Sunday, May 18, 2014

Hvað þýða meiðsli Ibaka fyrir Oklahoma?


Við vitum alveg að við erum að taka djúpt í árina með því að segja svona. Við vitum að við erum að horfa á glasið hálftómt. En það eina jákvæða við meiðsli Serge Ibaka er það að nú vitum við hvaða lið verður fulltrúi Vesturdeildarinnar í lokaúrslitunum í ár. Það verður sama lið og í fyrra, San Antonio - í sinni síðustu ferð í lokaúrslit með þennan mannskap.

Það getur vel verið að við hefðum tippað á Oklahoma City ef þessi %#/&%$(%$ meiðsli hefðu ekki dottið inn á borðið hjá Ibaka á versta mögulega tíma, en í okkar augum er það ekki bölsýni að ætla San Antonio allt að því öruggan sigur í einvíginu gegn Oklahoma, heldur raunsæi.

Ibaka er sjaldnast með rosalega áberandi tölfræði hjá Oklahoma, en gríðarlegt vægi hans í leik liðsins hefur heldur ekkert með tölfræði að gera. Ibaka er nefnilega einn besti varnarmaður deildarinnar í sinni stöðu og á sínu sviði. 

Hann er reyndar búinn að vera dálítið ofmetinn síðustu ár af því hann ver mörg skot (fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum halda að sé beint samasemmerki milli þess að verja mörg skot og að vera topp varnarmaður, þó vitað sé að menn sem reyna að eltast við að verja öll skot sem á körfuna koma geti stundum gert meira ógagn en gagn með óþarfa villum), en það blokkeringarnar sem gera hann að góðum varnarmanni. 

Ibaka er langur, góður í hjálparvörninni og svo er hann rosalega fljótur á löppunum. Gaurinn er gjörsamlega út um allt á vellinum í vörninni og þú finnur ekkert menn til að fylla svona skörð bara úti í Bónus.

Ef þú tekur Ibaka út úr varnarsamhenginu hjá Oklahoma, verður teigurinn skyndilega miklu ákjósanlegri áfangastaður en áður - og það er einmitt í teignum sem vel spilandi liði San Antonio líður svo vel. 

Nægir þar að nefna menn eins og Tim Duncan og Tony Parker. Þeir skjálfa ekki á beinunum yfir mönnum eins og Kendrick Perkins. Óttast ekki að Perkins sé að fara að senda skotið þeirra upp í fimmtándu röð þegar þeir sækja á körfuna.

Eins og þeir sem sáu sjötta leik Oklahoma og LA Clippers sáu, er fagmaðurinn Nick Collison fyllilega fær um að koma inn í byrjunarlið Oklahoma ef svo ber undir. 

Hann skilaði gríðarlega flottum mínutum í þessum leik og barátta hans, leikskilningur og sendingageta voru áberandi á köflum. 

Málið er bara að Oklahoma á engan Collison til að koma af bekknum fyrir Collison og þar liggur hundurinn grafinn. Það sem OKC missir með Ibaka er öflugur varnarleikur, sæmilega stöðug skotógn og einn mikilvægasti pósturinn í leik liðsins af varamannabekknum (Collison).

Og af því Ibaka er svona hrikalega mikilvægur og af því talsmenn Oklahoma fullyrða að hann sé úr leik í úrslitakeppninni, fullyrðum við sömuleiðis að liðið eigi ekki möguleika í San Antonio - eða þá Miami ef því væri að skipta. Ibaka er bara þetta mikilvægur og fjarvera hans er breytan sem auðveldar allt tipperí til muna.

Þett´er búið! *

Okkur er alveg sama hvað Russell Westbrook, Kevin Durant og téður Collison spila vel. Án Ibaka á liðið ekki séns. Ibaka á það til að vera óstöðugur og hverfa í leik og leik í úrslitakeppninni, en hann jafnar það líka stundum út með því að eiga einn og einn toppleik.

Nei, elskurnar. Oklahoma á ekki séns. Og hversu &%#&%$/&%$ fúlt er það nú, að meiðsli séu nú að eyðileggja allt fyrir þessu annars 100% hrausta liði annað árið í röð?

 Við skulum segja ykkur það - það er &$#&$#/%$ fúlt. Djöfullinn sjálfur hirði öll þessi meiðsli alltaf hreint. Við héldum að þessi meiðslafaraldur væri á enda.

Þegar Tony Parker var spurður út í meiðsli Ibaka, sagðist hann taka þeim með hnefafylli af salti, hann segist ekki trúa því fyrr en hann tekur á því að Ibaka verði ekki með í einvíginu.

Oklahoma hefur samt enga ástæðu til að ljúga til um alvarleika málsins. Við höfum ekki orðið vör við að félagið sé að ljúga mikið til um meiðsli, þó það hafi stundum reynt að þegja yfir stöðunni á Westbrook þegar hann var meiddur. Við óttumst að hann sé úr leik, að minnsta kosti í einvíginu sem hefst annað kvöld.

Og fyrir vikið, krakkar, er þetta búið!

-------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þið haldið kannski að við séum að reyna að jinxa einvígið í þessa eða hina áttina með því að lýsa því yfir að það sé búið. Það er alls ekki vitlaus ágiskun, svona á miðað við það sem á undan er gengið í þessari úrslitakeppni, en það er samt ekki rétt. Það er alls ekki ætlunin hjá okkur að jinxa eitt eða neitt. Við erum bara í vægast sagt brjáluðu skapi yfir því að meiðsli séu enn og aftur að trufla valdajafnvægið í NBA deildinni og við erum alveg tilbúin að standa og falla með þessari yfirlýsingu - að Oklahoma eigi ekki séns í San Antonio án Serge Ibaka.

Með því að segja að þetta sé búið, erum við ekki að segja að San Antonio sé endilega að fara að sópa þessu eða eitthvað þannig. Það er alveg sama hvort þessi rimma fer 4-1, 4-2 eða 4-3... 

...þett´er bara búið.

- P.s. - það er náttúrulega fáránlegt að spá því að lið sem er strangt til tekið með tvo bestu leikmennina í seríunni sé að fara að tapa henni. Glórulaust, þannig séð. En þetta er SAMT búið!