Saturday, May 31, 2014
Formsatriðin eru að baki hjá Miami
Vel gert, Miami. Það tók liðið fimmtán leiki að tryggja sér sæti í lokaúrslitunum og það er bara nokkuð flott. Liðið kláraði Indiana 117-92 í sjötta leiknum í nótt.
Leikurinn var spennandi í einhverjar fimm mínútur, en það varð fljótlega ljóst að flestir leikmanna Indiana hefðu alveg eins getað verið heima hjá sér. Margir þeirra höfðu hvorki kjark né nennu í sjötta leikinn, enda létu þeir gjörsamlega drulla yfir sig.
Ef þú hefðir sagt okkur að Miami ætti eftir að tapa þremur leikjum í úrslitakeppni Austurdeildarinnar í vor, hefðum við alveg trúað þér, en við hefðum líka alveg trúað Miami til að tapa fleiri leikjum á þessari leið.
Það er nefnilega löngu komið í ljós að Miami gerir oft bara það sem það þarf nauðsynlega að gera.
Það er ekki beint liðið sem hakkar andstæðinga sína, ekki nema ruslið í fyrstu umferðunum.
Efnisflokkar:
Blástur
,
Drullan upp á herðar
,
Heat
,
Pacers
,
Úrslitakeppni 2014
Friday, May 30, 2014
Fastir liðir hjá Spurs og OKC
Einhver varð að vinna þennan leik. Því ekki Spurs? Af hverju að breyta út af vananum? Því ekki að fá bara heimasigur með 700 stigum eins og tíðkast hefur í þessu einvígi?
Ok, San Antonio vann kannski ekki með 700 stigum, það var meira svona 117-89, en það hefði alveg eins getað verið 700 stiga munur á liðunum - slíkir voru yfirburðir San Antonio gegn Oklahoma í fimmta leik liðanna í Texas í nótt.
Efnisflokkar:
Spurs
,
Thunder
,
Úrslitakeppni 2014
Myndir af troðslunni hans Russ
Efnisflokkar:
Russ gonna Russ
,
Russell Westbrook
,
Tilþrif
,
Veðrið þarna uppi
Wednesday, May 28, 2014
Óvísindalegir tölfræðimolar úr úrslitakeppninni
Það er nákvæmlega engin hefð fyrir því að staldra við og skoða tölfræði leikmanna í miðri úrslitakeppni. Ástæðan er auðvitað ólíkar skammtastærðir - það er kannski ekki alveg lógík í því að bera saman menn sem spilað hafa sjö eða sautján leiki í úrslitakeppninni. Við gefum skít í þetta. Okkur langar að skoða aðeins tölfræðina og pæla dálítið í því hvaða menn hafa verið að standa sig vel í úrslitakeppninni og hverjir ekki. Það ætti ekki að særa neinn... hmmm, ha?
Ætli sé ekki best að klára það bara frá að dásama Russell Westbrook. Þið vitið hvað við elskum hann Russ. En hafið þið spáð aðeins í tölfræðina sem drengurinn er að bjóða upp á í úrslitakeppninni í vor? Hún er svo rosaleg að hún er líklega sú fallegasta í úrslitakeppninni í dag.
Svona að öllu gríni slepptu, eru þetta ekki bara tölurnar. Hvað eru margir leikmenn búnir að spila betur en Westbrook í úrslitakeppninni?
Fullt af þeim, segja hatursmenn Russ. Það eru mennirnir sem sjá ekki annað en Vonda Russ - gaurinn sem tekur hræðileg skot, fær dæmda á sig ruðninga og kastar boltanum upp í stúku í staðinn fyrir að gefa hann á manninn við hliðina á sér.
Við erum alltaf að rífast við hatursmenn Russ, en margir þeirra fatta ekki ennþá að það er löngu, löngu, löngu orðið bæði þreytt og hallærislegt að dissa Russ. Það myndu allir vilja hafa Russ í sínu liði - mann eins og Russ - gaur sem er alltaf á útopnu, hræðist ekkert og berst til síðasta manns.
Efnisflokkar:
Chris Bosh
,
George Hill
,
Kevin Durant
,
LeBron James
,
Paul George
,
Roy Hibbert
,
Russ gonna Russ
,
Russell Westbrook
,
Svægi
,
Taktu þér tak drengur!
,
Tölfræði
,
Úrslitakeppni 2014
Oklahoma jafnaði metin gegn San Antonio
Gallinn er bara sá að Oklahoma er ekkert auðveldara við að eiga núna en þá. Það er vonlaust að eiga við þessa brjálæðinga og alla þessa lengd, þennan hraða, þennan kraft og þessar ungu hendur og fætur út um allt. Oklahoma er búið að jafna metin í 2-2 í einvíginu við San Antonio árið 2014, eftir öruggan 105-92 sigur í leik fjögur í nótt.
Efnisflokkar:
Russell Westbrook
,
Serge Ibaka
,
Spurs
,
Thunder
,
Úrslitakeppni 2014
Tuesday, May 27, 2014
Miami er komið með annan fótinn í úrslit
Miami sá til þess að Indiana sá aldrei til sólar í nótt þegar það komst í 3-1 í einvíginu með 102-90 sigri á heimavelli sínum í fjórða leiknum. Rúmlega 96 af 100 liðum sem komast í 3-1 í sjö leikja seríum ná að klára þær. Eins og staðan er núna, er Indiana ekki sérlega líklegt til að verða eitt af liðunum sem nær að bjarga sér úr slíkri krísu.
Indiana vann fyrsta leikinn af því Miami leyfði það, en síðan hafa meistararnir verið með yfirhöndina þegar þeir þurfa á því að halda - í lok leikjanna.
Það var líka fín hugmynd hjá Lance Stephenson að halda áfram að rífa kjaft við LeBron James og Dwyane Wade í fjölmiðlum. Það er alltaf hægt að skipta um nærbuxur ef maður drullar á sig. Eða þannig virðist það vera hjá Lance, sem þó verður að fá kúdós fyrir að halda þessu einvigi alltaf áhugaverðu hvað sem aðrir segja eða gera.
Spennan í fjórða leiknum varð aldrei mikil og okkur þykir ljóst að Miami sé að fara að vinna það 4-1 eða 4-2, svona ef við leyfum okkur að fara fram úr okkur eins og fólk gerir á internetinu árið 2014. Það sem hér fer á eftir er því hæperbóla og ótímabærar hugsanir handa þér.
Eins og venjulega, hafa meistarar Miami legið undir gagnrýni í þessari úrslitakeppni.
Efnisflokkar:
Heat
,
LeBron James
,
Pacers
,
Roy Hibbert
,
Úrslitakeppni 2014
Monday, May 26, 2014
Oklahoma svaraði fyrir sig í nótt
Það var ekkert annað...
Við vissum vel að Serge Ibaka væri Oklahoma mikilvægur og erum búin að segja ykkur það. Ef þriðji leikur Oklahoma og San Antonio leiddi eitthvað í ljós - var það mikilvægi Ibaka í vörn og sókn. Heimamenn í Oklahoma eru nú búnir að minnka muninn í 2-1 í einvíginu við San Antonio eftir 106-97 sigur í þriðju viðureign liðanna í nótt.
Við reiknuðum með því að kátt yrði í höllinni og Ibaka myndi spila kannski fimm, tíu eða fimmtán mínútur á annari löppinni til að vera hetja - þó ekki væri nema til að reyna að blása félögum sínum Reed-brag í brjóst.
Hann gerði gott betur en það, sá stóri og skilaði 15/7 á 30 mínútum, fjórum vörðum skotum, nær fullkominni skotnýtingu og spilaði varnarleikinn sem var svo átakanlega fjarverandi í fyrstu tveimur leikjunum í San Antonio.
Flest einvígi breytast nokkuð þegar liðin skipta um leikstað og þetta var engin undantekning. Það var bara annað og miklu meira sem nýttist Oklahoma en heimavöllurinn í nótt.
Serge Ibaka ákvað að það væri nóg að hvíla sig í nokkra daga til að hrista af sér meiðsli sem sagt er að taki fjórar til sex vikur að batna.
Annað hvort er drengurinn annálað hörkutól eða þá hitt, að læknar og þjálfarar Oklahoma hafi logið eins og andskotinn sjálfur þegar þeir sögðu að hann væri úr leik það sem eftir lifði úrslitakeppni - jafnvel þó Oklahoma kæmist jafnvel í lokaúrslitin án hans.
Við trúum því alveg að Ibaka sé hörkutól, sjáðu bara hvernig hann spilaði í nótt, en við erum líka alveg handviss um að fréttirnar af andláti fótleggs hans séu
Já, þessi leikur var nákvæmlega það sem doktorinn pantaði. Við óttuðumst svo mjög að San Antonio ætlaði að setjast upp í jarðýtuna og loka þessu einvígi, en í staðinn er þetta orðið spennandi á ný og engin ástæða til að ætla annað en að þetta verði epískt alla leið.
Eftir þessa mögnuðu frammistöðu hjá Ibaka í nótt er stærsta spurningin í rimmunni auðvitað hvort hann nái að jafna sig nógu vel eftir þessi rosalegu átök í nótt og endurtaka leikinn á þriðjudagskvöldið. Það hlýtur að vera hæpið dæmi.
Við tölum eins og Ibaka sé eina ástæðan fyrir því að einvígið hafi snúist við. Þetta er vissulega ekki svona einfalt, en nú erum við búin að verða vitni að því hvað Oklahoma missir fótanna ef það missir annað hvort
Russell Westbrook eða Serge Ibaka í meiðsli. Oklahoma stóð sig ágætlega í fjarveru Westbrook í deildakeppninni í vetur, en við sáum að liðið var í gríninu án hans í úrslitakeppninni í fyrra. Það sama er uppi á teningnum þegar Ibaka er kippt út úr myndinni - það vitum við núna.
Það var sama hvort um var að ræða vörn eða sókn. Liðið gat ekkert án hans. Eins og við bentum á á dögunum, er erfitt að læra að spila án lykilmanns í fyrsta sinn í miðri úrslitakeppni og það í einvígi við San Antonio.
Eðlilegast væri að leyfa Oklahoma nú að spila nokkra leiki án Ibaka áður en því er haldið fram að liðið geti ekkert án hans, en það er bara ekkert í boði í úrslitakeppninni.
Það var vitað mál að þetta yrði erfitt í vörninni, en vandræðagangurinn var ekkert minni í sóknarleiknum, sem er með ólíkindum. Þið megið ekki misskilja þessa pælingu og halda að Ibaka sé mikilvægasti körfuboltamaður á jörðinni, það er hann ekki.
En það er komið í ljós að hann er algjör lykilmaður hjá Oklahoma og við þurfum í rauninni ekkert að ræða þetta einvígi meira ef hans nýtur ekki við í framhaldinu. Þá er þetta búið, eins og við skrifuðum á dögunum.
San Antonio þarf alls ekkert að fara í panikk þó þessi leikur hafi tapast, nú er bara að reyna að stela þeim fjórða. Pressan er enn á Oklahoma að ná að minnsta kosti að verja heimavöllinn.
Ef San Antonio vinnur næsta leik, eru 99% líkur á því að einvígið sé búið. Vinni Oklahoma hinsvegar, gæti farið að fara um gömlu refina í San Antonio. Þeir gætu ósjálfrátt farið að hugsa um einvígið við Oklahoma fyrir tveimur árum, þar sem þeir komust í 2-0 en töpuðu rest.
Þessi úrslit í nótt voru draumur fyrir óháða aðila eins og okkur sem viljum allar seríur í oddaleiki svo við fáum að sjá allan þann körfubolta sem í boði er.
Við skulum öll (nema stuðningsmenn Spurs auðvitað) leggjast á bæn og vona að Ibaka geti beitt sér þokkalega vel í næsta leik líka svo spennan haldist áfram í þessu.
Meiðsladraugurinn er búinn að fokka alveg nógu miklu upp í NBA síðustu misserin. Nú verður meiðslalistum einfaldlega hent í ruslið og spilað til þrautar.
Það er hágæðadæmi framundan, krakkar.
Næsta viðureign þessara liða er á þriðjudagskvöldið klukkan eitt eftir miðnætti og verður hún sýnd beint á Stöð 2 Sport, þar sem til stendur að sýna alla leiki sem eftir eru í úrslitakeppninni.
Efnisflokkar:
Meiðsli
,
Óskalög sjúklinga
,
Serge Ibaka
,
Spurs
,
Thunder
,
Úrslitakeppni 2014
Funaki
Nýsjálendingurinn ungi Steven Adams hjá Oklahoma er að setja svip sinn á úrslitakeppnina með baráttu sinni og hörku.
Hver veit nema hægt verði að búa til úr honum körfuboltamann - amk nógu góðan til að leysa Kendrick Perkins af á vaktinni.
Þið hafið líklega öll heyrt þessa sögu hundrað sinnum, en Adams er yngstur átján systkina. Faðir hans var breskur og frekar hress, því hann eignaðist átján börn með fimm konum.
Meðalhæðin á strákunum hans er 206 sentimetrar ef marka má Wikipedíu. Faðir hans lést árið 2006.
Fyrir utan það að hafa einstakt lag á því að reita menn til reiði og búa til vesen í teignum, er miðherjinn ungi að nýtast Oklahoma þokkalega á miðað við það hvað hann hefur litla reynslu.
Við settum hérna inn tvær myndir af húðflúrunum hans til gamans. Áritunin á handleggnum á honum segir Funaki, en það er millinafn kappans. Myndin á brjóstkassanum á honum segir sig væntanlega sjálf, en leiða má líkur að því að andstæðingar Adams líti svona út þegar þeir koma inn í klefa eftir leik - allir rifnir og tættir.
Efnisflokkar:
Húðflúr
,
Steven Adams
,
Thunder
Pilla frá Pop
Gregg Popovich er ekki hægt. San Antonio þjálfarinn svaraði flestum spurningunum sem beint var að honum stuttaralega meðan á þriðja leiknum við Oklahoma stóð. Þegar liðið var á blaðamannafundinn ákvað Pop allt í einu að slá á létta strengi og senda Oklahoma eina pillu í leiðinni. Því hafði verið haldið fram að Serge Ibaka yrði ekki meira með Oklahoma í úrslitakeppninni vegna meiðsla, en hann var sem kunnugt er með í nótt og var lykilmaður í sigri heimamanna.
Efnisflokkar:
Gregg Popovich
,
Serge Ibaka
,
Spurs
,
Thunder
Sunday, May 25, 2014
Þröngt
Efnisflokkar:
Bolurinn
,
Heat
,
Metnaður
,
Rækjusamlokur
,
Sjoppan
,
Smelltu annari rækju á grillið félagi
,
Stuðningsmenn
Ekki var það fallegt í Miami í gær
Það verður seint sagt að þriðji leikur Miami og Indiana í gærkvöld hafi verið mjög fallegur íþróttaleikur á að horfa. Sumt fólk hefur gaman af því að borða skemmdan mat og horfa á þætti eins og frúin fer sína leið og Útsvar. Kannski eru það slíkar manngerðir sem hafa gaman af svona leðjuslag eins og Miami og Indiana buðu upp á, a.m.k. í fyrri hálfleik í gær.
Liðin voru búin að skiptast á að vinna hvort annað í þrettán leikjum í röð, en allt í einu hefur Miami unnið tvo leiki í röð í þessu blóðuga einvígi austursins.
Meistararnir brunuðu fram úr Indiana á lokasprettinum í nótt og sigur Miami var svo öruggur í restina að fólk gleymir því hvað Indiana byrjaði miklu betur í leiknum.
Þetta er alltaf sama tuggan með þetta einvígi. Jú, jú, þessi lið spila bæði flottan varnarleik og hafa því að mestu skrúfað fyrir tilþrifakranana í sóknarleik hvors annars.
En góður varnarleikur á ekki að þýða að menn geti ekki hirt fráköst og hitt úr opnum skotum. Menn eins og Chris Bosh. Hversu lélegur er gaurinn þegar hann spilar á móti Indiana?
Þetta var retórísk spurning - við skulum svara henni fyrir ykkur.
Hann er skammarlega lélegur. Það er rándýrt að vera með 100 millón dollara manninn sinn á 25% spilagetu. Við segjum 25% af því hann hefur ekkert getað í sóknarleiknum og í besta falli verið hálfur maður í vörninni (sjá: Scola, Luis).
Það góða við þetta allt saman er að þeir LeBron James (58%) og Dwyane Wade (62%) halda áfram að hitta eins og Vilhjálmur Tell og skipta 48 stigunum sem þeir skila að meðaltali í leik gegn Indiana hnífjafnt á milli sín.
Til gamans má geta að Wade skoraði 18 stig að meðaltali í fyrstu tveimur umferðum úrslitakeppninnar.
Það hefur legið dálítið í spilunum síðan í leik tvö að Miami ætlaði að vinna þetta einvígi. Eða, þannig horfir það a.m.k. við okkur. Kannski af því sóknarleikur Miami er handónýtur, engu skárri en í fyrra - eða hreinlega árið þar áður ef því er að skipta. Þetta lið vantar leiðtoga sem tekið getur leikinn í sínar hendur og búið til stig úr engu.
Helsta efnið í slíkan mann hjá Pacers er Paul George, en hann er ekki alveg kominn á það plan, nú 24 vetra gamall. Þið vitið að öll lið með meistaravonir vantar svona neyðarkarl og ef George veldur því hlutverki ekki næsta vetur, þarf félagið ef til vill að reyna að finna hann á markaðnum.
Við áttum okkur ekki á því af hverju David West gerir ekki meira í sóknarleiknum hjá Indiana, sérstaklega þegar hann er dekkaður af lakkrísrörinu Rashard Lewis. Lewis á enga möguleika í West nálægt körfunni, en Indiana er um megn að koma boltanum á hann í þeirri stöðu.
Þá sjaldan að það tekst að koma boltanum á West í góðri stöðu eða jafnvel búa til opið þriggja stiga skot úr öðru hvoru horninu - verður ekki neitt úr neinu út af grenjusvipnum á George Hill.
Um leið og boltinn sér þessa föstu, óþolandi grettu í smettinu á Hill, tekur hann umsvifalaust þá ákvörðun að fara ekki svo mikið sem einu sinni ofan í körfuna það sem eftir lifir leiks.
Einhver verður bara að taka það á sig að slá Hill mjög fast utan undir - nú eða bara gefa honum almennilega á kjaftinn og sparka í Hibbertið á honum - til að reyna að fræsa þennan ófögnuð framan úr andlitinu á honum. Það sýður á okkur bara við tilhugsunina.
Já, Miami er komið í 2-1 og á eflaust eftir að klára þessa seríu nokkuð fagmannlega. En vitið þið hvað? Okkur finnst Miami samt langt frá sínu besta. Okkur finnst liðið eiga inni, þrátt fyrir fína spretti. LeBron á inni, hann getur miklu betur. Stundum er hreinlega eins og sé eitthvað að honum. Og reyndar fleirum.
Það er búið að vera fáránlegt að sjá öll þessi skipti sem leikmenn Miami hafa bara kastað boltanum upp í stúku eins og fífl eða hlaupið með boltann inn í þriggja manna pakka eins og asnar.
Kannski þarf Miami bara ekki að spila betur en þetta til að vinna Indiana. Kannski erum við allt of kröfuhorð og leiðinleg í garð Miami.
En það verður að teljast nokkuð gott hjá meisturunum að vera að vinna Indiana með heimavallarréttinn sinn heittelskaða - og það þrátt fyrir að það fái ekki skít frá Chris Bosh og að sumir leikmannanna séu á sjálfvirkri hraðastillingu.
Æ, það er komið alveg nóg af svona #&%$#&?* tuði. Það er oft á tíðum ekkert glæsilegt, en Miami er að gera það sem það þarf að gera.
Það er aðeins sex sigrum frá þvi að vinna meistaratitilinn þriðja árið í röð og hingað til hefur það bara gert það sem það hefur þurft að gera - ekki mikið meira.
Magnað að fólk (og við) sé með leiðindi út í lið sem hefur ekki gert annað af sér en að voga sér að tapa tveimur leikjum í úrslitakeppninni. Tveimur! Nákvæmlega!
Hey, förum bara með þetta alla leið úr því við erum komin svona fáránlega langt fram úr okkur.
Ekki vanmeta meistarahjartað, kreistarahjartað!
Heldurðu að þetta Miami-lið eigi séns (eða mensch af trefsch) í San Antonio eins og það er að spila þessa dagana. Þú veist, eins og San Antonio er að spila og eins og Miiiiiiami er að spila?
Pæld´aðeins í því.
Efnisflokkar:
Heat
,
Pacers
,
Úrslitakeppni 2014
Draugsýn: LeBron James
Það er tíska að sýna tilþrif aðalleikara NBA deildarinnar í svokallaðri draugsýn síðustu misseri. Þetta phantom-fyrirbæri er raunar ekki annað en hægspilun, en hún gerir það að verkum að hægt er að sjá í smáatriðum hvað listamennirnir eru að gera þarna uppi. Hérna eru nokkur af tilþrifum LeBron James í draugsýn.
Efnisflokkar:
Draugsýn
,
LeBron James
,
Tilþrif
Saturday, May 24, 2014
Thursday, May 22, 2014
Enn eitt metið hjá San Antonio
Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili urðu í nótt sigursælasta tríó í sögu úrslitakeppninnar þegar þeir unnu sinn 111. sigur saman á því sviði. Þetta eru engir pappakassar sem þeir voru að setja á bak við sig - Lakers goðsagnirnar Magic, Kareem og Cooper. Langt er síðan þeir slógu Celtics-þrennunni Bird, Parish og McHale við.
Það getur vel verið að þú viljir ekki heyra það, en það eru bara ekki mörg lið í sögu NBA deildarinnar sem slá þessu Spurs-liði við.
Þett´er náttúrulega bara rugl.
Tríóið okkar - og raunar liðið allt - er hvað eftir annað að slá met í velgengni bæði í deildakeppni og úrslitakeppni. San Antonio-liðið hans Tim Duncan er sannarlega einstakt lið.
Eitt allra besta körfuboltalið allra tíma.
Öllum er að vísu skítsama, en þetta er staðreynd engu að síður.
Vittu til, þú átt eftir að finna léttan straum af fortíðarþrá leika um þig þegar þú montar þig af því við barnabörnin að þú hafir fylgst ítarlega með Spurs allar götur frá því Tim Duncan kom til sögunnar og þangað til hann og félagar hans Parker og Ginobili lögðu skó sína á hilluna árið 2087.
Við viðurkennum það að þetta lið hefur oft farið í taugarnar á okkur. Svona eins og gamall, strangur og afturhaldssamur kennari með allt á hornum sér. Stundum finnst þér hann fyrirsjáanlegur og stundum fer hann í allar þínar fínustu.
En þegar þú hugsar til hans eftir 25 ár, áttu eflaust eftir að minnast hans með hlýju.
Hann kunni þetta nú allt saman, helvískur!
Efnisflokkar:
Manu Ginobili
,
Metabækurnar
,
Sigurgöngur
,
Sigurvegarar
,
Spurs
,
Tim Duncan
,
Tony Parker
Wednesday, May 21, 2014
Meistararnir kláruðu erfitt verkefni af fagmennsku
LeBron James og Dwyane Wade voru ekki á því að niður til Miami undir 0-2 og skoruðu síðustu 20+ stig Miami í fjórða leikhlutanum. Stórleikur stjarnanna í lokin var þó ekki það sem skóp 87-83 útisigur Miami. Það var stórbættur varnarleikurinn sem gerði það.
Miami-menn voru frekar passífir í fyrsta leiknum, en í gærkvöldi réðust þeir á hvern vegg og veltu eins og glorsoltin tígrisdýr. Meðan menn eins og David West og Lance Stephenson fengu að skoppa boltanum á milli sín í teignum eins og þeir væru í borðtennis í fyrsta leiknum, skrúfaði Miami vel fyrir svoleiðis í gær og spilaði Miami-vörn eins og þeir orðuðu það.
Chris Bosh verður alltaf eins og vændiskona í kirkju þegar hann spilar við Indiana. Hann hættir að geta gefið Miami það sem hann gerir best þegar hann þarf að eyða orku í að slást við þá Hibbert og West í teignum.
Bosh er með 9 stig, 4 fráköst, 38% skotnýtingu og er 1 af 9 í þristum í fyrstu tveimur leikjunum gegn Indiana. Það eru ekki fallegar tölur fyrir mann sem er með meira en tvo milljarða króna í árslaun, en ef vel er að gáð, þurfa þessar döpur skýrslur ekki að koma á óvart.
Bosh er nefnilega nánast alveg á pari við frammistöðu sína í þessu sama einvígi í fyrra, þar sem hann skilaði 11 stigum, 4 fráköstum og 38% skotnýtingu í leikjunum sjö gegn Indiana. Þetta er með ólíkindum og ein af ástæðunum fyrir því að Indiana kann svona vel við að mæta Miami. Þriðja hjól liðsins dettur af um leið og flautað er til leiks.
Á meðan Bosh er að spila eins og ræfill, en Dwyane Wade hinsvegar að spila eins og engill. Hann er að vísu farinn að vanda skotvalið áberandi meira en hann gerði, en það verður ekki af honum tekið að hann er að skila flottum tölum. Hann er með 25 stig og 65% skotnýtingu í fyrstu tveimur leikjunum við Indiana. Það hjálpar.
Fáir hafa trú á því að Indiana geti unnið þetta einvígi þó liðið hafi spilað svona vel í fyrstu tveimur leikjunum. Það má samt ekki taka það af leikmönnum Miami að þeir sýndu gríðarlega seiglu þegar þeir kláruðu leikinn í gær og jöfnuðu metin í einvíginu. Það getur vel verið að þeir séu sigurstranglegri, en það hefði verið bölvanlegt fyrir þá að lenda 0-2 undir.
Í staðinn eru LeBron og félagar strax búnir að stela heimavallarréttinum fræga, sem Indiana púlaði fyrir í allan vetur. Fá hugtök eru afstæðari en hugtakið heimavallarréttur. Það sýndi sig í lokaúrslitaeinvígi San Antonio og Miami í fyrra að heimavöllurinn skipti gríðarlegu máli.
Á hinn bóginn er hægt að halda því fram að þegar lið eins og Miami eiga í hlut, skipti hann engu fjandans máli - betra liðið vinni bara einvígið hvort sem það er með heimavöll eða ekki.
Heimavöllur - sveimavöllur?
Við skulum sjá til í lokaúrslitunum.
=> P.s. - næsti leikur í einvíginu verður í Miami á laugardagskvöldið klukkan 00:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Efnisflokkar:
Chris Bosh
,
Dwyane Wade
,
Heat
,
Pacers
,
Úrslitakeppni 2014
Fagurfræði San Antonio Spurs (via Leikbrot)
Efnisflokkar:
Fagmennska
,
Fagurfræði
,
Gamli skólinn
,
GINOBILIIIIII!!!
,
Hágæðaskemmtun
,
Spurs
Kevin Durant og félagar eru í vandræðum
Við vissum öll að þetta gæti orðið erfitt hjá Oklahoma án Serge Ibaka. Kannski ekki alveg svona erfitt. Oklahoma átti möguleika í einhverjar tvær eða þrjár mínútur í fyrsta leiknum við San Antonio. Meira var það ekki.
Þið eruð öll búin að lesa þrjátíu og sjö greinar um það hvað Oklahoma saknaði Ibaka. San Antonio skoraði 66 stig inni í teig í leik eitt, sem er ómannúðlega mikið. Það eru til dæmis fleiri stig en allt Miami-liðið skoraði í fyrstu þremur leikhlutunum í sigrinum á Indiana í kvöld. Nei, við sögðum ykkur að þetta gæti orðið svona.
Það sem kom okkur kannski einna helst á óvart var hve óagaður leikurinn varð á kafla. Scott Brooks ræfillinn varð auðvitað að prófa sig áfram með þetta. Læra á flugi, eins og þeir segja.
Munið þið hvað Oklahoma átti rosalega erfitt uppdráttar án Russell Westbrook í úrslitakeppninni í fyrra? Það var ekki bara af því hann er frábær leikmaður, það var líka vegna þess að liðið hafði aldrei, aldrei, aldrei þurft að spila án hans.
Þetta nákvæmlega er uppi á teningnum með Ibaka-leysið hjá þeim. Ibaka er búinn að missa úr einhverja 3-4 leiki hjá liðinu síðan á nýliðaárinu sínu og það að missa hann og þurfa að fara út í einhverja tilraunastarfsemi í miðri úrslitakeppni - og það gegn San Antonio - er... ómögulegt.
Allar þessar improvisjónir, þar sem Kevin Durant þurfti m.a. að kljást við menn sem voru þyngri en bíllinn hans, gerðu nær út af við hann. Við höfum aldrei séð Kevin Durant svona gjörsamlega búinn á því í leik áður.
Stóra vandamálið sem við höfum verið að hamra á í allan vetur er líka að koma óþægilega í ljós fyrir Oklahoma núna. Scott Brooks getur orðið ekki réttlætt það að láta Thabo Sefolosha spila af því hann er gjörsamlega rúinn sjálfstrausti í sóknarleiknum.
Fyrir vikið er Oklahoma að spila 2 á 5 í sóknarleiknum í hverri einustu sókn og samherjar þeirra Durant og Westbrook geta ekki einu sinni teygt á gólfinu - hvað þá skorað eitthvað.
Það tekur þá enginn alvarlega og Spurs getur leyft sér að eyða öllu sínu púðri í Russ og KD. Segir sína sögu um hvað þeir eru ótrúlegir sóknarmenn að þeir skuli báðir ná sínu þrátt fyrir þetta.
Við segjum tveir á fimm, en þegar San Antonio er annars vegar, er það meira tveir á móti tíu. Þannig hefur liðið verið að spila síðan það kláraði Dallas. Höggin bara halda áfram að dynja á þér, alveg sama hver er inni á vellinum.
Það er allt að falla San Antonio í hag þessa stundina og við gátum ekki fundið neitt jákvætt til að segja um Oklahoma þrátt fyrir tólf tíma umhugsun.
Annar punktur sem fellur með Spurs og enginn hefur bent á:
Manu Ginobili var afleitur í fyrri hálfleiknum og var að hóta því að halda áfram að vera lélegur eins og hann var í Portland-seríunni, þó það hefði reyndar ekki skipt nokkru máli í því stutta einvígi.
En nei.
Í staðinn fyrir að setjast bara á bekkinn í fýlu, fékk hann að halda áfram að spila og skaut sig endanlega í gang þegar Spurs var að byrja að hoppa ofan á andlitinu á Oklahoma þegar skammt var eftir.
Þegar leiknum lauk, var Manu svo búinn að skjóta sig í stuð og allt í einu leit allt miklu betur út hjá honum - eina flippin´ manninum sem átti ekki óaðfinnanlegan leik hjá Spurs.
Tony Parker sagði öllum sem heyra vildu (og þjálfarinn hans tók undir það) að lærið á honum væri í fínasta lagi. Það er haugalygi og þeir sem þekkja leik hans sáu það augljóslega í þessum leik. Parker gengur ekki alveg heill til skógar, en það kom ekki að sök í þessum leik, hann kláraði verkefnið sitt með sóma þrátt fyrir það eins og fagmaðurinn sem hann er.
Fólk ætti að vera farið að átta sig á því að þú vinnur ekki San Antonio ef...
- Tim Duncan skorar 21 stig í fyrri hálfleik og fær að leika lausum hala í teignum
- Tony Parker er á pari
- Manu dettur í gang
- Kawhi Leonard er grimmur á báðum endum vallarins
- Menn eins og Danny Green eru sjóðandi fyrir utan
- Boris Diaw getur nýtt sér veika bletti á andstæðingunum
- Bekkurinn sem heild spilar vel
- Liðið hittir fáránlega vel og skorar meira en helminginn af stigum sínum í teignum
Vonandi nær Oklahoma að finna einhver svör við þessu sem í byrjun virkar eins og martröð.
Við gætum dottið í þá gryfju að benda á það að liðið hafi nú lent undir 2-0 á móti Spurs fyrir tveimur árum en samt unnið.
En það var þá og þetta er núna. Þá var Oklahoma með James Harden og Serge Ibaka.
Núna?
Það er oft þumalputtaregla í seríum í úrslitakeppni að liðið með besta leikmanninn vinni. Þessi regla verður sett ofan í skúffu og lögð af ef þetta einvígi fer eins og á horfir, því Oklahoma er líklega með tvo bestu leikmennina í einvíginu - en miðað við ófarir liðsins í fyrsta leik, er ekki að sjá að það muni fleyta því langt.
Efnisflokkar:
Spurs
,
Thunder
,
Úrslitakeppni 2014
,
Þett´ er búið!
Dwyane Wade er enn fórnarlamb tískunnar
Efnisflokkar:
Dreptu okkur ekki
,
Fötin skapa manninn
,
Tíska
Monday, May 19, 2014
Draumabyrjun á einvígi Indiana og Miami
Bæði leikmenn og stuðningsmenn Indiana Pacers hefur dreymt um það í allan vetur að ná efsta sæti Austurdeildarinnar í deildakeppninni til að fá að mæta Miami Heat á heimavelli í fyrsta leik úrslitaeinvígisins í austrinu.
Þetta leit allt svo ljómandi vel út þegar almanaksárið 2014 gekk í garð, en þegar voraði, var eins og draumurinn breyttist í martröð með ofurraunsæislegu yfirbragði. Þrátt fyrir allt mólætið í lok deildakeppninnar, náði Indiana nú samt efsta sætinu eftir að hafa gefið Miami öll möguleg tækifæri til að hirða það af sér.
Það var ekki hátt risið á leikmönnum Indiana eftir tvær fyrstu umferðir úrslitakeppninnar, þar sem liðið átti öllu samkvæmt að hafa rúllað yfir andstæðinga sína Atlanta og Washington. Það var nú aldeilis öðru nær, eins og þið vitið.
Því átti Indiana sér annan og háleitari draum þegar kom að fyrsta leiknum við Miami í gærkvöldi:
Að vinna.
Er það von að NBA-þenkjandi hluti heimsbyggðarinnar hafi haldið niðri í sér andanum þegar flautað var til leiks í Indiana í gærkvöldi. Hvaða Pacers-lið væri þar mætt til leiks; draumaliðið eða draslið?
Svarið kom strax í fyrstu sóknum heimamanna. Þetta var ekki ruslið, þessi lélega afsökun af körfuboltaliði sem tapaði fyrsta leiknum í einvíginu bæði við Atlanta og Washington. Þetta var Indiana liðið sem var í efsta sæti deildakeppninnar framan af vetri - liðið sem hefur staðið svo rækilega í Miami undanfarin þrjú ár.
Við vorum að tala um drauma, já. Svo við vitnum í goðsögnina Ali. Ef stuðningsmenn, leikmenn eða þjálfarar Indiana hefðu vogað sér að láta sér dreyma um að byrja einvígið svona vel - hefðu þeir átt að vakna með það sama og biðjast afsökunar.
Prófaðu að telja það saman. Við erum nokkuð viss um að fleiri sóknaraðgerðir Pacers hafi gengið upp í þessum eina leik en í fyrstu þrettán leikjunum í úrslitakeppninni til samans. Slík var lukkan og hamingjan hjá heimamönnum í gær. Ja hérna hér.
Okkur er sama hvort þú heldur með Indiana, Miami eða Einherja, þetta einvígi gat ekki með nokkru móti byrjað betur. Pacers 107 - Miami 96.
Indiana-liðið var með öllu óþekkjanlegt frá síðustu leikjum, sem var vel, því það var stundum að spila eins og hnúfubakur í eyðimörk.
Það skondna var líka, að liðið á helling inni í varnarleiknum, þó hann hafi á tíðum verið afburðagóður. Indiana kann að hafa aðstoðað eitthvað við það, en Miami hitti nákvæmlega ekkert úr langskotunum - og þar lá mesti munurinn á liðunum.
Efnisflokkar:
Hágæðaskemmtun
,
Heat
,
Pacers
,
Úrslitakeppni 2014
NBA Ísland metur framtíðarmöguleika LA Clippers
Það fá ekki öll lið skrifaðan um sig pistil þegar þau falla úr leik í úrslitakeppninni. Þannig er það þó með Los Angeles Clippers. Það er ekki annað hægt en að fylgja þeim inn í sumarfríið með smá pælingu. Clippers nýtur jú þess vafasama heiðurs að vera
Einvígi Oklahoma og Los Angeles Clippers var auðveldlega langbesta rimman í annari umferðinni. Við segjum auðveldlega, af því San Antonio burstaði Portland og það var eina einvígið sem keppt gat við Oklahoma-Clippers, af því það var hitt einvígið í Vesturdeildinni.
Brooklyn var ekki inni í einvíginu við Miami nema í tvo daga og Indiana-Washington var eins og að horfa á tvo gamla karla í vatnsbyssuslag með stómapoka.
Twitter-löggan var fljót til þegar Clippers datt út og miðaði rafbyssum sínum auðvitað beint á Chris Paul.
Þegar við segjum Twitter-löggan, erum við að tala um skrímslið sem er fjölmiðlar árið 2014, þar sem allir verða að greina allt viðstöðulaust og án umhugsunar. Þar sem þeir sem eru ekki fullkomnir eru leiddir til slátrunar. Strax.
Við viðurkennum það hiklaust að við látum smitast af þessu ógeðslega viðhorfi. Þessi sífellda þörf fólks til að taka náungann umsvifalaust af lífi á félagsmiðlum og í athugasemdakerfum er sífellt að verða svartari blettur í tilveru okkar allra í dag.
Hér erum við komin langt út fyrir körfubolta. Við hefðum öll gott af því að líta í eigin barm og skoða hvort við getum ekki verið umburðalyndari og jákvæðari í garð náungans þegar við sitjum við lyklaborðið.
Við ítrekum að við vitum alveg að við erum ekki barnanna best og erum alltaf með einhver leiðindi. Við erum bara að vekja athygli á þessu.
En hvað um það.
Við vorum að tala um Chris Paul og Clippers-liðið hans.
Við byrjuðum aðeins að tala um framtíðina hjá Paul og Clippers þegar einvígið við Oklahoma stóð sem hæst í síðustu viku. En nú eru lærisveinar Doc Rivers formlega komnir í sumarfrí og þá er hægt að skoða málið fyrir alvöru.
Í umræddri pælingu, sem við kölluðum Fáir hata Chris og þú finnur í seinni helmingnum á þessari færslu, vorum við að hugsa upphátt um það hvort það væri ekki eðlileg krafa að Chris Paul ætti að hafa drullast til að koma a.m.k. einu liði upp úr annari umferð úrslitakeppninnar ef hann væri þessi snillingur sem flestir vilja meina að hann sé.
Efnisflokkar:
Blake Griffin
,
Chris Paul
,
Clippers
,
DeAndre Jordan
,
Doc Rivers
,
Ekki lítill lengur
,
Glen Davis
,
Jamal Crawford
,
JJ Redick
,
Leikmannamál
,
Matt Barnes
,
Metnaður
Subscribe to:
Posts (Atom)