Saturday, March 31, 2012
Hágæðastríð í Ásgarði
Það er orðið dálítið langt síðan Stjarnan tók 1-0 forystu í einvíginu við Keflavík í fyrstu umferð úrslitakeppni Iceland Express deildar karla, en hér var á ferðinni yndislegur körfuboltaleikur sem á skilið að fá smá umfjöllun þó hún komi allt of seint.
Ef þessi fyrsti leikur liðanna í fyrstu umferð gefur einhverja mynd af því hvernig sjálft lokaúrslitaeinvígið verður í næsta mánuði, er rétt að áhorfendur mæti með hjálma og slökkvitæki í þá rimmu. Bæði lið voru heldur betur tilbúinn í stríð og það sýndi sig frá fyrstu mínútu. Við sem mættum á leikinn fengum ekki aðeins frábæran körfubolta, heldur líka átök sem hefðu sómað sér sem endir á hvaða Die Hard mynd sem er. Stórkostleg skemmtun.
Nokkrir punktar um leikinn:
Valur Valsson hjá Keflavík var þarna að mæta í sinn fyrsta alvöru leik í úrslitakeppni þar sem hann er í stóru hlutverki.
Pilturinn átti ekki fullkominn leik, en að sjá þennan unga snáða mæta í þessa frumraun og byrja á því að smella tveimur þristum var hreint frábær sjón. Þessi drengur kippir svo sannarlega í kynið og það verður unun að fylgjast með honum vaxa sem leikmaður í framtíðinni.
Marvin Valdimarsson var maður leiksins í okkar augum. Skilaði fullt af stigum, nýtti skotin sín vel og spilaði frábæran varnarleik þar sem hann elti Magnús Þór Gunnarsson um allan völl. Marvin gaf Magnúsi nokkur ódýr vítaskot eftir að hafa brotið á honum í langskoti, en þess utan var hann frábær.
Justin Shouse skilaði 16 stoðsendingum og Stjarnan bara tapar ekki þegar svo er.
Jovan Zdravevski setti nokkra risavaxna þrista í síðari hálfleik og átti stóran þátt í að Stjarnan náði að taka fram úr og sigra.
Keith Cothran nýtti skotin sín vel en hann heldur áfram að fara í taugarnar á okkur með það hvað hann er stundum tannlaus í sóknarleiknum. Hann fékk t.a.m. nokkur dauðafæri til að keyra á körfuna þegar hann var dekkaður af Magnúsi Gunnarssyni (sem var í villuvandræðum og hefur ekki hraða í að dekka hann) og einum af stóru strákunum hjá Keflavík, en gerði það ekki.
Cothran átti þó tvímælalaust tilþrif leiksins sem við sjáum hér fyrir neðan. Fagnaðarlæti þjálfara hans Teits Örlygssonar eru besta dæmi sem við getum sýnt ykkur til að rökstyðja af hverju við elskum körfubolta. Teitur étur og sefur körfubolta eins og við. Algjör fag- og toppmaður.
Það fer ákaflega í taugarnar á okkur hvað Jarryd Cole fær litla þjónustu undir körfunni hjá Keflavík. Það var mikið talað um það fyrir þetta einvígi að Stjarnan hefði yfirburði í teignum, en þegar Cole fór af stað, réðu Stjörnumenn ekkert við hann frekar en aðrir varnarmenn hér á landi. Cole er dýrslegur leikmaður og er í miklu uppáhaldi hjá okkur.
Leikur tvö í Keflavík verður skemmtun upp á fullt hús og rétt að hvetja alla sem hafa tök á því að mæta suður eftir. Það er algjör synd að annað þessara liða þurfi að sitja eftir í úrslitakeppninni. Við myndum gjarnan vilja sjá þau bæði fara alla leið ef því væri að skipta.
Það er mikill munur á þessum liðum. Stjarnan er með miklu meiri breidd og er með mikla yfirburði í leikstjórnandastöðunni, en það var aðdáunarvert að sjá baráttu Keflvíkinga í þessum leik. Planið þeirra var ekki langt frá því að ganga upp en það var eins og liðið hefði bara ekki nógu mörg vopn til að klára þetta í lokin meðan heimamenn fengu risakörfur frá hverjum manninum á fætur öðrum.
Þetta verður algjör veisla þetta einvígi.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Keflavík
,
Stjarnan
,
Úrslitakeppni 2012