Monday, May 19, 2014

Draumabyrjun á einvígi Indiana og Miami


Bæði leikmenn og stuðningsmenn Indiana Pacers hefur dreymt um það í allan vetur að ná efsta sæti Austurdeildarinnar í deildakeppninni til að fá að mæta Miami Heat á heimavelli í fyrsta leik úrslitaeinvígisins í austrinu.

Þetta leit allt svo ljómandi vel út þegar almanaksárið 2014 gekk í garð, en þegar voraði, var eins og draumurinn breyttist í martröð með ofurraunsæislegu yfirbragði. Þrátt fyrir allt mólætið í lok deildakeppninnar, náði Indiana nú samt efsta sætinu eftir að hafa gefið Miami öll möguleg tækifæri til að hirða það af sér.

Það var ekki hátt risið á leikmönnum Indiana eftir tvær fyrstu umferðir úrslitakeppninnar, þar sem liðið átti öllu samkvæmt að hafa rúllað yfir andstæðinga sína Atlanta og Washington. Það var nú aldeilis öðru nær, eins og þið vitið.
Því átti Indiana sér annan og háleitari draum þegar kom að fyrsta leiknum við Miami í gærkvöldi:

Að vinna.

Er það von að NBA-þenkjandi hluti heimsbyggðarinnar hafi haldið niðri í sér andanum þegar flautað var til leiks í Indiana í gærkvöldi. Hvaða Pacers-lið væri þar mætt til leiks; draumaliðið eða draslið?

Svarið kom strax í fyrstu sóknum heimamanna. Þetta var ekki ruslið, þessi lélega afsökun af körfuboltaliði sem tapaði fyrsta leiknum í einvíginu bæði við Atlanta og Washington. Þetta var Indiana liðið sem var í efsta sæti deildakeppninnar framan af vetri - liðið sem hefur staðið svo rækilega í Miami undanfarin þrjú ár.

Við vorum að tala um drauma, já. Svo við vitnum í goðsögnina Ali. Ef stuðningsmenn, leikmenn eða þjálfarar Indiana hefðu vogað sér að láta sér dreyma um að byrja einvígið svona vel - hefðu þeir átt að vakna með það sama og biðjast afsökunar.

Prófaðu að telja það saman. Við erum nokkuð viss um að fleiri sóknaraðgerðir Pacers hafi gengið upp í þessum eina leik en í fyrstu þrettán leikjunum í úrslitakeppninni til samans. Slík var lukkan og hamingjan hjá heimamönnum í gær. Ja hérna hér.

Okkur er sama hvort þú heldur með Indiana, Miami eða Einherja, þetta einvígi gat ekki með nokkru móti byrjað betur. Pacers 107 - Miami 96.

Indiana-liðið var með öllu óþekkjanlegt frá síðustu leikjum, sem var vel, því það var stundum að spila eins og hnúfubakur í eyðimörk. 

Það skondna var líka, að liðið á helling inni í varnarleiknum, þó hann hafi á tíðum verið afburðagóður. Indiana kann að hafa aðstoðað eitthvað við það, en Miami hitti nákvæmlega ekkert úr langskotunum - og þar lá mesti munurinn á liðunum.
Það sem var áhugaverðast við þennan leik, fyrir utan það hvað hann var drullu skemmtilegur og hvað Miami spilaði í besta falli hræðilega vörn, var hve ákveðinn, óeigingjarnan og grimman sóknarleik heimamenn spiluðu lengst af. Jú, jú, Miami spilaði afleita vörn á sinn mælikvarða, en okkur er alveg sama, Indiana spilaði blússandi sóknarleik.

Sérstaklega var gaman að sjá samvinnuna hjá byrjunarliðsmönnunum, sendingarnar fram og til baka milli þeirra Paul George (7 stoðsendingar), Lance Stephenson (8 stoðsendingar), David West (3 stoðsendingar) og meira að segja miðherjans Roy Hibbert (3 stoðsendingar). 

Hversu súrt er það að eini byrjunarliðsmaðurinn hjá Indiana sem gefur ekki eina einustu stoðsendingu, sé sjálfur leikstjórnandinn? Þetta er auðvitað George Hill, sem þó lauk keppni með 15 stig, en ef einhver byrjunarliðsmaður í allri NBA deildinni er líklegur til að skila eyðilegri tölfræðiskýrslu, er það hann.

Já, það var sannarlega fallegt að sjá boltann vinna manna á milli hjá Pacers í gær. Sérstaklega fannst okkur gaman að sjá sendingaverkið hjá David West, sem á tíðum bregður sér í öskudagsbúning Marc Gasol og dælir boltunum út og suður. Það vakti athygli okkar í leiknum að Miami réði gjörsamlega ekkert við West í þessi allt of fáu skipti sem hann laumaði sér niður á olnbogann og bjó til sókn. Það var jafn fallegt og það var hagkvæmt og óviðráðanlegt hjá Miami.

Stefna Indiana var að dæla boltanum í góðum skömmtum inn í teig eins og svo oft þegar það mætir Miami. Segja má að megnið af þeirri viðleitni hafi borgað sig í gærkvöldi og þó liðið hafi ekki hitt nema úr 8 af 19 langskotum sínum (sem er svo sem skítþokkalegt), passaði það ágætlega upp á boltann og vann frákastabaráttuna auðveldlega.

Kviss, bæng, búmm - leikur!

Þér finnst kannski ódýrt að við förum að spá fyrir um úrslit einvígisins þegar það er þegar byrjað, en við ætlum nú samt að gera það, alveg eins og við spáðum því að San Antonio tæki Oklahoma vestan megin. 

Auðvitað ætlum við að spá því að Miami hafi betur í þessu einvígi, þó það sé ekki að byrja glæsilega. Við spáum því að Miami taki þetta einvígi 4-2 og klári dæmið heima í sjötta leik.

En þá þurfa LeBron James og félagar að hrækja í lófana og spila miklu betur í næsta leik. Og hann verða þeir auðvitað að vinna, sérstaklega ef þeir ætla að vinna þetta 4-2 eins og við heimtum.

Mikið fjandi var þetta nú góður opnunarleikur á einvíginu - miklu betri en við þorðum nokkru sinni að vona - og við getum ekki beðið eftir að sjá þessi lið reyna að drepa hvort annað næstu dagana. 

Ah, gleðilegt sumar, krakkar. Þetta er svo gaman!

Hérna fyrir neðan eru svo nokkrar myndir úr partíinu. Þú ræður því hvort þú smellir á þær til að stækka þær eða bara fokkíngs skoðar þær ekki neitt! Eins og okkur sé ekki sama!