Monday, May 19, 2014

NBA Ísland metur framtíðarmöguleika LA Clippers


Það fá ekki öll lið skrifaðan um sig pistil þegar þau falla úr leik í úrslitakeppninni. Þannig er það þó með Los Angeles Clippers. Það er ekki annað hægt en að fylgja þeim inn í sumarfríið með smá pælingu. Clippers nýtur jú þess vafasama heiðurs að vera langbesta körfuboltaliðið í NBA deildinni sem komst ekki upp úr annari umferð úrslitakeppninnar.

Einvígi Oklahoma og Los Angeles Clippers var auðveldlega langbesta rimman í annari umferðinni. Við segjum auðveldlega, af því San Antonio burstaði Portland og það var eina einvígið sem keppt gat við Oklahoma-Clippers, af því það var hitt einvígið í Vesturdeildinni.

Brooklyn var ekki inni í einvíginu við Miami nema í tvo daga og Indiana-Washington var eins og að horfa á tvo gamla karla í vatnsbyssuslag með stómapoka.

Twitter-löggan var fljót til þegar Clippers datt út og miðaði rafbyssum sínum auðvitað beint á Chris Paul.

Þegar við segjum Twitter-löggan, erum við að tala um skrímslið sem er fjölmiðlar árið 2014, þar sem allir verða að greina allt viðstöðulaust og án umhugsunar. Þar sem þeir sem eru ekki fullkomnir eru leiddir til slátrunar. Strax.

Við viðurkennum það hiklaust að við látum smitast af þessu ógeðslega viðhorfi. Þessi sífellda þörf fólks til að taka náungann umsvifalaust af lífi á félagsmiðlum og í athugasemdakerfum er sífellt að verða svartari blettur í tilveru okkar allra í dag.

Hér erum við komin langt út fyrir körfubolta. Við hefðum öll gott af því að líta í eigin barm og skoða hvort við getum ekki verið umburðalyndari og jákvæðari í garð náungans þegar við sitjum við lyklaborðið.

Við ítrekum að við vitum alveg að við erum ekki barnanna best og erum alltaf með einhver leiðindi. Við erum bara að vekja athygli á þessu.

En hvað um það.

Við vorum að tala um Chris Paul og Clippers-liðið hans.

Við byrjuðum aðeins að tala um framtíðina hjá Paul og Clippers þegar einvígið við Oklahoma stóð sem hæst í síðustu viku. En nú eru lærisveinar Doc Rivers formlega komnir í sumarfrí og þá er hægt að skoða málið fyrir alvöru.

Í umræddri pælingu, sem við kölluðum Fáir hata Chris og þú finnur í seinni helmingnum á þessari færslu, vorum við að hugsa upphátt um það hvort það væri ekki eðlileg krafa að Chris Paul ætti að hafa drullast til að koma a.m.k. einu liði upp úr annari umferð úrslitakeppninnar ef hann væri þessi snillingur sem flestir vilja meina að hann sé.

Nú er hann farinn í frí og við erum enn að hugsa um þetta. Og við erum sannarlega ekki ein um það að pæla í arfleifðinni hans Chris Paul.

Tuttuguogfjórirsjö

Eins og við spáðum um daginn, hefur það reynst flestum mjög erfitt að gagnrýna Paul harðlega vegna þess hve miklar virðingar hann nýtur í deildinni. Og réttilega svo. Við sögðum ykkur líka að það væri hart að dæma Paul svona. Og réttilega svo.

Við erum reyndar með ágætis lausn á þessu vandamáli. Hún er sáraeinföld og felst í því að gæta þess að setja Chris Paul í réttan styrkleikaflokk áður en við dæmum verk hans. Paul nýtur eins og áður sagði mikillar virðingar og nafn hans kemur oftar en ekki upp fljótlega á eftir LeBron James og Kevin Durant þegar NBA spekingar eru að tala um bestu körfuboltamenn í heimi.

Gallinn er bara sá, að þó Paul sé ef til vill í sæti þrjú til fjögur, fimm, sex eða sjö á lista bestu leikmanna deildarinnar, þýðir það ekki að hann sé af sama kalíberi og efstu menn listans. Og það þýðir að það þýðir ekkert að gera sömu kröfur á hann og við gerum á hina.

Auðvitað eigum við ekki að gera svona kröfur á nokkurn leikmann, en við gerum það nú alltaf samt sem áður.

Það hafa verið gerðar ofurmannlegar kröfur á LeBron James síðan löngu áður en hann fékk bílpróf. Mestu kröfur sem gerðar hafa verið á nokkurn körfuboltamann að okkar mati, ef við teljum með geðveikina sem við vorum að tala um í upphafi pistilsins og snertir þessa 24/7 frétta- og félagsmiðla sem rífa garnirnar úr atvinnuíþróttamönnum allan sólarhringinn og gagnrýna (harðlega) hvert einasta skref sem þeir taka bæði í einka- og atvinnulífinu.

Það er ekkert grín að búa undir svona löguðu. Þetta er lífsmáti sem þessir snillingar hafa kosið sér og þeir eru ekki á neinum sultarlaunum við það, en þetta sífellda áreiti sem fylgir þessu er nóg til að gera venjulegt fólk súrrandi geðveikt.

Þarna fórum við aðeins út fyrir efnið, afsakið það.

Tvær týpur úrvalsleikmanna

En já, LeBron James er ekki í sama styrkleikaflokki og Chris Paul, þó séu ekki mörg sæti á milli þeirra. James er nefnilega í efsta styrkleikaflokki sem til er sem körfuboltamaður.

James er þegar kominn í sama gæðaflokk og bestu körfuboltamenn allra tíma. Nægir þar að nefna menn eins og Larry Bird, Magic Johnson og Michael Jordan. Menn sem hafa á einhverjum tíma verið bestu körfuboltamenn í heimi og hafa átt stærstan þátt í því að liðin þeirra hafa orðið NBA meistarar - og það oftar en einu sinni.

Leikmenn í þessum efsta gæðaflokki verða að uppfylla ákveðna kríteríu og hún er tvíþætt.

Annars vegar er hér um að ræða miðherja sem voru svo fáránlega góðir að liðin þeirra unnu titil eftir titil vegna styrks þeirra í vörn og sókn. Þetta eru menn eins og Russell, Chamberlain, Jabbar, O´Neal og Olajuwon.

Hins vegar eru þetta svo menn eins og Bird, Magic og Jordan - gaurar sem voru góðir í öllu, gerðu allt vel og gerðu menn í kring um sig betri. Þeir gátu skorað, skapað, frákastað, varið og stolið, voru klikkaðir keppnismenn og brugðust liðum sínum sjaldan eða aldrei á ögurstundu - vildu alltaf fá boltann þegar allt var undir.

Það gefur augaleið að það eru takmörk fyrir því hvaða menn komast í þessa tvo flokka.

Í fyrri flokkinn komast ekki nema miðherjar og það eru 99% líkur á því að þú þurfir að vera 200 sentimetrar á hæð, helst góður íþróttamaður, brjálaður keppnismaður og með háa spilagreind til að komast í síðari flokkinn.

Chris Paul uppfyllir flest skilyrðin til að komast í síðari flokkinn, en eins og þú sérð, vantar aðeins upp á hjá honum eins og svo rosalega mörgum öðrum frábærum körfuboltamönnum.

Tvö augljósustu atriðin í þessu sambandi eru hæðin á honum og svo sú staðreynd að honum hefur bara gengið bölvanlega í úrslitakeppninni. Paul varð 29 ára fyrir nokkrum dögum en hefur enn ekki uppskorið að komast upp úr annari umferð úrslitakeppninnar. Menn í efsta styrkleikaflokki komast bara lengra. Það er bara þannig.

Þar með erum við búin að staðfesta að Chris Paul er "ekki nema" frábær körfuboltamaður. Svona leikmaður sem kemst oftar en einu sinni í fyrsta úrvalslið deildarinnar, er á einhverjum tímapunkti besti leikmaður deildarinnar í sinni stöðu og fær jafnvel fullt af atkvæðum í MVP-kjörinu.

En hann er ekki nógu sterkur til að taka liðið sitt á bakið, hvort sem það er gott eða lélegt, og drusla því langt í úrslitakeppninni. Dæmi um þetta gæti verið þegar Allen Iverson þjösnaðist af vanefnum í úrslit með Philadelphia um aldamótin.

Clippers-planið

Já, það er ekki tekið út með sældinni að vera stjarna í NBA deildinni, sérstaklega ef þú vilt að þín verði getið í umræðunni um þá bestu.

En nú er kominn tími til að láta þessa risavöxnu hliðarpælingu um Paul sjálfan á hilluna og skoða hvernig framtíðin horfir við liði Clippers. Hvaða ályktanir getum við dregið af þessu tímabili hjá Clippers? Var þetta gott ár hjá þeim eða lélegt? Og hvað ber framtíðin í skauti sér?

Þó við séum alltaf með einhver leiðindi og neikvæðni, er því öfugt farið með Clippers. Við erum bara sæmilega bjartsýn fyrir hönd þessa liðs. Öfugt við svo mörg félög í NBA deildinni, er Clippers nefnilega með hlutina sína á sæmilega hreinu þegar kemur að stefnumálum.

Það er Doc Rivers sem ræður og hann nýtur stuðnings fólksins á skrifstofunni, sem treystir honum til að vinna vinnuna sína án þess að vera að skipta sér að því sem það hefur ekki hundsvit á sjálft.


Þú mátt vera - þú þarft að fara

Ef þig langar að sjá sæmilegt dæmi um það hvernig er að vera með þjálfara sem er starfi sínu vaxinn eða skussa í vinnu, geturðu borið saman árin 2013 og 2014 hjá stóru strákunum Blake Griffin og DeAndre Jordan hjá Clippers.

Vissulega er eðlilegt að þeir bæti sig á milli ára svona ungir að árum, en þeir tóku báðir risastökk eftir að Doc Rivers tók við af Vinnie del Negro. Sérstaklega Jordan.

Undir stjórn Rivers er Clippers-liðið nú komið með plan í fyrsta skipti í áratugi. Það á eftir að koma í ljós hvernig félaginu gengur að fylgja þessu plani eftir, en það er komið ljómandi vel áleiðis.

Téður Chris Paul er með lyklana að öllu saman og jafnvel þó félagið stæði í stað og gerði ekkert í leikmannamálum, mætti eiga von á að liðið bæti sig talsvert á næsta ári ef ekki væri fyrir annað en bætingar þeirra Jordan og Griffin og öðru ári undir stjórn Rivers.

Okkur er þó til efs að Clippers eigi eftir að sitja á rassgatinu á næstu misserum. Allir sjá að það helsta sem liðið þarf að gera er að styrkja hjá sér framlínuna á varamannabekknum. Menn eins og Glen Davis, Hedo Turkoglu og Ryan Hollins eru ekki framtíðarlausnir á því sviði.

Og ef þið lesið pistilinn okkar frá því um daginn, sjáið þið að við höfum ekki trú á Jamal Crawford sem lykilmanni í liði með titilvonir. Það er dæmi sem gengur ekki upp.

Varamaður ársins eða ekki, Crawford er hvorki nógu viljugur varnarmaður né stöðugur skotmaður til að hægt sé að treysta á hann til að valda svona stóru verkefni. Crawford hentar best að koma inn af bekknum hjá lélegu liði og skjóta ábyrgðar- og glórulaust þangað til fer að blæða úr fingrunum á honum og augunum á þjálfaranum hans.

Chris Paul, DeAndre Jordan, JJ Redick og Matt Barnes, þó umdeildur sé, eru "keeperarnir" í þessu Clippers-liði. Sumir eru með leiðindi út í Matt Barnes, en staðreyndin er bara sú að hann er passlega klikkaður, fínn varnarmaður, kjarkaður stríðsmaður og er á skítalaunum. Svo við tökum hann, umhugsunarlaust.

Jared Dudley átti að vera á þessum lista, átti að vera frábær viðbót við þetta lið í vetur sem leið, en hann ákvað frekar að skíta á sig, vera alltaf meiddur, vera feitur og með undirhöku og geta ekki neitt! Hann hefur því sagt sig úr dæminu og er ekki velkominn næsta vetur nema hann pappíri sig algjörlega.

Danny Granger má alveg dilla sér þarna áfram ef hann verður á lágu kaupi, líkið af Hedo Turkoglu verður að fara og Darren Collison er hægt að nota í ákveðnum liðsuppstillingum - í öðrum er hann dragbítur á liðinu.

Að lokum getur vel verið að Willie Green sé bara með vinnu hjá Clippers af því hann er vinur hans Chris Paul, en staðreyndin er nú samt sú að hann gefur liðinu alltaf fínar mínútur þegar hann er notaður eins og klósettbursti þegar það hentar. Hann er fagmaður og því er hann inni.

Hvað svo, Clippers-drengir?

Af þessari skýrslu má ráða að Doc Rivers og félagar eiga erfitt verkefni fyrir höndum ef þeir ætla að búa til alvöru meistaraefni úr þessu liði í hinni ógnarsterku Vesturdeild.

Það er samt ekkert ómögulegt og með smá heppni, getur þetta lið tekið auka skref á næstu leiktíð og farið skrefinu lengra.

Þegar við segjum smá heppni, erum við ekki bara að meina heppni á leikmannamarkaðnum, heldur einnig þegar kemur að meiðslafaraldrinum sem gengið hefur yfir deildina síðustu misserin.

Þegar allt er talið er sem sagt meiri séns en minni á því að Clippers-liðið komi tvíeflt til leiks næsta vetur og bæti við sig. Nú svo hlýtur nú að koma að því einhvern daginn að ellismellirnir í San Antonio fari nú að hægja aðeins á sér og þá eru lið eins og Clippers klár í að stíga inn í hringinn í staðinn.

Eins og staðan í dag er það Oklahoma sem er liðið sem þú þarft að leggja ef þú ætlar í úrslit Vesturdeildar, enda er OKC liðið sem Clippers miðar byssum sínum á þessa stundina.

Clippers náði að láta Oklahoma hafa fyrir sér í annari umferðinni og með smá heppni hefði liðið náð að knýja fram oddaleik. Það hefði svo í rauninni alls ekki þurft mikla heppni til viðbótar til að hreinlega klára seríuna.

Munurinn á þessum liðum var ekki meiri en svo.

Á þessu má sjá að það er sko engin ástæða fyrir Clippers til að fara í eitthvað panikk. Liðið er þarna uppi. Það þarf bara smá tjúneríngu og aukamannskap til að taka næsta skref. Liðið verður betra næsta vetur þegar mannskapurinn verður orðinn vanari sýsteminu hans Doc Rivers og þá er ótalinn þátturinn sem gæti haft allra mestu áhrifin á gengi liðsins næst vetur - varnarleikurinn.

Ef Clippers-menn leggjast á eitt við að verjast betur og fá 1-2 góða leikmenn til viðbótar, á ekkert að vera því til fyrirstöðu að þeir fari í úrslit Vesturdeildar næsta vor með bjartari vonir í hjarta.

Já, því í fjandanum ekki?