Einhver varð að vinna þennan leik. Því ekki Spurs? Af hverju að breyta út af vananum? Því ekki að fá bara heimasigur með 700 stigum eins og tíðkast hefur í þessu einvígi?
Ok, San Antonio vann kannski ekki með 700 stigum, það var meira svona 117-89, en það hefði alveg eins getað verið 700 stiga munur á liðunum - slíkir voru yfirburðir San Antonio gegn Oklahoma í fimmta leik liðanna í Texas í nótt.
Við höldum óhikað áfram að öskra það úti á götum að þetta sé gæðaeinvígi þrátt fyrir að allir sigrarnir í því hafi verið öruggir. Fyrsti leikhlutinn í fimmta leiknum í nótt var sýning og ekkert annað.
Og rúsínan í afturendanum var HAMARINN hjá Russ og flest það sem Boris Diaw gerði fyrir Spurs.
Þetta var rosalega sterkur sigur hjá Spurs. Ekki bara af því nú hefur liðið tvo sénsa til að klára þetta og koma sér í úrslitin, heldur líka af því þetta var í fyrsta skipti í háa herrans tíð sem San Antonio nær að vinna Oklahoma með allan sinn mannskap, það er að segja: Serge Ibaka.
Margir voru á því að lykilmenn Oklahoma hafi verið þreyttir í nótt. Kannski aðeins, en það segir ekki alla söguna. Ibaka byrjaði leikinn eins og leiki 3 og 4, en svo dró greinilega af honum. Og við erum búin að ræða það hvað gerist ef hann er ekki 100% í vörn og sókn.
Æ, þú ræður hvort þú kennir þreytu um þetta eða hvað.
Það hafði líka mikið að segja í þessum leik að menn eins og Danny Green fá að borða heima hjá mömmu. Aukaleikarar Spurs (fyrir utan Diaw auðvitað) eru sumir með frammistöðukvíða þegar þeir koma á útivelli og ættu því samkvæmt að drulla á sig í næsta leik, sem fram fer í Oklahoma.
Allir sem koma að þessari rimmu hafa verið spurðir tuttugu sinnum að því hvernig standi á því að leikirnir séu svona ójafnir og hvernig standi á því að heimaliðið valti svona yfir andstæðinginn. Svarið við spurningunni er einfalt: það veit enginn neitt um körfubolta. Eitt af því sem gerir hann svona skemmtilegan.
Annars erum við búin að segja allt sem við höfum að segja um þetta einvígi. Vonandi fer það bara alla leið í sjö leiki og heldur áfram að vera svona vel spilað. Mætti koma aðeins meiri spenna í það líka, vissulega, en við grenjum ekkert þó það haldi áfram á nákvæmlega sömu braut. Þetta er fagurfræðilega tryllt einvígi.
Hey, hérna eru nokkrar myndir: