Sunday, November 24, 2013

Snemmbúið stöðutékk


Það er dálítið snemmt að taka vörutalningu þegar liðin eru ekki búin að spila nema 12-14 leiki, en við vitum að ykkur leikur alltaf forvitni á að vita hvað ritstjórn NBA Ísland finnst um gang mála. Við drulluðum líka á okkur með að hita upp fyrir tímabilið með pistli, en við þökkum reyndar Guði fyrir að ekkert hafi orðið af því - allar spár væru strax komnar í klessu.

Helsta ástæðan fyrir því að við ráðumst fram á ritvöllinn svona snemma að þessu sinni er í rauninni kunnugleg. Við gátum ekki stillt okkur um að segja nana-nana-bú-bú á Austurdeildina, sem um þessar mundir er svo léleg að næsta skref er að fara að sekta þessi lið fyrir að vera svona mikið drasl.

Jú, við erum með tvö hörkulið í Austurdeildinni - liðin sem mættust í úrslitaeinvíginu í austrinu í vor - Miami og Indiana. En þar með er það því miður upp talið. Grínlaust.

Aðeins eitt lið hefur/hafði burði til að stríða Miani og Indiana og það var Chicago, en það hljóta allir að sjá að þó að Chicago verði alltaf erfitt við að eiga, á það enga möguleika gegn bestu liðinum tveimur í austrinu meðan Derrick Rose er á bráðamóttökunni.

Meistararnir í Miami og ungu mennirnir í Indiana eiga eftir að slást um efsta sætið í austrinu í allan vetur í von um að ná heimavallarréttinum góða í vor.

En er Austurdeildin þá bara tvö góð lið og eitt sæmilegt? Hvað varð um þessi svokölluðu stórlið þarna í New York? Áttu þau ekki að vera í bullandi séns í vetur?' Er Atlanta að fara að gera eitthvað?

Og hvað með öll liðin sem áttu að verða Spútniklið vetrarins - lið eins og Washington, Detroit, Orlando og Cleveland?

Við þurfum ekki að hafa mörg orð um þetta. Það segir sína sögu að liðin í 7. og 8. sæti Austurdeildarinnar í dag, sætu í 14. og 15. sæti ef þau léku í Vesturdeildinni. Hugsið ykkur.

Áðurnefnd Spútniklið í Austurdeildinni geta bara ekki neitt enn sem komið er og auðvitað er öllum enn skítsama um Atlanta!

New York-liðin er gjörsamlega með allt lóðrétt niður um sig, þó meiðsladraugurinn sé reyndar búinn að vera  með hnefann í ristlinum á þeim báðum - sérstaklega í Júragarðinum í Brooklyn.

Það er kómískt að horfa á þessa stöðutöflu hérna fyrir ofan. Fáránlegt að hugsa til þess að Toronto væri með heimavallarrétt ef úrslitakeppnin hæfist í dag og Charlotte, Philadelphia og Washington tækju síðustu þrjú sætin. Eðlilegt.

Svo er skondið að horfa á liðin sem kæmust ekki í úrslitakeppnina, en það eru mikið til liðin sem ráðið hafa ríkjum í austrinu undanfarinn áratug; Boston, Orlando, Cleveland og Detroit.

Nei, nú skulum við drífa okkur vestur á bóginn áður en við drepumst úr leiðindum.

Vesturdeildin er eitt stórt og standandi partý eins og hún hefur verið síðustu ár. Kjarnorkuknúið silfurlið San Antonio bara ætlar ekki að játa sig sigrað og byrjar 12-1. Þetta lið er svo mikið rugl. Gerir bara lítið úr andstæðingunum.

Portland er að Spútnikka dálítið með tíu sigra í röð og er á toppnum með Spurs, en svo kemur nánast restin af Vesturdeildinni í einum haug með þetta 50-60% vinningshlutfall. Aðeins fjóshaugarnir Kings og Jazz eru í ruglinu vestan megin, öll hin liðin fara frá því að vera virðingarverð (meira að segja Suns er enn 50%) upp í að vera ofur.


Þó flest liðin í Vesturdeildinni séu þokkalega sterk, eru þau flest með einhverja áberandi galla líka og það verður fróðlegt að sjá hvernig þau náð að vinna í því í vetur.

Eins og við sögðum er þetta auðvitað bara rétt að byrja og því ekki tímabært að fara djúpt í hlutina. Hérna eru samt nokkrir punktar sem vekja athygli okkar í Vesturdeildinni eftir fyrstu vikurnar:

* Við áttum alls ekki von á því að Spurs kæmi svona sterkt til leiks í haust eftir eitt viðbjóðslegasta niðurbrotstap sem sögur fara af í lokaúrslitunum í sumar.

Við erum hætt að nenna að fabúlera um þetta lið. Það bara vinnur og vinnur og vinnur og vinnur og whaddafuck!

* Oklahoma er ekki búið að ná fullum styrk af því að Russell Westbrook er ekki búinn að ná fullum styrk. Kevin Durant heldur bara áfram að verða betri og Serge Ibaka má eiga það að hann er líka að bæta sig.

Oklahoma er hinsvegar ekki jafn sterkt lið og í fyrra - og liðið í fyrra var ekki jafn sterkt og árið þar á undan. Þið fattið hvert við erum að fara.

* Doc Rivers hefur engan veginn náð að fá Clippers til að spila vörn og þó þetta lið geti litið svooo vel út á köflum, getur það líka litið illa út, þó þeir Chris Paul og Blake Griffin séu að spila af sér anusinn og DeAndre Jordan sé farinn að frákasta eins og maður.

* Monta Ellis er að spila vel fyrir Dallas og það kemur okkur í opna skjöldu. Maðurinn hlýtur að fara að sýna sitt rétta andlit. Eins er það enn sem komið er að ganga upp fyrir liðið að hafa Samuel Dalembert í miðjunni - og það er jafnvel enn fáránlegra.

Það þýðir samt ekkert að afskrifa lið með þennan þjálfara og heilan Dirk. Það er uppskrift að nokkrum sigrum.

* Houston... Dwight Howard.... *hristum höfuðið*

* Golden State er asnalega skemmtilegt lið og gott í þokkabót. Ávísun á flugeldasýningar og netbrennur á hverju kvöldi. Ef þetta lið drullast til að haldast heilt og bætir við sig 1-2 góðum bitum, getur það farið að sækjast eftir aðalhlutverkum.

* Úlfarnir eru dásamlegir líka. Ástþór er að setja upp brjálaðar tölur. Vonandi verður þetta ár Úlfanna. Þeir eiga það inni.

* Memphis stendur við þröskuldinn og horfir inn í veisluna - hefur ekki efni á aðgöngumiðanum. Sorglegt sitúasjón.

* Og Brúnar! Vá, hvað drengurinn er að brjóta sér leið inn í elítuna núna. Er orðin algjör pest í vörninni og skilar einhverju á öllum vígstöðvum. Það verður svakalegt að fylgjast með honum á næstunni, þó Dílaskarfarnir hans séu enn sem komið er að valda vonbrigðum.