Thursday, May 22, 2014

Enn eitt metið hjá San Antonio
































Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili urðu í nótt sigursælasta tríó í sögu úrslitakeppninnar þegar þeir unnu sinn 111. sigur saman á því sviði. Þetta eru engir pappakassar sem þeir voru að setja á bak við sig - Lakers goðsagnirnar Magic, Kareem og Cooper. Langt er síðan þeir slógu Celtics-þrennunni Bird, Parish og McHale við.

Það getur vel verið að þú viljir ekki heyra það, en það eru bara ekki mörg lið í sögu NBA deildarinnar sem slá þessu Spurs-liði við.

Þett´er náttúrulega bara rugl.

Tríóið okkar - og raunar liðið allt - er hvað eftir annað að slá met í velgengni bæði í deildakeppni og úrslitakeppni. San Antonio-liðið hans Tim Duncan er sannarlega einstakt lið.

Eitt allra besta körfuboltalið allra tíma.

Öllum er að vísu skítsama, en þetta er staðreynd engu að síður.

Vittu til, þú átt eftir að finna léttan straum af fortíðarþrá leika um þig þegar þú montar þig af því við barnabörnin að þú hafir fylgst ítarlega með Spurs allar götur frá því Tim Duncan kom til sögunnar og þangað til hann og félagar hans Parker og Ginobili lögðu skó sína á hilluna árið 2087.

Við viðurkennum það að þetta lið hefur oft farið í taugarnar á okkur. Svona eins og gamall, strangur og afturhaldssamur kennari með allt á hornum sér. Stundum finnst þér hann fyrirsjáanlegur og stundum fer hann í allar þínar fínustu.

En þegar þú hugsar til hans eftir 25 ár, áttu eflaust eftir að minnast hans með hlýju.

Hann kunni þetta nú allt saman, helvískur!