Thursday, November 28, 2013
Liðin í Austurdeildinni kunna fæst körfubolta
Sextán lið komast í úrslitakeppni NBA deildarinnar á vorin - átta úr Austurdeild og átta úr Vesturdeild. Flestir átta sig á þessu. Undanfarin ár hefur hinsvegar komið upp umræða um að breyta þessu, af því deildirnar hafa verið vægast sagt ójafnar. En aldrei eins og nú.
Vesturdeildin er búin að vera umtalsvert betri en Austurdeildin í nokkur ár. Vesturdeildin er enn mjög sterk, en Austurdeildin er sögulega léleg. Við höfum fylgst með NBA boltanum síðan á níunda áratugnum, en við höfum aldrei nokkru sinni séð annan eins brandara og nú er að eiga sér stað í austrinu.
Þegar þetta er skrifað eru liðin í deildinni búin að spila öðru hvoru megin við fimmtán leiki og þó það sé kannski ekki mikið á 82 leikja tímabili, er það marktækur leikjafjöldi til að draga minniháttar ályktanir um stöðu mála.
Aðeins tvö af fimmtán liðunum í Austurdeildinni eru að skila yfir 50% vinningshlutfalli.
Tvö. Lið.
Þetta hlýtur að vera heimsmet - þetta á ekki að vera hægt!
Ef við myndum stokka þetta upp og breyta reglunum á þann veg að þau sextán lið sem kláruðu deildakeppnina með besta vinningshlutfallið myndu fara í úrslitakeppnina - óháð allri landafræði - kemur í ljós að tólf af þessum sextán liðum kæmu úr Vesturdeildinni. Þetta er með ólíkindum.
Indiana (14-1) og Miami (12-3) eru mjög sterk lið og eru líka við toppinn í deildinni, en Chicago (7-7) og Atlanta (8-8) eru aðeins miðlungslið (Chicago án Derrick Rose) sem eru ekki að fara að gera neitt í úrslitakeppninni.
Þetta er hreint út sagt átakanlegt hjá austanmönnum. Grátlegt.
Hugsið ykkur bara að ef úrslitakeppnin hæfist í dag, myndi Detroit rúlla inn í úrslitakeppni Austurdeildarinnar með 40% vinningshlutfall, meðan þrjú lið með 50% eða betra vinningshlutfall í vestrinu þyrftu að sitja heima. Það er lítil sanngirni í því.
Þetta á allt eftir að jafna sig út og það eru rökin sem NBA deildin beitir þegar menn eru að tuða yfir því hvað deildirnar eru ójafnar í dag. Það getur vel verið að Austurdeildin verði orðin betri en Vesturdeildin eftir nokkur ár - en við skegg Óðins - ekki svona mikið betri.
Efnisflokkar:
Austurdeildin
,
Drullan upp á herðar
,
Vesturdeildin