Sunday, November 24, 2013

Berst Háskólanum aðstoð úr óvæntri átt?


Munið þið eftir Gilbert Arenas? Ef ekki, er hann leikmaður sem spilaði einu sinni í NBA deildinni en átti það leiðinlega oft til að meiðast. Það kom þó ekki í veg fyrir að menn (Washington, Orlando) væru til í að borga honum fullt af peningum.

Arenas blessaður er þannig þriðji launahæsti körfuboltamaður í heimi í ár samkvæmt uppgefnum tölum, þó hann hafi ekki spilað í NBA deildinni í nokkur misseri. Tæknilega á Orlando að punga út rúmum 2,7 milljörðum króna handa honum í vetur, en sagt er að félagið hafi nýtt sér klásúlur í kjarasamningum til að draga þessar greiðslur eitthvað aðeins á langinn, eða út árið 2016.

Það breytir því ekki að Arenas á enn inni mjög góða summu. Fregnir herma að þessi summa hlaupi á rúmum fjórum og hálfum milljarði króna.

Og eins og við hérna á NBA Ísland gerum gjarnan, þótti okkur upplagt að leggja til hvað hægt væri að gera fyrir alla þessa peninga annað en að borga manni þá sem mætir ekki einu sinni í vinnuna.

Þeir segja að Hús íslenskra fræða komi til með að kosta 3,4 milljarða íslenskra króna. Það er reyndar íslensk kostnaðaráætlun og þær eru álíka marktækar og bókhaldið hjá Juventus.

Verk á borð við þetta fer alltaf lágmark tvö ár fram úr verkáætlun og slíkar tafir - fyrir utan pólitíska vafninga og annan séríslenskan hálfvitagang - ættu að gera það að verkum að þessar 4600 milljónir sem Arenas er sagður eiga inni gætu fyllt nokkuð vel upp í framkvæmdina.

Ef okkur vantar 100-200 milljónir upp á, gæti Arenas að sjálfssögðu selt eitthvað af dótinu sem hann er hættur að nota. Til dæmis súrefnisklefann sem hann svaf í á nóttinni þegar hann var að ná sér af meiðslunum - nú eða hvítu krókódílana sem hann er alveg örugglega með í bakgarðinum hjá sér.

Þetta er win win krakkar. Bara að koma SDG og Arenas saman á Skype og negla þetta.

Það var ekkert.