Sunday, April 1, 2012
Ævintýrið í New York að enda
Einhverju skemmtilegasta Öskubuskuævintýri síðari tíma í NBA deildinni er lokið. Knicks tilkynnti í kvöld að Jeremy Lin þyrfti í uppskurð og missi úr að minnsta kosti sex vikur.
Bættu þessu við meiðsli Amare Stoudemire og New York þarf margslungið kraftaverk til að komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir að vera fyrir ofan Milwaukee í áttunda sætinu sem stendur. Næstu leikir New York eru ekki beint auðveldir eins og sjá má á töflunni hér til hliðar.
Fari svo að New York missi af úrslitakeppninni verða það gríðarleg vonbrigði fyrir liðið og stuðningsmenn þess. Það er alltaf svo mikið skrum í kring um New York og auðvitað er skemmtilegra að hafa vel studda og stóra klúbba eins og Knicks með í baráttunni.
Forráðamenn Knicks hafa spanderað miklu til að koma liðinu aftur á toppinn, en þrátt fyrir að hafa sankað að sér stórstjörnum er enn nokkuð í það að New York sé lið sem þarf að taka alvarlega í úrslitakeppni.
Klukkan tifar í Madison Square Garden og það verða óeirðir í New York ef liðið fer ekki í úrslitakeppnina á næsta tímabili. Það er algjör lágmarkskrafa og auðvitað eiga lið með svona metnað að drullast til að vinna eina eða tvær seríur þegar þangað er komið.
Það verður mjög áhugavert að sjá hvað Knicks gera í sumar.