur tekist að vinna eina seríu í úrslitakeppni, þegar það lufsaðist í gegn um Boston í vor og er því á svipuðum slóðum og Denver á þeim bænum (1-3).
New York (3-12) byrjar leiktíðina vægast sagt hörmulega og er búið að tapa átta leikjum í röð. Flestum þykir eflaust erfitt að kyngja því þegar liðið þeirra tapar átta leikjum í röð, en reyndar er nú ekki svo langt síðan Knicks tapaði átta í röð (feb. 2010). Denver (9-6) hefur hinsvegar unnið níu af síðustu tólf eftir hikst í byrjun (0-3).
Það vantar mikið í liði Knicks þegar Tyson Chandler er ekki í vinnunni, flestir vita hvað hann er duglegur varnarmaður.
Það er samt athyglisvert að það hafði lítil sem engin áhrif á liðið í fyrra þegar Chandler meiddist, það hélt samt áfram að vinna.
Við erum enn ekki búin að fatta af hverju New York vann svona marga leiki á síðustu leiktíð, en gæti verið að eitthvað af því tengist jafnvel leiðtogahæfileikum Jason Kidd og eldri borgaranna sem voru í liðinu þá?
Margir eru hissa á að ekkert gangi hjá Knicks þessa dagana, en að okkar mati er þetta gengi frekar nær raunveruleikanum en velgengnin á síðustu leiktíð.
Fólk er búið að bíða rosalega lengi eftir fyrsta meistaratitlinum hans Carmelo Anthony. Við ráðleggjum þessu fólki að halda ekki niðri í sér andanum. Við erum búin að reikna þetta út á vísindalegan hátt: New York á í dag 14,7% betri líkur á að vinna meistaratitilinn en Fram á Skagaströnd.
Knicks hefur ekki unnið meistaratitilinn í 40 ár og það er ljóst að engin breyting verður á því á næstunni. Félagið er að fá átakanlega lítið út úr ofborguðum milljarðamæringunum sínum, sem liggja og baða sig upp úr drullunni eins og ofalin svín.
Við höfum ekki hugmynd um hvað Carmelo Anthony segir við son sinn þegar hann liggur á dánarbeðinu þegar að því kemur. En við erum nokkuð örugg um það það verður ekki;
"Ó, mig auma, sonur! Ég vildi að ég hefði tekið fleiri skot þegar ég var atvinnumaður í körfubolta, þá hefðum við kannski unnið eitthvað, fjandakornið! Kreegah, ´Melo bundolo!"
Efnisflokkar:
Carmelo Anthony
,
Knicks
,
Taphrinur
Sælar stelpur, Spencer hérna
Spencer Hawes verður að fara að gæta að sér. Ef hann heldur áfram á þessari braut, þarf hann að spila Stjörnuleik í febrúar.
Sixers-miðherjinn geðþekki er að skora 17 stig, hirða 10 fráköst, gefa 3 stoðsendingar og verja 1,6 skot að meðaltali í leik. Þar að auki er hann að skjóta rúmlega 53% utan af velli og hittir úr 49% þriggja stiga skota sinna - sem er fjandi magnað því hann tekur hátt í fjögur langskot að meðaltali í leik.
Við komumst að því í nótt að Spencer Hawes er á ákveðinn hátt algjör andstæða Marc Gasol sem miðherji í NBA deildinni. Gasol er frábær miðherji sem skilar skítlélegum tölum alveg sama hvað hann spilar vel.
Nú ætlum við ekki að segja að Hawes greyið sé skítlélegur, en hann er klárlega ekki alveg eins góður og tölfræðin hans segir. Hann er náttúrulega að spila með liði sem vinnur ekkert rosalega marga leiki.
Við skulum samt ekkert vera að velta okkur upp úr því, heldur njóta þess sem Hawes er að bjóða upp á í vetur. Af hverju að vera að setja út á það, þá sjaldan að miðherji gerir eitthvað í NBA deildinni.
Efnisflokkar:
Helvíti líklegt að þetta hashtagg verði notað aftur
,
Miðherjar
,
Öskubuskuævintýri
,
Sælar stelpur
,
Sixers
,
Spencer Hawes
Ó Russ
Þið vitið vel að við elskum Russell Westbrook. Okkur leiddist því ekki lífið í nótt þegar Russ bauð upp á þessa frábæru sigurkörfu í æsilegum leik Oklahoma og Golden State.
Golden State hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum eftir fína byrjun, en stuðningsmenn Warriors hafa líklega ekki stórar áhyggjur af því, enda skrifast töpin að mestu leyti á meiðsli lykilmanna. Það eru alltaf meiðsli hjá Golden State, en það að missa Stephen Curry og Andre Iguodala (leikstjórnendur liðsins) var bara of mikið.
Nú er Curry kominn til baka og hirti meira að segja 11 fráköst í nótt. Styttist líka í Iguodala sem er meiddur á læri. Við skulum vona að Golden State verði búið að taka meiðslakvótann út í úrslitakeppninni í vor. Við nennum ekki að díla við neitt "hvað ef" varðandi þetta lið í úrslitakeppninni. Það er kominn tími til að sjá hvað þetta lið getur þegar allir eru heilir(ish).
Efnisflokkar:
Á flautunni
,
Hafðu þetta hugfast um jólin
,
Russell Westbrook
,
Stephen Curry
,
Thunder
,
Tilþrif
,
Warriors
,
Þristar
Stoðsendinga-Stefán
Lance Stephenson, leikmaður Indiana Pacers, er sá eini sinnar tegundar í heiminum. Hann er svona költ-leikmaður. Ef hann væri rokkhljómsveit, væri hann Celtic Frost.
Stephenson bauð upp á dálítið fyndna tvennu í nótt þegar hann hirti 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar í leik þar sem Indiana pissaði yfir Washington 93-73 og fór í 15-1 á leiktíðinni. Stephenson náði ekki þrennunni af því skoraði ekki nema sjö stig úr skotunum sínum sjö (og tapaði boltanum reyndar átta sinnum, sem er ekkert spes), en það voru sendingarnar hans sem stóðu upp úr í þessum leik.
Það er líka ekki á hverjum degi sem menn bjóða upp á svona huggulegheit:
Heimild: áttastigáníusekúndumpunkturkom.
Efnisflokkar:
Lance Stephenson
,
Pacers
,
Sigurgöngur
,
Stoðsendingar
,
Team Lance
,
Tilþrif
,
Velgengni
Thursday, November 28, 2013
Liðin í Austurdeildinni kunna fæst körfubolta
Sextán lið komast í úrslitakeppni NBA deildarinnar á vorin - átta úr Austurdeild og átta úr Vesturdeild. Flestir átta sig á þessu. Undanfarin ár hefur hinsvegar komið upp umræða um að breyta þessu, af því deildirnar hafa verið vægast sagt ójafnar. En aldrei eins og nú.
Vesturdeildin er búin að vera umtalsvert betri en Austurdeildin í nokkur ár. Vesturdeildin er enn mjög sterk, en Austurdeildin er sögulega léleg. Við höfum fylgst með NBA boltanum síðan á níunda áratugnum, en við höfum aldrei nokkru sinni séð annan eins brandara og nú er að eiga sér stað í austrinu.
Þegar þetta er skrifað eru liðin í deildinni búin að spila öðru hvoru megin við fimmtán leiki og þó það sé kannski ekki mikið á 82 leikja tímabili, er það marktækur leikjafjöldi til að draga minniháttar ályktanir um stöðu mála.
Aðeins tvö af fimmtán liðunum í Austurdeildinni eru að skila yfir 50% vinningshlutfalli.
Tvö. Lið.
Þetta hlýtur að vera heimsmet - þetta á ekki að vera hægt!
Ef við myndum stokka þetta upp og breyta reglunum á þann veg að þau sextán lið sem kláruðu deildakeppnina með besta vinningshlutfallið myndu fara í úrslitakeppnina - óháð allri landafræði - kemur í ljós að tólf af þessum sextán liðum kæmu úr Vesturdeildinni. Þetta er með ólíkindum.
Indiana (14-1) og Miami (12-3) eru mjög sterk lið og eru líka við toppinn í deildinni, en Chicago (7-7) og Atlanta (8-8) eru aðeins miðlungslið (Chicago án Derrick Rose) sem eru ekki að fara að gera neitt í úrslitakeppninni.
Þetta er hreint út sagt átakanlegt hjá austanmönnum. Grátlegt.
Hugsið ykkur bara að ef úrslitakeppnin hæfist í dag, myndi Detroit rúlla inn í úrslitakeppni Austurdeildarinnar með 40% vinningshlutfall, meðan þrjú lið með 50% eða betra vinningshlutfall í vestrinu þyrftu að sitja heima. Það er lítil sanngirni í því.
Þetta á allt eftir að jafna sig út og það eru rökin sem NBA deildin beitir þegar menn eru að tuða yfir því hvað deildirnar eru ójafnar í dag. Það getur vel verið að Austurdeildin verði orðin betri en Vesturdeildin eftir nokkur ár - en við skegg Óðins - ekki svona mikið betri.
Efnisflokkar:
Austurdeildin
,
Drullan upp á herðar
,
Vesturdeildin
Fráköst í boði
Fólk er dálítið að spá í það af hverju Carmelo Anthony sé allt í einu farinn að frákasta eins og maður, með um tíu slík að meðaltali í leik. Það er reyndar ekki erfitt að svara því.
Það liggur í augum uppi að það eru talsvert fleiri fráköst í boði á varnarendanum þegarTyson Chandler er meiddur og mennirnir tveir sem eru með Carlmelo í framlínu Knicks, þeir Kenyon Martin (4) og Andrea Bargnani (5), frákasta ekki meira en þessir tveir:
Efnisflokkar:
Carmelo Anthony
,
Dýraríkið
,
Fráköst
,
Knicks
Refurinn Kidd
Ferlegt að eiga engin leikhlé þegar allt er í járnum í lokin. Þá verða menn bara að leika af fingrum fram og ef einhver refurinn kann svoleiðis, er það Jason Kidd. Gárungarnir tala um að þetta sé eina kerfið sem Kidd hefur klárað með Nets í vetur. Þetta var annað hvort hrikalega ómerkilegt eða snilld hjá Kidd, en hvort sem það var, dugði það Nets ekki til sigurs frekar en venjulega. Þunglyndið í New York verður ekki mikið meira.
Efnisflokkar:
Hokinn af reynslu
,
Jason Kidd
,
Klókindi
Þakkargjörðarbarnið
Það er alveg sama hvort er þakkargjörðarhátíð eða ekki, Stóra Barnið Glen Davis gætir þess að vera sem eðlilegastur eins og venjulega.
Efnisflokkar:
Fuglamaðurinn
,
Glen Davis
,
Holdafar
Svartir Úlfar
Það eru skiptar skoðanir um aukabúninga Úlfana sem þeir klæddust í nótt. Auðvitað er þetta líkara hand- eða fótboltabúningum en körfuboltabúningum, en það má alveg hafa gaman að þessu. Svartur klikkar aldrei.
Efnisflokkar:
Fötin skapa manninn
,
Kevin Love
,
Ricky Rubio
,
Timberwolves
,
Tíska
,
Treyjur og búningar
,
Úlfavaktin
Wednesday, November 27, 2013
Sunday, November 24, 2013
Stórlaxaafmæli
Nokkrir stórhöfðingjar eiga afmæli í dag. Detroit-goðsögnin og borgarstjórinn Dave Bing er þannig sjötugur í dag og Rudy Tomjanovich leikmaður og þjálfari Houston Rockets er 65 ára. Úrvalsleikmaðurinn Oscar Robertson er 75 ára í dag og þá á Henry Bibby, pabbi hans Mike Bibby líka afmæli. Engir smá karlar þetta. NBA Ísland hefur ákveðið að baka köku handa þessum snillingum í tilefni dagsins.
Efnisflokkar:
Afmæli
Snemmbúið stöðutékk
Það er dálítið snemmt að taka vörutalningu þegar liðin eru ekki búin að spila nema 12-14 leiki, en við vitum að ykkur leikur alltaf forvitni á að vita hvað ritstjórn NBA Ísland finnst um gang mála. Við drulluðum líka á okkur með að hita upp fyrir tímabilið með pistli, en við þökkum reyndar Guði fyrir að ekkert hafi orðið af því - allar spár væru strax komnar í klessu.
Helsta ástæðan fyrir því að við ráðumst fram á ritvöllinn svona snemma að þessu sinni er í rauninni kunnugleg. Við gátum ekki stillt okkur um að segja nana-nana-bú-bú á Austurdeildina, sem um þessar mundir er svo léleg að næsta skref er að fara að sekta þessi lið fyrir að vera svona mikið drasl.
Jú, við erum með tvö hörkulið í Austurdeildinni - liðin sem mættust í úrslitaeinvíginu í austrinu í vor - Miami og Indiana. En þar með er það því miður upp talið. Grínlaust.
Aðeins eitt lið hefur/hafði burði til að stríða Miani og Indiana og það var Chicago, en það hljóta allir að sjá að þó að Chicago verði alltaf erfitt við að eiga, á það enga möguleika gegn bestu liðinum tveimur í austrinu meðan Derrick Rose er á bráðamóttökunni.
Meistararnir í Miami og ungu mennirnir í Indiana eiga eftir að slást um efsta sætið í austrinu í allan vetur í von um að ná heimavallarréttinum góða í vor.
En er Austurdeildin þá bara tvö góð lið og eitt sæmilegt? Hvað varð um þessi svokölluðu stórlið þarna í New York? Áttu þau ekki að vera í bullandi séns í vetur?' Er Atlanta að fara að gera eitthvað?
Og hvað með öll liðin sem áttu að verða Spútniklið vetrarins - lið eins og Washington, Detroit, Orlando og Cleveland?
Við þurfum ekki að hafa mörg orð um þetta. Það segir sína sögu að liðin í 7. og 8. sæti Austurdeildarinnar í dag, sætu í 14. og 15. sæti ef þau léku í Vesturdeildinni. Hugsið ykkur.
Áðurnefnd Spútniklið í Austurdeildinni geta bara ekki neitt enn sem komið er og auðvitað er öllum enn skítsama um Atlanta!
New York-liðin er gjörsamlega með allt lóðrétt niður um sig, þó meiðsladraugurinn sé reyndar búinn að vera með hnefann í ristlinum á þeim báðum - sérstaklega í Júragarðinum í Brooklyn.
Það er kómískt að horfa á þessa stöðutöflu hérna fyrir ofan. Fáránlegt að hugsa til þess að Toronto væri með heimavallarrétt ef úrslitakeppnin hæfist í dag og Charlotte, Philadelphia og Washington tækju síðustu þrjú sætin. Eðlilegt.
Svo er skondið að horfa á liðin sem kæmust ekki í úrslitakeppnina, en það eru mikið til liðin sem ráðið hafa ríkjum í austrinu undanfarinn áratug; Boston, Orlando, Cleveland og Detroit.
Nei, nú skulum við drífa okkur vestur á bóginn áður en við drepumst úr leiðindum.
Vesturdeildin er eitt stórt og standandi partý eins og hún hefur verið síðustu ár. Kjarnorkuknúið silfurlið San Antonio bara ætlar ekki að játa sig sigrað og byrjar 12-1. Þetta lið er svo mikið rugl. Gerir bara lítið úr andstæðingunum.
Portland er að Spútnikka dálítið með tíu sigra í röð og er á toppnum með Spurs, en svo kemur nánast restin af Vesturdeildinni í einum haug með þetta 50-60% vinningshlutfall. Aðeins fjóshaugarnir Kings og Jazz eru í ruglinu vestan megin, öll hin liðin fara frá því að vera virðingarverð (meira að segja Suns er enn 50%) upp í að vera ofur.
Þó flest liðin í Vesturdeildinni séu þokkalega sterk, eru þau flest með einhverja áberandi galla líka og það verður fróðlegt að sjá hvernig þau náð að vinna í því í vetur.
Eins og við sögðum er þetta auðvitað bara rétt að byrja og því ekki tímabært að fara djúpt í hlutina. Hérna eru samt nokkrir punktar sem vekja athygli okkar í Vesturdeildinni eftir fyrstu vikurnar:
* Við áttum alls ekki von á því að Spurs kæmi svona sterkt til leiks í haust eftir eitt viðbjóðslegasta niðurbrotstap sem sögur fara af í lokaúrslitunum í sumar.
Við erum hætt að nenna að fabúlera um þetta lið. Það bara vinnur og vinnur og vinnur og vinnur og whaddafuck!
* Oklahoma er ekki búið að ná fullum styrk af því að Russell Westbrook er ekki búinn að ná fullum styrk. Kevin Durant heldur bara áfram að verða betri og Serge Ibaka má eiga það að hann er líka að bæta sig.
Oklahoma er hinsvegar ekki jafn sterkt lið og í fyrra - og liðið í fyrra var ekki jafn sterkt og árið þar á undan. Þið fattið hvert við erum að fara.
* Doc Rivers hefur engan veginn náð að fá Clippers til að spila vörn og þó þetta lið geti litið svooo vel út á köflum, getur það líka litið illa út, þó þeir Chris Paul og Blake Griffin séu að spila af sér anusinn og DeAndre Jordan sé farinn að frákasta eins og maður.
* Monta Ellis er að spila vel fyrir Dallas og það kemur okkur í opna skjöldu. Maðurinn hlýtur að fara að sýna sitt rétta andlit. Eins er það enn sem komið er að ganga upp fyrir liðið að hafa Samuel Dalembert í miðjunni - og það er jafnvel enn fáránlegra.
Það þýðir samt ekkert að afskrifa lið með þennan þjálfara og heilan Dirk. Það er uppskrift að nokkrum sigrum.
* Houston... Dwight Howard.... *hristum höfuðið*
* Golden State er asnalega skemmtilegt lið og gott í þokkabót. Ávísun á flugeldasýningar og netbrennur á hverju kvöldi. Ef þetta lið drullast til að haldast heilt og bætir við sig 1-2 góðum bitum, getur það farið að sækjast eftir aðalhlutverkum.
* Úlfarnir eru dásamlegir líka. Ástþór er að setja upp brjálaðar tölur. Vonandi verður þetta ár Úlfanna. Þeir eiga það inni.
* Memphis stendur við þröskuldinn og horfir inn í veisluna - hefur ekki efni á aðgöngumiðanum. Sorglegt sitúasjón.
* Og Brúnar! Vá, hvað drengurinn er að brjóta sér leið inn í elítuna núna. Er orðin algjör pest í vörninni og skilar einhverju á öllum vígstöðvum. Það verður svakalegt að fylgjast með honum á næstunni, þó Dílaskarfarnir hans séu enn sem komið er að valda vonbrigðum.
Efnisflokkar:
Vörutalning
Blús hjá Bruce
Stóllinn er farinn að hitna verulega undir Steve Bruce, stjóra Hull City Tigers, eftir að liðið tapaði 1-0 á heimavelli fyrir flippin Crystal Palace í gær. Það er svo dásamlegt hvað Bruce er slakur knattspyrnustjóri. Svona reglulega undir meðallagi ef svo má segja. Verður gaman að sjá hvort hann verður rekinn fyrir eða eftir að Hull fellur í vor.
Efnisflokkar:
Knattspyrna
Uppfærð dagskrá
Gleður okkur að tilkynna að desemberdagskráin á NBATV sjónvarpsstöðinni liggur nú fyrir og er komin inn á þar til gerða dagskrársíðu hér á NBA Ísland.
Í hverjum einasta mánuði fáum við fjölda tölvupósta þar sem við erum spurð út í dagskrármálin, því svo virðist sem fólk átti sig hreinlega bara ekki á því að það er sérstök undirsíða tileinkuð dagskrá á Íslandinu okkar.
Einhver hefði sagt að hún lægi í augum uppi, en svona er þetta stundum. Við ákváðum því að láta fylgja með mynd að þessu sinni, sem ætlað er að reyna að útskýra hvar nálgast má yfirlit yfir beinar útsendingar á NBATV. Gjörið svo vel elskurnar og góða skemmtun í jólamánuðinum.
Efnisflokkar:
Dagskrá
Tvífarar vikunnar (aftur)
Stundum þarf bara að velja tvífara vikunnar tvisvar í viku. Við höfum stundum velt því fyrir okkur hvort Ricky Gervais sé að herma eftir Martin Jol þegar hann leikur nýju hetjuna sína Derek.
Derek þessi er einfeldningur sem vinnur á elliheimili og hrífur allt og alla með sér með hlýju sinni og einlægni þó hann sé ekki greindari en póstkassi. Martin Jol þekkja flestir sem knattspyrnustjóra Tottenham og Fulham, en færri vita kannski að hann á bræður sem heita Dick og Cock. Án gríns. Þú getur t.d. lesið um það neðst í þessari grein.
Efnisflokkar:
Doppelgangers
,
Knattspyrna
,
Sjónvarp
Töff samantekt hjá Ísfirðingum
Flestum sem búa utan Vestfjarðakjálkans góða, vex það í augum að bruna alla leið á Ísafjörð jafnvel þó gæðakörfubolti sé í boði. Þess vegna er ómetanlegt að fyrir vestan sé metnaðarfullt fólk sem sýnir leiki KFÍ á netinu og tekur svo saman svona fallega pakka handa okkur sem búum í öðru landshlutum, hvort sem það er á Vopnafirði, Djúpavogi, Höfn, Reykjavík, Stykkishólmi, Hvammstanga, Húsavík eða Kópaskeri. Hérna fyrir neðan eru léttar svipmyndir frá leik KFÍ og Grindadvíkur í gær. Þetta er vel gert.
Á 20 ára afmæli Hundaláta
Þessi epíski gripur kom út fyrir nákvæmlega 20 árum síðan. Árið áður, eða 1992, hafði Snoop Doggy Dogg (Heyrðu Snöggvast Snati Minn) getið sér gott orð sem rappari þegar hann tók þátt í plötunni Innansveitarkróniku með Dre lækni, sem er ekki síður söguleg og fastrituð í annála hip hop tónlistarinnar.
Þó að Snati hafi verið orðinn þekktur í Bandaríkjunum eftir Króníkuplötu Doktorsins, var hann ekki eins þekktur hér heima á klakanum. Fréttirnar af því að þessi Snoop væri búinn að gefa út plötu breiddust enn hraðar út þegar til stóð að kappinn færi jafnvel í fangelsi fyrir aðild sína að morðmáli.
Hver var þessi gangsterrapari sem átti yfir höfði sér fangelsisdóm?
Okkur þykir gaman að rifja þetta upp, því gott ef Snoop er ekki einn síðasti tónlistarmaðurinn sem gat talist goðsögn, af því innkoma hans í rappið var hulin mistíkinni sem einkenndi tímana fyrir innkomu internetsins.
Þá var ekkert TMZ, bara goðsagnir munn frá munni, mann frá manni, ef svo má segja.
Við þurfum ekki að hafa mörg orð um gæði þessarar skífu, en á henni er varla veikan blett að finna. Doktorinn heldur í hendina á skjólstæðingi sínum í gegn um plötuna og tekst einstaklega vel til. Snoop (og Doktorinn) kom með nýja gerð af glæparappi. Orti ekki bara um gengi og skotvopn eins og þeir sem á undan komu, en þeim mun meira um áfengi, eiturlyf og meint ágæti sitt í samskiptum við hitt kynið.
Það er alveg sama hvenær við smellum Hundalátum á fóninn, alltaf er hún jafn góð og alltaf fyllir hún okkur fortíðarþrá - meira en flestar plötur. Við máttum því til með að minnast hennar í örfáum orðum. Það má vel vera að Snati sé í tómu rugli í dag (og vilji t.d. láta kalla sig (L)Jón) en frumraun hans mun alltaf koma okkur í gott skap. Því ekki að schmella henni undir nálina núna? Við ætlum að gera það.
Lodi, dodi...
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Goðsagnir
,
Klassík
,
Tónlistarhornið
Júragarðurinn
Efnisflokkar:
Kvikmyndahornið
,
Mikhail Prokhorov
,
Myndasögur
,
Nets
,
Sjoppan
,
Skrítlur
Berst Háskólanum aðstoð úr óvæntri átt?
Munið þið eftir Gilbert Arenas? Ef ekki, er hann leikmaður sem spilaði einu sinni í NBA deildinni en átti það leiðinlega oft til að meiðast. Það kom þó ekki í veg fyrir að menn (Washington, Orlando) væru til í að borga honum fullt af peningum.
Arenas blessaður er þannig þriðji launahæsti körfuboltamaður í heimi í ár samkvæmt uppgefnum tölum, þó hann hafi ekki spilað í NBA deildinni í nokkur misseri. Tæknilega á Orlando að punga út rúmum 2,7 milljörðum króna handa honum í vetur, en sagt er að félagið hafi nýtt sér klásúlur í kjarasamningum til að draga þessar greiðslur eitthvað aðeins á langinn, eða út árið 2016.
Það breytir því ekki að Arenas á enn inni mjög góða summu. Fregnir herma að þessi summa hlaupi á rúmum fjórum og hálfum milljarði króna.
Og eins og við hérna á NBA Ísland gerum gjarnan, þótti okkur upplagt að leggja til hvað hægt væri að gera fyrir alla þessa peninga annað en að borga manni þá sem mætir ekki einu sinni í vinnuna.
Þeir segja að Hús íslenskra fræða komi til með að kosta 3,4 milljarða íslenskra króna. Það er reyndar íslensk kostnaðaráætlun og þær eru álíka marktækar og bókhaldið hjá Juventus.
Verk á borð við þetta fer alltaf lágmark tvö ár fram úr verkáætlun og slíkar tafir - fyrir utan pólitíska vafninga og annan séríslenskan hálfvitagang - ættu að gera það að verkum að þessar 4600 milljónir sem Arenas er sagður eiga inni gætu fyllt nokkuð vel upp í framkvæmdina.
Ef okkur vantar 100-200 milljónir upp á, gæti Arenas að sjálfssögðu selt eitthvað af dótinu sem hann er hættur að nota. Til dæmis súrefnisklefann sem hann svaf í á nóttinni þegar hann var að ná sér af meiðslunum - nú eða hvítu krókódílana sem hann er alveg örugglega með í bakgarðinum hjá sér.
Þetta er win win krakkar. Bara að koma SDG og Arenas saman á Skype og negla þetta.
Það var ekkert.
Efnisflokkar:
Fjármálamarkaðir
,
Gilbert Arenas
,
Mennt er máttur
,
Stjórnmál
,
Vel Gert
Saturday, November 23, 2013
Tvífarar vikunnar
Traustur og rokkþenkjandi lesandi NBA Ísland sendi okkur ábendingu um tvífara vikunnar að þessu sinni. Þetta er of gott til að sleppa því. Hér er auðvitað aðeins verið að vitna í að mennirnir séu keimlíkir útlitslega, enda dettur engum í hug að kenna ágætan þjálfara ÍR-inga við kirkjubrennur og þeim mun verri ósiði.
Efnisflokkar:
Doppelgangers
Thursday, November 21, 2013
Garðabær virðist sterkari en Breiðholt í körfubolta
Það er útlit fyrir að þetta verði langur vetur hjá ÍR-ingunum. Þeir áttu aldrei möguleika í Ásgarðinum í kvöld þar sem þeir steinlágu 89-61. ÍR hefur aðeins náð að vinna Val og Skallagrím í deildinni, sem er hið besta mál út af fyrir sig, en virðist ekki eiga erindi í sterkari lið í bili.
Lið Stjörnunnar er búið að taka dálítið jójó undanfarið en það hefur kannski eitthvað með það að gera hvað liðin í deildinni eru missterk. Stjarnan skíttapaði fyrir Grindavík með 20 stigum um daginn, en beitir svo ÍR svipuðum fantabrögðum í kvöld og vinnur risasigur. Mikill munur á þessum þremur liðum.
Við erum enn að reyna að reikna hvar Stjarnan á að fá 30 stigin sem hurfu á braut með þeim Jovan Zdravevski og Brian Mills. Vorum búin að ákveða að Marvin Valdimarsson fengi megnið af þeim, að minnsta kosti fleiri skot. Marvin er allt of kurteis og þarf að reyna að vekja sinn innri J.R. Smith.
Hey! Myndir.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
ÍR
,
Marvin Valdimarsson
,
Stjarnan
Subscribe to:
Posts (Atom)