Monday, May 26, 2014

Oklahoma svaraði fyrir sig í nótt


Það var ekkert annað...

Við vissum vel að Serge Ibaka væri Oklahoma mikilvægur og erum búin að segja ykkur það. Ef þriðji leikur Oklahoma og San Antonio leiddi eitthvað í ljós - var það mikilvægi Ibaka í vörn og sókn. Heimamenn í Oklahoma eru nú búnir að minnka muninn í 2-1 í einvíginu við San Antonio eftir 106-97 sigur í þriðju viðureign liðanna í nótt.

Við reiknuðum með því að kátt yrði í höllinni og Ibaka myndi spila kannski fimm, tíu eða fimmtán mínútur á annari löppinni til að vera hetja - þó ekki væri nema til að reyna að blása félögum sínum Reed-brag í brjóst.

Hann gerði gott betur en það, sá stóri og skilaði 15/7 á 30 mínútum, fjórum vörðum skotum, nær fullkominni skotnýtingu og spilaði varnarleikinn sem var svo átakanlega fjarverandi í fyrstu tveimur leikjunum í San Antonio.

Flest einvígi breytast nokkuð þegar liðin skipta um leikstað og þetta var engin undantekning. Það var bara annað og miklu meira sem nýttist Oklahoma en heimavöllurinn í nótt.

Serge Ibaka ákvað að það væri nóg að hvíla sig í nokkra daga til að hrista af sér meiðsli sem sagt er að taki fjórar til sex vikur að batna.

Annað hvort er drengurinn annálað hörkutól eða þá hitt, að læknar og þjálfarar Oklahoma hafi logið eins og andskotinn sjálfur þegar þeir sögðu að hann væri úr leik það sem eftir lifði úrslitakeppni - jafnvel þó Oklahoma kæmist jafnvel í lokaúrslitin án hans.

Við trúum því alveg að Ibaka sé hörkutól, sjáðu bara hvernig hann spilaði í nótt, en við erum líka alveg handviss um að fréttirnar af andláti fótleggs hans séu helvítis lygi stórlega ýktar.

Já, þessi leikur var nákvæmlega það sem doktorinn pantaði. Við óttuðumst svo mjög að San Antonio ætlaði að setjast upp í jarðýtuna og loka þessu einvígi, en í staðinn er þetta orðið spennandi á ný og engin ástæða til að ætla annað en að þetta verði epískt alla leið.

Eftir þessa mögnuðu frammistöðu hjá Ibaka í nótt er stærsta spurningin í rimmunni auðvitað hvort hann nái að jafna sig nógu vel eftir þessi rosalegu átök í nótt og endurtaka leikinn á þriðjudagskvöldið. Það hlýtur að vera hæpið dæmi.

Við tölum eins og Ibaka sé eina ástæðan fyrir því að einvígið hafi snúist við. Þetta er vissulega ekki svona einfalt, en nú erum við búin að verða vitni að því hvað Oklahoma missir fótanna ef það missir annað hvort

Russell Westbrook eða Serge Ibaka í meiðsli. Oklahoma stóð sig ágætlega í fjarveru Westbrook í deildakeppninni í vetur, en við sáum að liðið var í gríninu án hans í úrslitakeppninni í fyrra. Það sama er uppi á teningnum þegar Ibaka er kippt út úr myndinni - það vitum við núna.

Það var sama hvort um var að ræða vörn eða sókn. Liðið gat ekkert án hans. Eins og við bentum á á dögunum, er erfitt að læra að spila án lykilmanns í fyrsta sinn í miðri úrslitakeppni og það í einvígi við San Antonio.

Eðlilegast væri að leyfa Oklahoma nú að spila nokkra leiki án Ibaka áður en því er haldið fram að liðið geti ekkert án hans, en það er bara ekkert í boði í úrslitakeppninni.

Það var vitað mál að þetta yrði erfitt í vörninni, en vandræðagangurinn var ekkert minni í sóknarleiknum, sem er með ólíkindum. Þið megið ekki misskilja þessa pælingu og halda að Ibaka sé mikilvægasti körfuboltamaður á jörðinni, það er hann ekki.

En það er komið í ljós að hann er algjör lykilmaður hjá Oklahoma og við þurfum í rauninni ekkert að ræða þetta einvígi meira ef hans nýtur ekki við í framhaldinu. Þá er þetta búið, eins og við skrifuðum á dögunum.

San Antonio þarf alls ekkert að fara í panikk þó þessi leikur hafi tapast, nú er bara að reyna að stela þeim fjórða. Pressan er enn á Oklahoma að ná að minnsta kosti að verja heimavöllinn.

Ef San Antonio vinnur næsta leik, eru 99% líkur á því að einvígið sé búið. Vinni Oklahoma hinsvegar, gæti farið að fara um gömlu refina í San Antonio. Þeir gætu ósjálfrátt farið að hugsa um einvígið við Oklahoma fyrir tveimur árum, þar sem þeir komust í 2-0 en töpuðu rest.

Þessi úrslit í nótt voru draumur fyrir óháða aðila eins og okkur sem viljum allar seríur í oddaleiki svo við fáum að sjá allan þann körfubolta sem í boði er.

Við skulum öll (nema stuðningsmenn Spurs auðvitað) leggjast á bæn og vona að Ibaka geti beitt sér þokkalega vel í næsta leik líka svo spennan haldist áfram í þessu.

Meiðsladraugurinn er búinn að fokka alveg nógu miklu upp í NBA síðustu misserin. Nú verður meiðslalistum einfaldlega hent í ruslið og spilað til þrautar.

Það er hágæðadæmi framundan, krakkar.

Næsta viðureign þessara liða er á þriðjudagskvöldið klukkan eitt eftir miðnætti og verður hún sýnd beint á Stöð 2 Sport, þar sem til stendur að sýna alla leiki sem eftir eru í úrslitakeppninni.