Friday, March 16, 2012

Peković á sinn þátt í framförum Úlfanna


Kunnugir segja okkur að Svartfellingurinn Nikola Peković hafi ekki verið neinn sekkur þegar hann spilaði í Evrópu áður en Minnesota krækti í hann í annari umferð nýliðavalsins árið 2008. Flestir hölluðust að því að Peković færi á topp 10, en samningastaða hans hjá Panathinaikos gerði það að verkum að hann fór ekki fyrr en 31. í valinu.

Skipti Peković yfir í NBA deildina reyndust honum erfið og sérstaklega átti hann erfitt með að halda sér inni á vellinum á nýliðaárinu sínu. Þar leiddi hann deildina í vafasömum flokki, eða flestum villum per 48 mínútur.

Rick Adelman, nýráðinn þjálfari Minnesota, hefur lýst því yfir í viðtölum að það hafi ekki verið sér ofarlega í huga að láta Peković spila í upphafi leiktíðar, þegar sá stóri sat oftast límdur við bekkinn. Hann spilaði þannig ekki nema fjórar mínútur í fyrstu ellefu leikjum Úlfanna á leiktíðinni.

Þegar Peković fékk svo loksins tækifæri nýtti hann það til fullnustu. Það hefur verið frábært að fylgjast með honum í vetur og ekkert því til fyrirstöðu að hann geti orðið einn af betri miðherjum deildarinnar. Eins og flestir vita hefur ekki beinlínis verið offramboð af alvöru miðherjum í NBA síðustu ár og því eru lurkar eins og hinn 26 ára gamli Peković þyngdar sinnar virði í gulli.

Það er gaman að geta þess að samkvæmt tölfræðinni er Peković öflugasti sóknarfrákastari NBA deildarinnar og það þrátt fyrir að spila við hliðina á frákastavélinni Kevin Love. Hann hefur þannig rifið niður hvorki meira né minna en 18% af þeim sóknarfráköstum sem í boði hafa verið, sem er gjörsamlega ótrúleg tölfræði.

Það er  nokkuð víst að Peković á eftir að fá einhver atkvæði þegar kemur að því að velja framfarakóng NBA deildarinnar í vetur. Rick Adelman þjálfari á líklega mestan heiður af því að koma liðinu úr kjallaranum og í baráttu um sæti í úrslitakeppni, en framganga Peković hefur líka haft sitt að segja í bættu gengi liðsins. Innkoma hans, stjörnuleikur Kevin Love og svo auðvitað innkoma Ricky Rubio eru þannig helstu ástæður þess að Minnesota hefur á nokkrum mánuðum farið frá því að vera eitt sorglegasta félagið í NBA yfir í það að vera eitt mest spennandi.