Saturday, March 31, 2012

Hágæðastríð í Ásgarði





































Það er orðið dálítið langt síðan Stjarnan tók 1-0 forystu í einvíginu við Keflavík í fyrstu umferð úrslitakeppni Iceland Express deildar karla, en hér var á ferðinni yndislegur körfuboltaleikur sem á skilið að fá smá umfjöllun þó hún komi allt of seint.

Ef þessi fyrsti leikur liðanna í fyrstu umferð gefur einhverja mynd af því hvernig sjálft lokaúrslitaeinvígið verður í næsta mánuði, er rétt að áhorfendur mæti með hjálma og slökkvitæki í þá rimmu. Bæði lið voru heldur betur tilbúinn í stríð og það sýndi sig frá fyrstu mínútu. Við sem mættum á leikinn fengum ekki aðeins frábæran körfubolta, heldur líka átök sem hefðu sómað sér sem endir á hvaða Die Hard mynd sem er. Stórkostleg skemmtun.

Nokkrir punktar um leikinn:

Valur Valsson hjá Keflavík var þarna að mæta í sinn fyrsta alvöru leik í úrslitakeppni þar sem hann er í stóru hlutverki.

Pilturinn átti ekki fullkominn leik, en að sjá þennan unga snáða mæta í þessa frumraun og byrja á því að smella tveimur þristum var hreint frábær sjón. Þessi drengur kippir svo sannarlega í kynið og það verður unun að fylgjast með honum vaxa sem leikmaður í framtíðinni.

Marvin Valdimarsson var maður leiksins í okkar augum. Skilaði fullt af stigum, nýtti skotin sín vel og spilaði frábæran varnarleik þar sem hann elti Magnús Þór Gunnarsson um allan völl. Marvin gaf Magnúsi nokkur ódýr vítaskot eftir að hafa brotið á honum í langskoti, en þess utan var hann frábær.

Justin Shouse skilaði 16 stoðsendingum og Stjarnan bara tapar ekki þegar svo er.

Jovan Zdravevski setti nokkra risavaxna þrista í síðari hálfleik og átti stóran þátt í að Stjarnan náði að taka fram úr og sigra.

Keith Cothran nýtti skotin sín vel en hann heldur áfram að fara í taugarnar á okkur með það hvað hann er stundum tannlaus í sóknarleiknum. Hann fékk t.a.m. nokkur dauðafæri til að keyra á körfuna þegar hann var dekkaður af Magnúsi Gunnarssyni (sem var í villuvandræðum og hefur ekki hraða í að dekka hann) og einum af stóru strákunum hjá Keflavík, en gerði það ekki.

Cothran átti þó tvímælalaust tilþrif leiksins sem við sjáum hér fyrir neðan. Fagnaðarlæti þjálfara hans Teits Örlygssonar eru besta dæmi sem við getum sýnt ykkur til að rökstyðja af hverju við elskum körfubolta. Teitur étur og sefur körfubolta eins og við. Algjör fag- og toppmaður.



Það fer ákaflega í taugarnar á okkur hvað Jarryd Cole fær litla þjónustu undir körfunni hjá Keflavík. Það var mikið talað um það fyrir þetta einvígi að Stjarnan hefði yfirburði í teignum, en þegar Cole fór af stað, réðu Stjörnumenn ekkert við hann frekar en aðrir varnarmenn hér á landi. Cole er dýrslegur leikmaður og er í miklu uppáhaldi hjá okkur.

Leikur tvö í Keflavík verður skemmtun upp á fullt hús og rétt að hvetja alla sem hafa tök á því að mæta suður eftir. Það er algjör synd að annað þessara liða þurfi að sitja eftir í úrslitakeppninni. Við myndum gjarnan vilja sjá þau bæði fara alla leið ef því væri að skipta.

Það er mikill munur á þessum liðum. Stjarnan er með miklu meiri breidd og er með mikla yfirburði í leikstjórnandastöðunni, en það var aðdáunarvert að sjá baráttu Keflvíkinga í þessum leik. Planið þeirra var ekki langt frá því að ganga upp en það var eins og liðið hefði bara ekki nógu mörg vopn til að klára þetta í lokin meðan heimamenn fengu risakörfur frá hverjum manninum á fætur öðrum.

Þetta verður algjör veisla þetta einvígi.

Friday, March 30, 2012

Út/Hlaðvarp um úrslitakeppnina



Í þættinum Boltanum á X-inu 97.7 í morgun var allt rætt sem ræða þurfti um úrslitakeppni karla í Iceland Express deildinni.

Henry Birgir Gunnarsson og Eiríkur Stefán Ásgeirsson tóku þá á móti Jóni Birni Ólafssyni og Baldri Beck og lokuðu einfaldlega málinu.

Slógu líka á létta strengi inn á milli.

 Smelltu hér til að gæða þér á þessu.

Tuesday, March 27, 2012

Hugvekja um Kobe Bryant og LA Lakers


Sagt er að NBA leikmenn fari undantekningalaust að dala þegar þeir fara yfir þúsund leikja markið.

Kobe Bryant hefur spilað yfir 1150 leiki þrátt fyrir að vera aðeins 33 ára gamall. Hann er á sínu sextánda ári í deildinni, en hann kom inn í NBA aðeins átján ára eins og menn muna.

Önnur kenning er til sem segir að það sé gjörsamlega skothelt að leikmaður sem hefur náð 40.000 mínútum fari að dala mjög hratt eftir að þeim áfanga er náð.

Það ýtir óneitanlega undir þessa kenningu, að enginn 40.000 mínútna maður í sögunni hefur farið fyrir liði í undanúrslit NBA deildarinnar - hvað þá í lokaúrslit.

Kobe Bryant er búinn að spila yfir 42.000 mínútur og rauf áðurnefndan 40.000 múr því á síðustu leiktíð. Þrátt fyrir að margir hefðu spáð liði hans meistaratign í fyrra, þurfti Lakers-liðið að sætta sig við að vera sópað út úr annari umferð úrslitakeppninnar af liðinu sem síðar stóð uppi sem sigurvegari, Dallas Mavericks.

Kobe Bryant er stigahæsti leikmaður deildarinnar um þessar mundir með yfir 28 stig að meðaltali í leik. Það er auðvitað vel af sér vikið hjá honum, en önnur tölfræði vekur meiri áhuga hjá okkur í ljósi ofangreindra staðreynda.

Kobe Bryant er í fjórða sæti yfir flestar mínútur spilaðar að meðaltali í leik í NBA og það sem meira er, er hann í öðru sæti í heildarmínútum spiluðum á eftir Kevin Durant (sem er tíu árum yngri en Bryant).

Þetta er gjörsamlega glórulaust.

Við forðumst að setja okkur á of háan hest hérna á ritstjórninni, af við höfum ekki efni á því.

En það hlýtur hvert mannsbarn að sjá að þessi keyrsla á Kobe Bryant getur ekki verið af hinu góða.

Okkur er til efs að nokkur leikmaður hafi spilað undir meira álagi en Bryant undanfarinn áratug í NBA, ekki síst síðustu fjögur árin.

Bryant er auðvitað gríðarlegur keppnismaður. Svo mikill að það jaðrar við geðveiki. Skapgerðarbrestir af þessum toga eru nauðsynlegir þegar menn eru að safna meistaratitlum og gera tilkall til þess að teljast topp tíu leikmaður í sögunni.

En það verður einhver að hafa vit fyrir honum og félaginu. Jú, það hefur ekki beinlínis verið breidd hjá Lakers í vetur eftir skrítið sumar og óljósa stefnu í leikmannamálum - og fyrir vikið hefur ef til vill mætt meira á Kobe en til stóð.

En þarf Kobe Bryant virkilega að spila 39 mínútur í leik í deildakeppninni, 33 ára að aldri?

Stundum áttaði fólk sig ekki á því hvað Phil Jackson var að gera með Lakers-liðið, en þessi stefna sem hefur verið á liðinu í vetur er kapítuli út af fyrir sig.

Eins og nánast alltaf, er Kobe að skjóta allt of mikið, en nú er hann líka að spila allt of mikið. Hátt í fimm mínútum meira að meðaltali í leik en í fyrra og það er ekki eins og hann hafi verið heill heilsu í allan vetur. Fyrst með fingurinn í spelku og svo með grímu á andlitinu, svo eitthvað sé nefnt.

Þá er Bryant að bjóða upp á slökustu skotnýtingu sína á ferlinum síðan Michael Jordan spilaði með Chicago Bulls (38%), afleita þriggja stiga nýtingu ( 29% - þá verstu í tíu ár) og flesta tapaða bolta síðan 2005. Þessi atriði eru ekki beint að afsanna 1000 leikja og 40.000 mínútna kenningarnar.

Mike Brown er enn að finn út hvað hann ætlar að gera með þetta Lakers-lið og hann er nýbúinn að fá nýjan leikstjórnanda, svo þær improviseríngar munu líklega halda áfram til vorsins.

Brown var þekktur fyrir einhæfan og fyrirsjáanlegan sóknarleik þegar hann þjálfaði Cleveland, en þó hann hafi fleiri vopn á hendi með Lakers eru æði margir að verða gramir yfir því hvað hann er óduglegur við að nota stóru mennina sína Pau Gasol og Andrew Bynum.

Hey, af hverju að nota þá? Þeir eru ekki nema langbesta 4-5 parið í deildinni.

Samt horfum við á heilu leikina renna út í sandinn hjá Lakers þar sem Kobe Bryant dælir upp skotum eins og vélbyssa fyrir utan meðan stóru mennirnir ranghvolfa augunum og skokka milli teiga.

Menn eru ekki á eitt sáttir um það hvort þessi vitleysa er Mike Brown eða Kobe Bryant að kenna, en það er líklega aukaatriði. Á meðan Kobe Bryant tekur allt of mörg skot og spilar allt of margar mínútur, þarf enginn að hafa of miklar áhyggjur af Lakers í vetur. Það er okkar einlæga skoðun.

Flest lið í deildinni eru drulluhrædd við Lakers þó liðið hafi fengið skell í úrslitakeppninni í fyrra. Lakers getur nefnilega unnið öll lið í deildinni þegar liðið er rétt stillt - og það sem meira er - unnið auðveldlega. Hæðin á framlínu liðsins og grimmd Kobe Bryant eru enn eitruð blanda.

Það er stórvarasamt að veðja á móti sterkum og reyndum liðum eins og Lakers sem hafa séð þetta allt saman, en við ætlum að gera það að þessu sinni. Okkur geðjast einfaldlega ekki að stefnu liðsins í vetur.

Vonandi á Kobe Bryant eftir að drulla yfir allar þessar óskráðu reglur sem við töldum upp í byrjun pistilsins, en sagan og skynsemin segir okkur einfaldlega annað.

Drew Gooden og sveiflur í lífi hans tengdar körfubolta


Miami fær orkuskot


Marcus Camby kastar körfubolta yfir körfuboltavöll


Nokkrir molar um 30/20 leiki


Þið sem á annað borð lesið NBA Ísland vitið hvað ritstjórnin er gefin fyrir skemmtilega tölfræði.

Atmennið Kevin Love hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu enda er hann að bjóða upp á tölfræði sem er fyllilega á pari við það sem duglegustu menn voru að gera fyrir um 30 árum síðan.

Og það er hrós.

Tölfræði á borð við þá sem okkur þykir sjálfssögð í dag hefur ekki verið haldin almennilega síðan árið 1985. Því er ekki fyllilega marktækt að slá upp svona töflum, en það er óskaplega skemmtilegt.

Hér til hliðar er tafla yfir þá leikmenn sem oftast hafa boðið upp á 30 stig og 20 fráköst í einum og sama leiknum.

Þarna kemur bersýnilega í ljós að það sem Kevin Love er að gera um þessar mundir er hreint ótrúlegt.

Love er aðeins á sínu fjórða ári í deildinni, en hvað varðar 30/20 leiki hefur hann þegar skotið mörgum Heiðurshallarmeðlimum ref fyrir rass. Mönnum eins og David Robinson, Karl Malone og Tim Duncan, svo einhverjir séu nefndir.

Þó þetta sé vissulega skuggalegur árangur hjá Love, á hann enn óralangt í fyrirbærið Charles Barkley sem náði þessum áfanga hvorki meira né minna en 20 sinnum á ferlinum. Það er bara ein af átta þúsund ástæðum fyrir því að við og svo margir fleiri elska Charles Barkley.

Hér fyrir neðan er yfirlit yfir 30/20 leikina hans Barkley (smelltu á myndina til að stækka hana). Taktu eftir því að í þrígang er hann hársbreidd frá því að bæta við 10 stoðsendingum (9,9,8) og breyta tröllatvennunni í ofurþrennu. Í einum leiknum (16.) bætir þessi töffari svo við 7 vörðum skotum (og 7 töpuðum boltum) til gamans. Svona mannlegar grjótskriður eins og Barkley koma ekki fram nema einu sinni á öld. Þvílíkt eintak.


Það er þó hætt við því að Wilt heitinn Chamberlain myndi fussa og sveia yfir þessum tölum, því hann gjörsamlega stútaði allri þessari tölfræði og miklu meira en það.

Nægir að nefna að leiktíðina 1961-62 var Chamberlain með SJÖTÍU 30/20 leiki.  Þá þótti ekkert tiltökumál að hann tæki 40-50 skot í leik og átti meðal annars 38 frákasta leik. Það var algjör undantekning ef hann hirti undir 20 fráköst í leik það tímabil eins og reyndar mörg önnur.

Að lokum hendum við inn mynd af þremur gullfallegum körfuboltamönnum sem allir náðu á einhvern óskiljanlegan hátt að slysast í 30/20 leik á ferlinum. Getur þú sagt okkur hvað þessir heiðursmenn heita án þess að svindla? Sendu svarið á nbaisland@gmail.com ef þú ert með þetta.

Freudian slip dagsins




Monday, March 26, 2012

John Stockton er fimmtugur í dag


John Stockton er uppáhalds leikstjórnandinn okkar fyrr og síðar. Eitthvað segir okkur að verði ekki stripparar í afmælisveislunni hans, ef hann heldur þá upp á daginn. Kannski stingur hann bara af með konunni og krökkunum. Það væri eftir öðru. Til hamningju, gamli. Og nei, það er enginn að slá metin þín. Ekki á meðan við lifum.

Staðan í NBA frá Stjörnuleik


Okkur barst þetta skemmtilega skjal sem sýnir hve misjafnlega liðum hefur gengið frá því um Stjörnuhelgina.  Þarna má sjá að lið eins og Phoenix, Boston og Utah hafa verið á fínu róli á þessum tíma, meðan lið eins og Portland, LA Clippers og Dallas hafa verið í erfiðleikum. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Saturday, March 24, 2012

Ástþór fer mikinn í marsmánuði


Andre Miller missir ekki af mörgum körfuboltaleikjum


Andre Miller missti úr sinn fjórða leik á ferlinum á dögunum vegna axlarmeiðsla, en hann kom inn í deildina leiktíðina 1999-2000. Það þykja því tíðindi þegar hann missir úr leik.

Miller er harður og lætur ekki smá meiðsli hafa áhrif á sig. Menn geta auðvitað verið naglar en það hefur ekkert að segja ef menn eru einfaldlega óheppnir. Það að sleppa við meiðsli líkt og Miller hefur gert er blanda af genetík, því að passa vel upp á sig og heppni.

Miller hefur að minnsta kosti tvennt af þessu. Alltaf verið rosalega solid leikstjórnandi þó hann sé með undirhöku og virki stundum þéttur. Veit hvert á að koma körfuboltanum og hvenær. Toppmaður.

Friday, March 23, 2012

Nýtt hlaðvarp: Upphitun fyrir úrslitakeppnina


Þriðji þáttur Hlaðvarpsins fræga er kominn inn á NBA Ísland með tæknilegri aðstoð Finns Gunnarssonar, en án hans færi þetta aldrei í loftið.

Smelltu á flipann efst á síðunni eða hér til að komast í góðgætið.

NBA Ísland tók hús á Jóni Birni ritstjóra karfan.is og fékk hann til að spá í spilin fyrir komandi úrslitakeppni í Iceland Express deildum karla og kvenna.

Hann Nonni er höfðingi heim að sækja og fáir sjá fleiri leiki en hann, svo hann hefur frá mörgu skemmtilegu að segja.

Wednesday, March 21, 2012

Jamaal Tinsley klobbar og setur flotskot


Það eru ekki mörg lið í NBA með þriðja leikstjórnanda með svona mikið svægi.

Sunday, March 18, 2012

Griffin er lofthræddur þegar hann spilar körfubolta


Veðrið þarna uppi


Til hamingju með daginn, Scal (34)


Þeir spila körfubolta í nýjum búningum


































Gallo heldur að hann sé Larry Bird


Það er stundum dálítið gaman að fylgjast með Danilo Gallinari spila körfubolta. Vissi raunar ekki að hann ætti það til að gefa svona fallegar sendingar. Hér fyrir neðan eru tvö sýnishorn úr sömu vikunni.



Goðsagnir


Monta Ellis ætlar að byrja vel hjá Bucks


Przybilla ætlar að hitta Boozer á næsta balli


Tyson Chandler misnotar ekki mörg skot


Ef deildakeppninni lyki í dag myndi miðherjinn Tyson Chandler hjá New York rita nafn sitt í sögubækurnar fyrir að vera með næstbestu skotnýtingu í sögu NBA deildarinnar.

Chandler hefur lítið gert annað en að grípa sendingar og troða þeim viðstöðulaust hjá Knicks í vetur og er sem stendur með 69,6% skotnýtingu, nánast sömu nýtingu upp á prósentustig og hann er með af vítalínunni.

Það er að sjálfssögðu Wilt Chamberlain heitinn sem á metið yfir bestu nýtinguna á tímabili í NBA.  Hann skaut (tróð) 72,7% með Lakers á lokaárinu sínu í deildinni árið 1973 og er eini maðurinn sem hefur rofið 70% múrinn.

Wilt á líka næstbesta árangurinn í skotnýtingu í sögunni, en það var 68,3% nýting hans með Sixers árið 1967.

Á þessu má sjá að Chandler á ágæta möguleika á að komast á blað með Chamberlain í metabókunum, þó hann eigi trúlega erfitt með að slá metið. Það er ekki auðvelt að slá metin hans Wilt.

Það er líka skondið að líta yfir tölfræðina hans Tyson Chandler á ferlinum. Það væri gaman að fletta því upp hvort einhver leikmaður í sögu deildarinnar hafi verið með jafn óstöðuga skotnýtingu og hann.
Á meðan útlit er fyrir að Chandler muni nú skjóta yfir 60% utan af velli í fjórða sinn á ferlinum í vetur, hefur hann líka afrekað að skjóta þrisvar undir 50%. Þar af einu sinni aðeins 42,4% með Chicago Bulls. Það hlýtur því að verða NBA met yfir... "skotsveiflur" ef Chandler verður um 70% þegar upp verður staðið í vor.

Stríðsmennirnir skjóta körfuboltum


Friday, March 16, 2012

Óákvarðanir


Án þess að nenna því, tróð Durant yfir Harrington


Peković á sinn þátt í framförum Úlfanna


Kunnugir segja okkur að Svartfellingurinn Nikola Peković hafi ekki verið neinn sekkur þegar hann spilaði í Evrópu áður en Minnesota krækti í hann í annari umferð nýliðavalsins árið 2008. Flestir hölluðust að því að Peković færi á topp 10, en samningastaða hans hjá Panathinaikos gerði það að verkum að hann fór ekki fyrr en 31. í valinu.

Skipti Peković yfir í NBA deildina reyndust honum erfið og sérstaklega átti hann erfitt með að halda sér inni á vellinum á nýliðaárinu sínu. Þar leiddi hann deildina í vafasömum flokki, eða flestum villum per 48 mínútur.

Rick Adelman, nýráðinn þjálfari Minnesota, hefur lýst því yfir í viðtölum að það hafi ekki verið sér ofarlega í huga að láta Peković spila í upphafi leiktíðar, þegar sá stóri sat oftast límdur við bekkinn. Hann spilaði þannig ekki nema fjórar mínútur í fyrstu ellefu leikjum Úlfanna á leiktíðinni.

Þegar Peković fékk svo loksins tækifæri nýtti hann það til fullnustu. Það hefur verið frábært að fylgjast með honum í vetur og ekkert því til fyrirstöðu að hann geti orðið einn af betri miðherjum deildarinnar. Eins og flestir vita hefur ekki beinlínis verið offramboð af alvöru miðherjum í NBA síðustu ár og því eru lurkar eins og hinn 26 ára gamli Peković þyngdar sinnar virði í gulli.

Það er gaman að geta þess að samkvæmt tölfræðinni er Peković öflugasti sóknarfrákastari NBA deildarinnar og það þrátt fyrir að spila við hliðina á frákastavélinni Kevin Love. Hann hefur þannig rifið niður hvorki meira né minna en 18% af þeim sóknarfráköstum sem í boði hafa verið, sem er gjörsamlega ótrúleg tölfræði.

Það er  nokkuð víst að Peković á eftir að fá einhver atkvæði þegar kemur að því að velja framfarakóng NBA deildarinnar í vetur. Rick Adelman þjálfari á líklega mestan heiður af því að koma liðinu úr kjallaranum og í baráttu um sæti í úrslitakeppni, en framganga Peković hefur líka haft sitt að segja í bættu gengi liðsins. Innkoma hans, stjörnuleikur Kevin Love og svo auðvitað innkoma Ricky Rubio eru þannig helstu ástæður þess að Minnesota hefur á nokkrum mánuðum farið frá því að vera eitt sorglegasta félagið í NBA yfir í það að vera eitt mest spennandi.

Insider: Áform New Jersey Nets


Wednesday, March 14, 2012

Dwight á góðri stund með almannatenglinum sínum


Epík


Margir þekkja eflaust goðsögnina sem kemur fyrir í þessum gamla grínskets.

Monday, March 12, 2012

Hvar fékk Rondo gleraugun?


Fjölskyldumynd dagsins



Faðirinn í þessari skemmtilegu fjölskyldu spilaði einu sinni í NBA deildinni, en gerir það ekki lengur.

Hann afrekaði það einn veturinn að leiða deildina í vörðum skotum og er eini Evrópubúinn sem hefur gert það.

Hann er líka eini minni framherjinn sem hefur varið flest skot í NBA - hinir voru flestir fimmur, nokkrir þeirra fjarkar, einn þristur.

Andrei Kirilenko heitir pilturinn.

Rod Strickland


Mullin Mars


Tvífarar dagsins


Sunday, March 11, 2012

Viðstöðulaus vindmylla hjá Green


Gerald Green hefur aldrei verið í vandræðum með að lyfta sér. Þetta eru rosaleg tilþrif hjá honum og ein af troðslum ársins til þessa. Hún er talsvert flottari en margar sem við sáum í troðkeppninni á dögunum.

Saturday, March 10, 2012

Ricky Rubio er farinn í sumarfríi














Fólk sem hefur á annað borð gaman af NBA körfuboltanum er dauft í dálkinn í dag eftir að í ljós kom að spænski leikstjórnandinn Ricky Rubio hjá Minnesota er með slitið krossband og leikur ekki meira með liðinu í vetur. Hann mun einnig missa af ÓL með spænska landsliðinu.

Um það bil átta milljónir leikmanna, blaðamanna og stuðningsmanna Rubio hafa sent honum batakveðjur á Twitter í kvöld. Frábært að sjá hvað hann á marga aðdáendur pilturinn og það kemur ekki á óvart. Svona guttar koma ekki inn í deildina á hverju ári. Ekki á hverjum áratug heldur.

Þessi meiðsli hans Rubio, sem hann hlaut eftir árekstur við sjálfan Kobe Bryant, þýða væntanlega að vonir og væntingar Úlfanna um að komast í úrslitakeppni minnka verulega. Minnesota var búið að vera á fínu róli og lið eins og Houston og Portland að drulla á sig á sama tíma, svo margir voru farnir að sjá liðið ná inn í úrslitakeppnina. Það hefði verið dásamlegt.

Það vilja allir sjá Úlfana stríða einhverju af toppliðunum í playoffs, en það verður að teljast ólíklegt að það takist án Rubio. Og á meðan eru hnúahausar eins og Stephen Jackson og Eddy Curry heilir heilsu. Hnuss!

Smelltu á ´ann


Kwame Brown á afmæli í dag


Ólíkindatólið Kwame Brown á stórafmæli í dag. Hann er nefnilega þrítugur. Hammó með ammó, Kwame.

Kwame Brown var valinn númer eitt í nýliðavalinu árið 2001 og öruggt er að hans verður minnst sem eins lélegasta leikmanns sem tekinn hefur verið fyrstur í valinu.

Það var enginn annar en Michael Jordan sem tók hann þegar þeir voru hjá Washington á sínum tíma. Jordan hefur ekki riðið feitum hesti á skrifstofunni síðan hann hætti að spila en Brown er í úrvalsliði axarskafta hans, á því leikur enginn vafi.

Mörgum leikmönnum sem teknir hafa verið númer eitt í nýliðavali NBA hefur mistekist að standa undir pressunni sem fylgir í kjölfarið og sumir þeirra eru hreinlega ekki góðir í körfubolta. Hann Kwame ræfillinn er einn þeirra.

Hann hefur einu sinni skoraði meira en 10 stig að meðaltali í leik á þessum áratug sínum í deildinni. Einu sinni hirt meira en sjö fráköst og einu sinni spilað meira en 30 mínútur. Hann er rulluspilari með takmarkaða getu.

Við myndum gefa Kwame aksjón-fígúru af honum sjálfum ef við gæfum honum afmælisgjöf. Hún lítur út fyrir að vera með betri hendur en fyrirmyndin og ætti ekki að kosta mjög mikið.

Vel kæst körfuboltaskata


Því miður eru ekki til nein lög í meingölluðu réttarkerfi Bandaríkjanna sem banna leiki eins og viðureign Charlotte Bobcats og New Jersey Nets í kvöld. Hér fyrir neðan má sjá stutta glefsu úr þessum epíska slag.

Oklahoma-menn kunna að skemmta fólki


Thursday, March 8, 2012

Meiddayfirlit


Sacramento Bee tók saman lista yfir meiðsli í NBA deildinni í vetur. 

Fyrri talan er fjöldi leikmanna sem hafa meiðst og síðari talan er heildarfjöldi leikja sem leikmennirnir hafa misst úr vegna meiðsla sinna.

Eins og sjá má hefur New Jersey farið áberandi verst út úr viðskiptum sínum við meiðsladrauginn og munar þar mest um meiðsli miðherjans Brook Lopez.


Á hinum enda listans er svo kraftaverkalið Phoenix Suns.

Einu sinni hefði það þótt ótrúlegt að lið með menn
eins og Steve Nash og Grant Hill í sínum röðum toppaði svona lista, en sjúkraþjálfarateymi Suns er hreint út sagt göldrótt.


Lið, fjöldi meiddra leikmanna, fjöldi leikja í meiðslum.
 
1. New Jersey Nets 11- 123
2. New Orleans Hornets 9- 98
3. Minnesota Timberwolves 9- 97
4. Charlotte Bobcats 9- 92
5. New York Knicks 7- 84
6. Memphis Grizzlies 5- 75
7. Toronto Raptors 7- 71
8. Milwaukee Bucks 10- 68
9. Washington Wizards 6- 65
10. Boston Celtics 10- 63
11. Atlanta Hawks 7- 63
12. San Antonio Spurs 7- 62
13. Oklahoma City Thunder -9 60
14. Denver Nuggets 7- 60
15. Detroit Pistons 5- 60
16. Chicago Bulls 7- 57
17. Cleveland Cavaliers 8 -47
18. Los Angeles Clippers 7- 47
19. Portland Trail Blazers 6- 44
20. Miami Heat -7 43
21. Indiana Pacers 5- 42
22. Golden State Warriors 8- 41
23. Los Angeles Lakers 4- 40
24. Philadelphia 76ers 4- 32
25. Dallas Mavericks 8- 29
26. Houston Rockets 6- 26
27. Orlando Magic 5- 21
28. Sacramento Kings 3- 19
29. Utah Jazz 7- 17 

30. Phoenix Suns 3- 4
  
Samtals: 206- 1650

Read more here: http://blogs.sacbee.com/sports/kings/archives/2012/03/kings-among-lea.html#storylink=cpy

Tígur í leit að persónuleika


Dirk Nowitzki spilar körfubolta


Þú mátt endilega láta vita ef þú veist um betri aðferðir við að stöðva Dirk Nowitzki þegar hann er í essinu sínu. Í þessu myndbroti sjáum við Nick Collison og félaga hans í Oklahoma reyna það í fyrrakvöld.

Jordan Farmar er alveg sama um Lob City


Það var enginn annar en Jordan Farmar sem tryggði New Jersey Nets sjaldgæfan sigur með þriggja stiga körfu í nótt. Undirbúningur Deron Williams er frábær - sendingin gull. Williams er ekki mikið í því að tapa fyrir Chris Paul - hvorki maður á mann, né með liði sínu. Athyglivert hve ójafnt einvígi þeirra hefur verið undanfarin ár. En hvað um það. Sólin skín líka stundum á hundsrassa. Það sýndi sig í nótt.

D-Rose lokar Bucks


Hann er kannski ekki mikið fyrir það að dansa eins og við sáum um Stjörnuhelgina, enda eru það stelpur sem dansa eins og sagði í laginu góða. Leikir Chicago og Milwaukee eru jafnan hörkuleikir og þessi var engin undantekning. Verðmætasti leikmaður deildarinnar ákvað að loka þessu sjálfur í lokin. Dálítið erfitt skot kannski, en niður fór það hjá kappanum.

Stephen Jackson er fínn tónlistarmaður


Óhemju fjöldi NBA leikmanna hafa reynt fyrir sér í tónlistinni og mistekist, flestum hrapalega. Brjálæðingurinn Stephen Jackson er undantekningin sem sannar regluna í þessu sambandi ef þú spyrð okkur. Mjög trúverðugur í þessu skemmtilega rapplagi og flæðið og svægið í hæsta gæðaflokki ef tekið er mið af því að hér er áhugamaður á ferðinni. Smakkaðu á þessu.

Tribute


Monday, March 5, 2012

Serge Ibaka fær körfubolta í höfuðið


Serge Ibaka fær ekki andlitsmeðferðir daglega, en Josh Smith gaf honum eina hressa á dögunum. Taktu eftir því hvað Georgíumanninum Zaza Pachulia leiðist þetta bara ekki neitt. Er þetta ekki eitt fallegasta hljóðið í náttúrunni? Klonk!

Í iðrum Staples Center