Tuesday, March 27, 2012
Nokkrir molar um 30/20 leiki
Þið sem á annað borð lesið NBA Ísland vitið hvað ritstjórnin er gefin fyrir skemmtilega tölfræði.
Atmennið Kevin Love hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu enda er hann að bjóða upp á tölfræði sem er fyllilega á pari við það sem duglegustu menn voru að gera fyrir um 30 árum síðan.
Og það er hrós.
Tölfræði á borð við þá sem okkur þykir sjálfssögð í dag hefur ekki verið haldin almennilega síðan árið 1985. Því er ekki fyllilega marktækt að slá upp svona töflum, en það er óskaplega skemmtilegt.
Hér til hliðar er tafla yfir þá leikmenn sem oftast hafa boðið upp á 30 stig og 20 fráköst í einum og sama leiknum.
Þarna kemur bersýnilega í ljós að það sem Kevin Love er að gera um þessar mundir er hreint ótrúlegt.
Love er aðeins á sínu fjórða ári í deildinni, en hvað varðar 30/20 leiki hefur hann þegar skotið mörgum Heiðurshallarmeðlimum ref fyrir rass. Mönnum eins og David Robinson, Karl Malone og Tim Duncan, svo einhverjir séu nefndir.
Þó þetta sé vissulega skuggalegur árangur hjá Love, á hann enn óralangt í fyrirbærið Charles Barkley sem náði þessum áfanga hvorki meira né minna en 20 sinnum á ferlinum. Það er bara ein af átta þúsund ástæðum fyrir því að við og svo margir fleiri elska Charles Barkley.
Hér fyrir neðan er yfirlit yfir 30/20 leikina hans Barkley (smelltu á myndina til að stækka hana). Taktu eftir því að í þrígang er hann hársbreidd frá því að bæta við 10 stoðsendingum (9,9,8) og breyta tröllatvennunni í ofurþrennu. Í einum leiknum (16.) bætir þessi töffari svo við 7 vörðum skotum (og 7 töpuðum boltum) til gamans. Svona mannlegar grjótskriður eins og Barkley koma ekki fram nema einu sinni á öld. Þvílíkt eintak.
Það er þó hætt við því að Wilt heitinn Chamberlain myndi fussa og sveia yfir þessum tölum, því hann gjörsamlega stútaði allri þessari tölfræði og miklu meira en það.
Nægir að nefna að leiktíðina 1961-62 var Chamberlain með SJÖTÍU 30/20 leiki. Þá þótti ekkert tiltökumál að hann tæki 40-50 skot í leik og átti meðal annars 38 frákasta leik. Það var algjör undantekning ef hann hirti undir 20 fráköst í leik það tímabil eins og reyndar mörg önnur.
Að lokum hendum við inn mynd af þremur gullfallegum körfuboltamönnum sem allir náðu á einhvern óskiljanlegan hátt að slysast í 30/20 leik á ferlinum. Getur þú sagt okkur hvað þessir heiðursmenn heita án þess að svindla? Sendu svarið á nbaisland@gmail.com ef þú ert með þetta.
Efnisflokkar:
Charles Barkley
,
Kevin Love
,
NBA 101
,
Sóðaskapur
,
Tölfræði
,
Wilt Chamberlain