Sunday, November 24, 2013

Á 20 ára afmæli Hundaláta


Þessi epíski gripur kom út fyrir nákvæmlega 20 árum síðan. Árið áður, eða 1992, hafði Snoop Doggy Dogg (Heyrðu Snöggvast Snati Minn) getið sér gott orð sem rappari þegar hann tók þátt í plötunni Innansveitarkróniku með Dre lækni, sem er ekki síður söguleg og fastrituð í annála hip hop tónlistarinnar.

Þó að Snati hafi verið orðinn þekktur í Bandaríkjunum eftir Króníkuplötu Doktorsins, var hann ekki eins þekktur hér heima á klakanum. Fréttirnar af því að þessi Snoop væri búinn að gefa út plötu breiddust enn hraðar út þegar til stóð að kappinn færi jafnvel í fangelsi fyrir aðild sína að morðmáli.

Hver var þessi gangsterrapari sem átti yfir höfði sér fangelsisdóm?

Okkur þykir gaman að rifja þetta upp, því gott ef Snoop er ekki einn síðasti tónlistarmaðurinn sem gat talist goðsögn, af því innkoma hans í rappið var hulin mistíkinni sem einkenndi tímana fyrir innkomu internetsins.

Þá var ekkert TMZ, bara goðsagnir munn frá munni, mann frá manni, ef svo má segja.

Við þurfum ekki að hafa mörg orð um gæði þessarar skífu, en á henni er varla veikan blett að finna. Doktorinn heldur í hendina á skjólstæðingi sínum í gegn um plötuna og tekst einstaklega vel til. Snoop (og Doktorinn) kom með nýja gerð af glæparappi. Orti ekki bara um gengi og skotvopn eins og þeir sem á undan komu, en þeim mun meira um áfengi, eiturlyf og meint ágæti sitt í samskiptum við hitt kynið.

Það er alveg sama hvenær við smellum Hundalátum á fóninn, alltaf er hún jafn góð og alltaf fyllir hún okkur fortíðarþrá - meira en flestar plötur. Við máttum því til með að minnast hennar í örfáum orðum. Það má vel vera að Snati sé í tómu rugli í dag (og vilji t.d. láta kalla sig (L)Jón) en frumraun hans mun alltaf koma okkur í gott skap. Því ekki að schmella henni undir nálina núna? Við ætlum að gera það.

Lodi, dodi...