Monday, May 26, 2014

Funaki


Nýsjálendingurinn ungi Steven Adams hjá Oklahoma er að setja svip sinn á úrslitakeppnina með baráttu sinni og hörku.

Hver veit nema hægt verði að búa til úr honum körfuboltamann - amk nógu góðan til að leysa Kendrick Perkins af á vaktinni.

Þið hafið líklega öll heyrt þessa sögu hundrað sinnum, en Adams er yngstur átján systkina. Faðir hans var breskur og frekar hress, því hann eignaðist átján börn með fimm konum.

Meðalhæðin á strákunum hans er 206 sentimetrar ef marka má Wikipedíu. Faðir hans lést árið 2006.

Fyrir utan það að hafa einstakt lag á því að reita menn til reiði og búa til vesen í teignum, er miðherjinn ungi að nýtast Oklahoma þokkalega á miðað við það hvað hann hefur litla reynslu.

Við settum hérna inn tvær myndir af húðflúrunum hans til gamans. Áritunin á handleggnum á honum segir Funaki, en það er millinafn kappans. Myndin á brjóstkassanum á honum segir sig væntanlega sjálf, en leiða má líkur að því að andstæðingar Adams líti svona út þegar þeir koma inn í klefa eftir leik - allir rifnir og tættir.