Sunday, March 18, 2012
Tyson Chandler misnotar ekki mörg skot
Ef deildakeppninni lyki í dag myndi miðherjinn Tyson Chandler hjá New York rita nafn sitt í sögubækurnar fyrir að vera með næstbestu skotnýtingu í sögu NBA deildarinnar.
Chandler hefur lítið gert annað en að grípa sendingar og troða þeim viðstöðulaust hjá Knicks í vetur og er sem stendur með 69,6% skotnýtingu, nánast sömu nýtingu upp á prósentustig og hann er með af vítalínunni.
Það er að sjálfssögðu Wilt Chamberlain heitinn sem á metið yfir bestu nýtinguna á tímabili í NBA. Hann skaut (tróð) 72,7% með Lakers á lokaárinu sínu í deildinni árið 1973 og er eini maðurinn sem hefur rofið 70% múrinn.
Wilt á líka næstbesta árangurinn í skotnýtingu í sögunni, en það var 68,3% nýting hans með Sixers árið 1967.
Á þessu má sjá að Chandler á ágæta möguleika á að komast á blað með Chamberlain í metabókunum, þó hann eigi trúlega erfitt með að slá metið. Það er ekki auðvelt að slá metin hans Wilt.
Það er líka skondið að líta yfir tölfræðina hans Tyson Chandler á ferlinum. Það væri gaman að fletta því upp hvort einhver leikmaður í sögu deildarinnar hafi verið með jafn óstöðuga skotnýtingu og hann.
Á meðan útlit er fyrir að Chandler muni nú skjóta yfir 60% utan af velli í fjórða sinn á ferlinum í vetur, hefur hann líka afrekað að skjóta þrisvar undir 50%. Þar af einu sinni aðeins 42,4% með Chicago Bulls. Það hlýtur því að verða NBA met yfir... "skotsveiflur" ef Chandler verður um 70% þegar upp verður staðið í vor.
Efnisflokkar:
Knicks
,
Tyson Chandler