Saturday, May 31, 2014
Formsatriðin eru að baki hjá Miami
Vel gert, Miami. Það tók liðið fimmtán leiki að tryggja sér sæti í lokaúrslitunum og það er bara nokkuð flott. Liðið kláraði Indiana 117-92 í sjötta leiknum í nótt.
Leikurinn var spennandi í einhverjar fimm mínútur, en það varð fljótlega ljóst að flestir leikmanna Indiana hefðu alveg eins getað verið heima hjá sér. Margir þeirra höfðu hvorki kjark né nennu í sjötta leikinn, enda létu þeir gjörsamlega drulla yfir sig.
Ef þú hefðir sagt okkur að Miami ætti eftir að tapa þremur leikjum í úrslitakeppni Austurdeildarinnar í vor, hefðum við alveg trúað þér, en við hefðum líka alveg trúað Miami til að tapa fleiri leikjum á þessari leið.
Það er nefnilega löngu komið í ljós að Miami gerir oft bara það sem það þarf nauðsynlega að gera.
Það er ekki beint liðið sem hakkar andstæðinga sína, ekki nema ruslið í fyrstu umferðunum.
Við spáum í spilin fyrir lokaúrslitin þegar það liggur fyrir hver mótherjinn úr vestrinu verður. Þá fyrst fær Miami almennilega mótspyrnu á leiðinni að þriðja titlinum í röð.
Við sögðum ykkur það fyrir löngu og stöndum við það. Miami er að fá ódýrasta farmiða síðustu áratuga í lokaúrslitin og spilamennska Indiana síðustu daga gerir ekkert til að draga úr þeirri skoðun okkar.
Indiana var kannski alltaf með drulluna upp á bak í þessu einvígi, en það var t.d. meira að þakka lélegum leik Miami en góðum leik Indiana hvernig það vann fyrsta leikinn.
Heilt yfir var Indiana talsvert lakara í ár en á síðustu leiktíð og hefur ekki bætt sig neitt síðan í fyrra. Hvort sem það er þjálfaranum að kenna eða leikmönnunum sem eru búnir að spila eins og aumingjar af og til, þá verður það þjálfarinn sem tekur við blammeringunum. Hann verður eflaust látinn fara.
Lance Stephenson er með lausa samninga og við tippum á að einhver vitleysingurinn auðveldi ákvörðun Larry Bird að sleppa honum með því að bjóða honum stóran samning. Það er gríðarleg vinna framundan hjá þessu liði til að koma því í gang á ný og það er ekki ótrúlegt að gera verði talsverðar breytingar á því til að svo megi vera.
Þetta lið fer ekkert svona. Það getur ekki skorað. Það kemst ekki lengra.
Við erum aftur komin í sama gírinn varðandi Indiana og árin 2011-12. Þá vorum við að bölva yfir því af hverju þetta lið væri ekki betra, því það væri ágætlega mannað. Svo sýndi það loksins flotta hluti í úrslitakeppninni í fyrra og þá héldum við að þetta væri komið. Byrjunin í deildakeppninni í vetur gerði ekki annað en að styrkja okkur og alla aðra í þeirri trú.
En svo skeit þetta lið bara gjörsamlega á sig og eins og áður sagði, hefur liðið tekið skref aftur á bak, sem er afrek í ljósi þess að flestir lykilmanna liðsins eru ungir að árum og eiga að vera að bæta sig - ekki drulla í buxurnar.
Nei, við erum öll orðin hundpirruð á Indiana og þetta lið getur átt sig þangað til það er búið að pappíra sig. Það verður nóg að gera hjá Larry Bird í sumar.
Efnisflokkar:
Blástur
,
Drullan upp á herðar
,
Heat
,
Pacers
,
Úrslitakeppni 2014