Tuesday, March 27, 2012

Hugvekja um Kobe Bryant og LA Lakers


Sagt er að NBA leikmenn fari undantekningalaust að dala þegar þeir fara yfir þúsund leikja markið.

Kobe Bryant hefur spilað yfir 1150 leiki þrátt fyrir að vera aðeins 33 ára gamall. Hann er á sínu sextánda ári í deildinni, en hann kom inn í NBA aðeins átján ára eins og menn muna.

Önnur kenning er til sem segir að það sé gjörsamlega skothelt að leikmaður sem hefur náð 40.000 mínútum fari að dala mjög hratt eftir að þeim áfanga er náð.

Það ýtir óneitanlega undir þessa kenningu, að enginn 40.000 mínútna maður í sögunni hefur farið fyrir liði í undanúrslit NBA deildarinnar - hvað þá í lokaúrslit.

Kobe Bryant er búinn að spila yfir 42.000 mínútur og rauf áðurnefndan 40.000 múr því á síðustu leiktíð. Þrátt fyrir að margir hefðu spáð liði hans meistaratign í fyrra, þurfti Lakers-liðið að sætta sig við að vera sópað út úr annari umferð úrslitakeppninnar af liðinu sem síðar stóð uppi sem sigurvegari, Dallas Mavericks.

Kobe Bryant er stigahæsti leikmaður deildarinnar um þessar mundir með yfir 28 stig að meðaltali í leik. Það er auðvitað vel af sér vikið hjá honum, en önnur tölfræði vekur meiri áhuga hjá okkur í ljósi ofangreindra staðreynda.

Kobe Bryant er í fjórða sæti yfir flestar mínútur spilaðar að meðaltali í leik í NBA og það sem meira er, er hann í öðru sæti í heildarmínútum spiluðum á eftir Kevin Durant (sem er tíu árum yngri en Bryant).

Þetta er gjörsamlega glórulaust.

Við forðumst að setja okkur á of háan hest hérna á ritstjórninni, af við höfum ekki efni á því.

En það hlýtur hvert mannsbarn að sjá að þessi keyrsla á Kobe Bryant getur ekki verið af hinu góða.

Okkur er til efs að nokkur leikmaður hafi spilað undir meira álagi en Bryant undanfarinn áratug í NBA, ekki síst síðustu fjögur árin.

Bryant er auðvitað gríðarlegur keppnismaður. Svo mikill að það jaðrar við geðveiki. Skapgerðarbrestir af þessum toga eru nauðsynlegir þegar menn eru að safna meistaratitlum og gera tilkall til þess að teljast topp tíu leikmaður í sögunni.

En það verður einhver að hafa vit fyrir honum og félaginu. Jú, það hefur ekki beinlínis verið breidd hjá Lakers í vetur eftir skrítið sumar og óljósa stefnu í leikmannamálum - og fyrir vikið hefur ef til vill mætt meira á Kobe en til stóð.

En þarf Kobe Bryant virkilega að spila 39 mínútur í leik í deildakeppninni, 33 ára að aldri?

Stundum áttaði fólk sig ekki á því hvað Phil Jackson var að gera með Lakers-liðið, en þessi stefna sem hefur verið á liðinu í vetur er kapítuli út af fyrir sig.

Eins og nánast alltaf, er Kobe að skjóta allt of mikið, en nú er hann líka að spila allt of mikið. Hátt í fimm mínútum meira að meðaltali í leik en í fyrra og það er ekki eins og hann hafi verið heill heilsu í allan vetur. Fyrst með fingurinn í spelku og svo með grímu á andlitinu, svo eitthvað sé nefnt.

Þá er Bryant að bjóða upp á slökustu skotnýtingu sína á ferlinum síðan Michael Jordan spilaði með Chicago Bulls (38%), afleita þriggja stiga nýtingu ( 29% - þá verstu í tíu ár) og flesta tapaða bolta síðan 2005. Þessi atriði eru ekki beint að afsanna 1000 leikja og 40.000 mínútna kenningarnar.

Mike Brown er enn að finn út hvað hann ætlar að gera með þetta Lakers-lið og hann er nýbúinn að fá nýjan leikstjórnanda, svo þær improviseríngar munu líklega halda áfram til vorsins.

Brown var þekktur fyrir einhæfan og fyrirsjáanlegan sóknarleik þegar hann þjálfaði Cleveland, en þó hann hafi fleiri vopn á hendi með Lakers eru æði margir að verða gramir yfir því hvað hann er óduglegur við að nota stóru mennina sína Pau Gasol og Andrew Bynum.

Hey, af hverju að nota þá? Þeir eru ekki nema langbesta 4-5 parið í deildinni.

Samt horfum við á heilu leikina renna út í sandinn hjá Lakers þar sem Kobe Bryant dælir upp skotum eins og vélbyssa fyrir utan meðan stóru mennirnir ranghvolfa augunum og skokka milli teiga.

Menn eru ekki á eitt sáttir um það hvort þessi vitleysa er Mike Brown eða Kobe Bryant að kenna, en það er líklega aukaatriði. Á meðan Kobe Bryant tekur allt of mörg skot og spilar allt of margar mínútur, þarf enginn að hafa of miklar áhyggjur af Lakers í vetur. Það er okkar einlæga skoðun.

Flest lið í deildinni eru drulluhrædd við Lakers þó liðið hafi fengið skell í úrslitakeppninni í fyrra. Lakers getur nefnilega unnið öll lið í deildinni þegar liðið er rétt stillt - og það sem meira er - unnið auðveldlega. Hæðin á framlínu liðsins og grimmd Kobe Bryant eru enn eitruð blanda.

Það er stórvarasamt að veðja á móti sterkum og reyndum liðum eins og Lakers sem hafa séð þetta allt saman, en við ætlum að gera það að þessu sinni. Okkur geðjast einfaldlega ekki að stefnu liðsins í vetur.

Vonandi á Kobe Bryant eftir að drulla yfir allar þessar óskráðu reglur sem við töldum upp í byrjun pistilsins, en sagan og skynsemin segir okkur einfaldlega annað.